Rannsóknir og tölfræði
Jafnvægisás ferðamála er mælitæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins.
Ferðamálastofa annast talningar á ferðamönnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og framkvæmir m.a. kannanir á ferðavenjum erlendra ferðamanna og Íslendinga. Þá gefur Ferðamálastofa út árlega bæklinginn Ferðaþjónusta í tölum þar sem helstu hagstærðir greinarinnar eru samanteknar. Á vef Ferðamálastofu er hægt að nálgast tölur um fjölda ferðamanna og ýmsar rannsóknir, kannanir og gögn á sviði ferðamála.
Hagstofa Íslands gefur út ferðaþjónustureikninga (e. Tourism Satellite Accounts) og aflar gagna um skráningu gistinátta og gjaldeyristekjur.
Rannsóknamiðstöð ferðamála er starfrækt af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum að Hólum, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu. Markmið miðstöðvarinnar eru að efla rannsóknir á sviði ferðamála, styrkja tengsl háskólastarfs og atvinnulífs og auka þekkingu um ferðamál gegnum innlent og erlent samstarf.
Aðrir aðilar sem sinna rannsóknum og veita tölulegar upplýsingar á sviði ferðamála eru m.a. Íslandsstofa, Rannsóknarsetur verslunarinnar og þeir háskólar sem bjóða upp á námsleiðir í ferðamálafræði eða tengdum greinum.
Mælaborð ferðaþjónustunnar er vefsíða þar sem tölulegar upplýsingar um atvinnugreinina eru birtar með myndrænum hætti.
Meðal þess sem mælaborðið sýnir er fjöldi ferðamanna, framboð gistirýmis, nýting hótelherbergja, dreifing, nýting og tekjur Airbnb gistingar, komur og dreifing skemmtiferðaskipa, fjöldi starfsmanna í atvinnugreininni, gjaldeyristekjur og fjöldi bílaleigubíla. Þessar tölur má skoða nánar eftir árum, landsvæðum, sveitarfélögum, atvinnugreinum, þjóðernum o.fl.
Upplýsingar mælaborðsins eru byggðar á gögnum frá opinberum stofnunum og rannsóknaraðilum. Tölurnar eru uppfærðar jafnharðan og nýjar berast. Í flestum tilfellum sýna gögnin þróun síðastliðins áratugar fram á daginn í dag.
Sjá einnig:
Tenglar
Ítarefni
Ferðaþjónusta
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.