Hoppa yfir valmynd

Varða - Heildstæð nálgun áfangastaðastjórnunar

 

Varða er samstarfsverkefni á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.

Heitið byggir á þeim fjölmörgu vörðum sem finnast í íslenskri náttúru. Vörður geyma sögu og arfleifð. Þær eru hlaðnar úr staðarefni, tengjast umhverfinu, vísa veginn í átt að áfangastað og mynda leiðakerfi.

Vörður eru vel þekktar og eru hluti af ímynd landsins

Þær eru fjölsóttir áfangastaðir sem ferðamenn sækja allt árið um kring. Við umsjón þeirra er unnið að sjálfbærni á öllum sviðum, umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri. Staðirnir þurfa að sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulagningu m.a. hvað varðar hönnun innviða, aðgengi, fræðslu, öryggi, álagsstýringu, stafræna innviði o.fl.

Vörður geta annars vegar verið staðir þar sem töluverðir innviðir eru þegar til staðar. Þar geta verið takmarkaðir möguleikar á því að breyta því sem þegar hefur verið framkvæmt sem og mynstur ferðahegðunar. Miklir efnahagslegir hagsmunir
geta verið til staðar sem hafa byggst upp yfir tíma. Því er oft meiri áskorun (tæknilega, fjárhagslega og menningarlega) og tímafrekara að þróa þá í átt að Vörðum.

Vörður geta hins vegar verið staðir þar sem takmarkaðir eða engir innviðir eru til staðar. Á slíkum stöðum er tækifæri til að stýra þróuninni í sjálfbæra átt frá fyrstu stigum og byggja upp fjölbreytta upplifun með næmni fyrir staðaranda.

Hönnun merkisins byggir á sömu grunnstoðum og vörðurnar sjálfar. Í grunninn sýnir merkið form vörðu og táknar jafnvægi náttúru og mannvirkja, með vísun í íslenska arfleifð og mynstur. Áhersla var lögð á að merkið endurspeglaði sögu og sérstöðu þeirra ólíku merkisstaða á Íslandi, sem geta með tíð og tíma orðið Vörður. Hver varða er sjálfstæð, en jafnframt hluti af heild, sem varðar leið að áfangastað. Úr varð einstakt merki sem er í senn tímalaust, táknrænt og íslenskt. Brandenburg hannaði merki Vörðu.

Vörður verða markaðssettar til íslenskra og erlendra ferðamanna og er ætlunin að úr verði þekkt merki sem ferðamenn leita uppi við skipulagningu á ferðalögum sínum. Vörðum er ætlað að leiða ferðamenn áfram á leið sinni um landið.

Varða er skrásett vörumerki

Hönnun merkisins byggir á sömu grunnstoðum og vörðurnar sjálfar. Í grunninn sýnir merkið form vörðu og táknar jafnvægi náttúru og mannvirkja, með vísun í íslenska arfleifð og mynstur. Áhersla var lögð á að merkið endurspeglaði sögu og sérstöðu þeirra ólíku merkisstaða á Íslandi, sem geta með tíð og tíma orðið Vörður. Hver varða er sjálfstæð, en jafnframt hluti af heild, sem varðar leið að áfangastað. Úr varð einstakt merki sem er í senn tímalaust, táknrænt og íslenskt. 

Heiðursmerki

Staðir sem eru Vörður mega nýta sér sérstakt heiðursmerki, sem er sýnilegt fyrir gesti. Þetta merki er ekki ætlað til notkunar utan svæðisins.

Vörður geta fengið heiðursmerkið sem skjöld, sem greyptur er í stétt eða göngustíg. Myndin hér til hliðar er dæmi um skjöld. 

Vörður verða markaðssettar til íslenskra og erlendra ferðamanna og er ætlunin að úr verði þekkt merki sem ferðamenn leita uppi við skipulagningu á ferðalögum sínum. Vörðum er ætlað að leiða ferðamenn áfram á leið sinni um landið.

Varða er skrásett vörumerki. Eingöngu þeir staðir sem eru Vörður mega nota vörumerkið, samkvæmt samningi við menningar- og viðskiptaráðuneyti.

Nánari upplýsingar veitir [email protected].

Vinnustofur

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur nú birt niðurstöður og tillögur franskra ráðgjafa sem heimsóttu Jökulsárlón, Gullfoss, Geysi og Þingvelli haustið 2021 í tengslum við Vörðu, verkefni um heildstæða stjórnun áfangastaða. Meðal þess sem ráðgjafarnir leggja til er að hlúa að sérstöðu og staðaranda hvers áfangastaðar, hafa innviði lágstemmda og huga að miðlun menningararfs. 

Niðurstöðurnar byggja á vinnustofum sem ráðgjafarnir leiddu en þeir hafa unnið með álíka verkefni í Frakklandi sem kallast „Grand Sites de France.“

Auk ráðgjafanna og verkefnastjórnar Vörðu, sem samanstendur af fulltrúum menningar- og viðskiptaráðuneytis og umhverfis, orku og loftslagsráðuneytis, var lykilhagaðilum boðið að taka þátt í vinnustofunum þ.e. umsjónaraðilum staðanna, fulltrúum sveitarfélaga, áfangastaðastofu Suðurlands og rekstraraðilum þar sem við átti. 

Markmið vinnustofanna var að máta áfangastaðina við hugmyndafræði og viðmið Vörðu og að fá utanaðkomandi álit ráðgjafanna á ástand og þróun staðanna með hliðsjón af reynslunni í Frakklandi. Vinnustofurnar voru tvískiptar. Annars vegar var farið í vettvangsheimsóknir þar sem rýnt var í staðhætti, landslag, skipulag og innviðauppbyggingu og áhrif þessara þátta á upplifunina af stöðunum. Hins vegar voru haldnir vinnufundir þar sem leitast var við að móta sameiginlega sýn fyrir staðina til framtíðar. 

Niðurstöður og tillögur ráðgjafanna eru nú aðgengilegar hér fyrir neðan. Þær munu nýtast í áætlanagerð sem mun hjálpa stöðunum að færast nær hugmyndafræðinni sem unnið er samkvæmt, þannig að þeir geti orðið Vörður innan ákveðins tíma.

Niðurstöður vinnustofa



Myndböndin hér að neðan eru textuð á ensku.
Smella þarf á hnapp fyrir skjátexta á myndbandinu þegar spilun hefst. 

Niðurstöður vinnustofa Vörðu 2021 og tillögur ráðgjafa
Aðferðafræði Grand Sites de France - dæmi frá Cap Fréhel

Sites of Merit- information in English

 

Spurt og svarað um Vörðu

Á árunum 2010-2018 fjölgaði erlendum ferðamönnum á Íslandi hratt. Þrátt fyrir tímabundna niðursveiflu er allt sem bendir til þess að sú þróun haldi áfram. Því þarf að taka stór skref í að móta umgjörð fyrir áfangastaðastjórnun á Íslandi.

Fyrirmyndarstaðir í ferðaþjónustu voru eitt verkefna Vegvísis í ferðaþjónustu frá 2015. Markmið Vegvísis var að leggja traustan grunn fyrir farsæla og sjálfbæra þróun greinarinnar til framtíðar. Samkvæmt Vegvísi á að skilgreina Fyrirmyndarstaði og undirbúa þá samkvæmt bestu erlendu fyrirmyndum. Verkefnið hefur síðan hlotið nafnið Varða.

Uppbygging innviða á áfangastöðum ferðamanna um land allt hefur verið í fyrirrúmi undanfarin ár með aðkomu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og Landsáætlunar um uppbyggingu innviða. Megináhersla hefur verið á verndun náttúru í ljósi aukins álags vegna ferðamanna, en einnig aukið öryggi. Halda þarf áfram á þeirri braut en með nýrri heildstæðri nálgun sem tekur aukið tillit til upplifunargildis og staðaranda.

Með heildstæðri nálgun áfangastaðastjórnunar er uppbygging hugsuð út frá sérstöðu hvers staðar með áætlun til lengri tíma í stað smærri og dreifðari verkefna eins og núverandi úrræði ganga út á. Slík frumkvæðisnálgun ýtir undir það að vinna áfangastaðnum í haginn í stað þess að vera í viðbragðsham (e. proactive / reactive).

Verkefnið Varða samræmist öllum áherslum í Framtíðarsýn og leiðarljósum íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, en þau eru: einstök upplifun ferðamanna, umhverfisvernd, ávinningur heimamanna og arðsemi.

Góð reynsla er af sambærilegum verkefnum erlendis s.s. í Frakklandi, Noregi og Finnlandi. Horft hefur verið til franska kerfisins og merkisins Grand Sites de France við mótun Vörðu en af því er 20 ára reynsla.

Í stefnuskjali Vörðu má finna nánari upplýsingar um verkefnið, sem og á síðunni www.varda.is.  

 

Staðir, hvort sem er í opinberri eigu eða einkaeigu, sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu, geta orðið Vörður. Þetta eru fjölsóttir áfangastaðir sem laða að ferðamenn allt árið um kring. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri eða menningarsögulegar minjar.

Við umsjón þeirra er unnið að sjálfbærni á öllum sviðum; umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri.

  • Vörður geta annars vegar verið staðir þar sem töluverðir innviðir eru þegar til staðar. Þar geta verið takmarkaðir möguleikar til að breyta því sem þegar hefur verið framkvæmt, sem og mynstri ferðahegðunar. Miklir efnahagslegir hagsmunir geta verið til staðar sem hafa byggst upp á löngum tíma. Því getur verið meiri áskorun (tæknilega, fjárhagslega og menningarlega) og tímafrekara að þróa þá í átt að Vörðum en á sama tíma einnig mikilvægt vegna vinsælda þeirra og stöðu þeirra í hugum ferðamanna sem lykiláfangastaða á Íslandi.
  • Vörður geta hins vegar líka verið staðir þar sem takmarkaðir eða engir innviðir eru til staðar. Á slíkum stöðum er tækifæri til að stýra þróuninni í sjálfbæra átt frá fyrstu stigum og byggja upp fjölbreytta upplifun með næmni fyrir staðaranda. Slíkir staðir eru gjarnan ekki eins fjölsóttir og þeir fyrrnefndu, en að sama skapi eru þeir líklegir til að njóta góðs af kynningarmætti hins nýja vörumerkis Vörðu, með því að vera settir í sambærilegan flokk og þekktari og fjölsóttari staðir.

Hægt verður að sækja um á vefnum varda.is á árinu 2022. Á þróunar- og innleiðingarstigi verkefnisins árið 2021 verður einungis unnið með fyrstu staðina fjóra (Þingvelli, Geysi, Gullfoss, Jökulsárlón) en stefnt er að því að opna fyrir almennar umsóknir sem geta verið frá opinberum aðilum jafnt sem einkaaðilum árið 2022.

Gott er að byrja á því að máta stöðu staðarins við skilgreininguna og viðmiðin sem má finna á varda.is í stefnuskjalinu. Þegar opnað verður fyrir umsóknir mun verkefnisstjórn Vörðu velja þá staði sem geta hafið Vörðu-ferli.

Stefnt er að því að það verði Vörður í öllum landshlutum.

Fyrstu áfangastaðirnir sem eru í ferli til að verða Vörður eru Þingvellir, Geysir, Gullfoss (Gullni hringurinn), og Jökulsárlón.

Varða er þróunarverkefni, þess vegna er verkefnið hafið á stöðum í eigu ríkisins. Um er að ræða fjölsótta staði og því reynir á alla helstu þætti sem falla undir Vörðu. Þingvellir eru dæmi um stað sem á stutt í land með að verða Varða og nýtist þannig verkefninu vel til að þróa það hratt, ná fram sameiginlegum skilningi á eðli þess og markmiðum.

Ljóst er að Varða hefur takmarkað kynningargildi fyrir þessa vinsælu staði sem flestir ef ekki allir ferðamenn þekkja nú þegar. En einmitt vegna þess hve þeir eru þekktir og fjölsóttir er mikilvægt að áfangastaðastjórnun á þeim sé til fyrirmyndar, fyrir Ísland sem áfangastað. Sú nálgun stuðlar einnig að því að hámarka kynningargildi nýja vörumerkisins fyrir minna þekkta áfangastaði í kjölfarið, enda slást þeir þá í hóp með þekktum og vinsælum stöðum sem hafa haslað vörumerkinu völl og gefið því mikilvæga vigt.  

Staðirnir á Gullna hringnum eru dæmi um staði sem eru meira þróaðir og þar sem töluverðir innviðir eru þegar til staðar. Það getur verið meiri áskorun að þróa þá í átt að Vörðum. Um er að ræða mest sóttu áfangastaði landsins sem mynda eina heild og mikilvægt að gera þá þannig úr garði að þeir geti tekið á móti miklum fjölda gesta með sóma.

Jökulsárlón er dæmi um stað í eigu ríkisins sem er minna þróaður þó að hann sé á meðal vinsælustu áfangastaða landsins.

Á slíkum stöðum er tækifæri til að stýra þróuninni í sjálfbæra átt frá fyrstu stigum og byggja upp fjölbreytta upplifun með næmni fyrir staðaranda. Nýtt deiliskipulag við Jökulsárlón var samþykkt fyrr á árinu og unnið er að framtíðaráformum svæðisins hjá Vatnajökulsþjóðgarði.

Ekki stendur til að fyrirtæki eða manngerðir staðir geti orðið Vörður . Vakinn er gæðakerfi fyrir fyrirtæki sem eru með rekstur t.d. á afþreyingu (t.d. baðlón) og til eru önnur alþjóðleg gæðakerfi s. s. Svanurinn og ISO.

Ekki stendur til að takmarka aðgang almennings að stöðunum. Það eru margar leiðir til álagsstýringar og flestar þeirra mildar, s.s. fræðsla, merkingar og það hvernig innviðir eru hannaðir. Skráningarkerfi myndu flokkast til meiri inngripa.

Beiting álagsstýringar fer ávallt eftir aðstæðum á hverjum stað, í samráði við hagaðila og aðra nálæga áfangastaði ef við á.

Hér þarf að huga að tvennu: annars vegar að styrkja stóru seglana sem verða alltaf vinsælir og hins vegar að gera ráð fyrir sjálfsprottnum stöðum. Áfangastaðastofurnar á hverju svæði þurfa að forgangsraða hvar á að byggja upp og leiða samtalið um þessa sjálfsprottnu staði sem með tíð og tíma gætu þá sótt um að verða Vörður.

Já, eins og er.

Það fer eftir stöðunni á hverjum stað. Staðir eru mislangt komnir í sinni þróun. En gera má ráð fyrir að það taki flesta staði 2-3 ár að fara í gegnum ferlið. Liður í ferlinu eru vinnustofur og greining á því hverjir styrkleikar og veikleikar svæðisins eru og hvar eru tækifæri til úrbóta, til þess að geta mótað stefnu og aðgerðaætlun fyrir staðinn og unnið að veitingu vörumerkis eða endurnýjun þess.

Staðir sem eiga að verða Vörður þurfa að uppfylla eða vinna markvisst að viðmiðunum og sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja þeim við stjórnun og skipulagningu.

Verkefnistjórn er nú í höndum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Stjórnskipulag verkefnisins er enn í vinnslu, þ.m.t. árangursmat og önnur framkvæmdarleg atriði. 

Sjá einnig:

Vörumerki

Varða er skrásett vörumerki. Eingöngu þeir staðir sem eru Vörður mega nota vörumerkið, samkvæmt samningi við menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Nánari upplýsingar veitir [email protected].

Tengdar fréttir

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta