Landbúnaður
Landbúnaður er ein af mikilvægustu atvinnugreinum á Íslandi en hann gegnir mikilvægu hlutverki í fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Þá er landbúnaður uppistaðan í lífsviðurværi og atvinnu í afskektari dreifbýlissvæðum landsins og oftar en ekki sá grunnur sem ýmis þjónusta og nýsköpun hvíla á.
Landfræðileg staðsetning og jarðfræði Íslands eru takmarkandi þættir varðandi skilyrði til landbúnaðar. Vaxtatímabil eru stutt eða um það bil fjórir mánuðir. Ræktanlegt land nær allt að 200 m hæð yfir sjó og eru stór svæði landsins berskjölduð fyrir vind- og vatnsrofi.
Miklar breytingar hafa orðið í landbúnaði á síðustu áratugum með mikilli samþjöppun, þar sem bændum hefur fækkað og búin stækkað. Þá hefur neyslumynstur íslenskra neytenda breyst sem haft hefur mikil áhrif á hvernig landbúnaður hefur þróast.
Landbúnaður nær m.a. til eftirtalinna greina:
- Alifuglarækt
- Eggjaframleiðsla
- Garðyrkja
- Geitfjárrækt
- Hrossarækt
- Jarðrækt
- Loðdýrarækt
- Nautgriparækt
- Sauðfjárrækt
- Skógarframleiðsla
- Svínarækt
- Æðarrækt
Stefna varðandi framleiðslu landbúnaðarvara er sett fram í Búvörulögum nr. 99/1993 og Búnaðarlögum nr. 70/1998, en þar er kveðið á um opinber markmið í landbúnaðarstefnu Íslands. Á grundvelli opinberra markmiða semur íslenska ríkið við Bændasamtök Íslands um búvörusamninga þar sem nánar er mælt fyrir um stuðning og framkvæmd við framleiðslu landbúnaðarvara.
Vegna þeirra landfræðilegu skilyrða sem eru á Íslandi til framleiðslu landbúnaðarvara hafa stjórnvöld m.a. beitt tollvernd og beinum stuðningi við framleiðendur. Stuðningur við landbúnað er mismikill milli landa en er oft meiri í löndum þar sem skilyrði til landbúnaðar eru lakari vegna veðurfars og landfræðilegra aðstæðna.
Þar sem Ísland er eyja og einangrað frá öðrum löndum eru dýr og sérstaklega búfé hér á landi viðkvæmt fyrir þeim sjúkdómum sem gætu borist til landsins. Meginregla er að óhemilt er að flytja til landsins hvers konar dýr og erfðaefni þeirra en undantekningar eru frá því að uppfylltum tilteknum skilyrðum en lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, er ætlað að koma í veg fyrir útbreiðslu dýrasjúkdóma og útrýma þeim, komi þeir upp hér á landi. Eitt markmið landbúnaðar er að stuðla að framförum í íslenskri búvöruframleiðslu, samkeppnihæfni landbúnaðar og skipulögðu kynbótastarfi án þess þó að það komi niður á varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði. Þá er innan landbúnaðar einnig fjallað um málefni jarða og ábúðar en eitt meginmarkmið þess er að gott ræktunarland sé nýtt til landbúnaðar og matvælaframleiðslu.
Landbúnaður
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Tengt efni
Fréttir
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.