Fjallskil
Um göngur, réttir, fjárleitir og fleira gilda ákvæði laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986. Fjallskil fela í sér skyldu fjáreiganda (bónda) til að inna af hendi ákveðinn dagverksfjölda við fjárleitir. Sveitarstjórn er stjórn hvers fjallskilaumdæmis nema fleira en eitt sveitarfélag myndi saman eitt fjallskilaumdæmi, þá skulu þau sveitarfélög koma sér saman um stjórn fjallskilaumdæmis.
Fjallskilasamþykktir
Stjórn fjallskilaumdæmis ber ábyrgð á að gerð sé svokölluð fjallskilasamþykkt en í henni er kveðið á um ytri mörk fjallskilaumdæmisins, skiptingu umdæmisins í fjallskiladeildir, réttindi manna og skyldur vegna afnota afrétta og sameiginlegra sumarbeitilanda, fjallskil og smalanir heimalanda að vori og hausti. Stjórn fjallskilanefndar ber svo ábyrgð á að afla staðfestingar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á fjallskilasamþykktinni svo hún öðlist gildi. Fjallskilasamþykktir sem staðfestar hafa verið af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru hér að neðan.
Afréttir og heimalönd
Það svæði sem fjallskilasamþykktir gilda um skiptast í afrétti og heimalönd. Stjórn fjallskilaumdæmis skal halda skrá yfir alla afrétti sem nýttir eru, merki þeirra, hvaða jarðir geta rekið á afréttinn og hverjir séu afréttareigendur séu þeir í einkaeign. Þá ber stjórn fjallskilaumdæmis einnig ábyrgð á að fylgst sé með ástandi afrétta og heimalanda í samráði við Landgræðslu ríkisins. Ef talin er þörf á bættri meðferð afréttar og verndunar á gróðri er samkvæmt lögunum unnt að grípa til eftirfarandi úrræða:
- Ákveða að á hausti skuli færðar fram, eða að smalað sé af tilteknum hlutum afréttar fyrir göngur.
- Ákveða, hvenær fyrst megi reka hverja búfjártegund á afrétt.
- Láta girða sérstök svæði á afréttum eða í heimalöndum fyrir hrossabeit.
- Banna, að stóðhross séu rekin á afrétt, enda séu þau þá undanskilin fjallskilum.
- Eiga frumkvæði að félagslegum aðgerðum til hagabóta í samráði við Landgræðslu ríkisins.
- Eiga frumkvæði að ítölu.
Göngur og réttir
Mælt er fyrir um í lögum um afréttarmálefni og fjallskil hvernig haga skuli göngum og réttum en það er þó útfært með nánari hætti í fjallskilasamþykkt. Öllum þeim sem hafa búfé undir höndum sem fjallskilaskylt er, ber að taka þátt í göngum og hreinsun heimalanda samkvæmt lögunum. Þá er eigendum eyðibýla skylt að smala heimalands jarðar vor og haust sem og önnur fjallskil.
Búfjármörk
Í lögunum er sérstaklega fjallað um svokölluð búfjármörk en það eru örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Eiganda er skylt að hafa glöggt mark á búfé sínu. Um notkun búfjármarka, ákvæði um lit, gerð og notkun plötumerkja er fjallað í reglugerð. Stjórn hvers fjallskilaumdæmis ber ábyrgð á útgáfu markaskrár fyrir sitt umdæmi. Mörk ganga að erfðum og þau má gefa og selja. Því eru þó settar ákveðnar takmarkanir vegna banni við sammerkingum ef hætta er á misdrætti að mati markavarðar. Markavörður er sá aðili sem stjórn fjallskilaumdæmis ákveður að hafa skuli umsjón með mörkum og gerð og útgáfu markaskrá.
Markanefnd
Markanefnd hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. og reglugerðum settum samkvæmt þeim ásamt samþykktum um mörk og markaskrá. Þá skal nefndin vera til ráðuneytis um þá mál. Einnig sker markanefnd úr um ágreining sem upp getur komið vegna sammerkinga. Matvælaráðherra skipar þrjá menn í nefndina til átta ára í senn. Einn er skipaður eftir tilnefningu Bændasamtaka Íslands, annar eftir tilnefningu Matvælastofnunar og þriðji án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn eru skipaðir með sama hætti.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Fjallskilasamþykktir
TENGD VERKEFNI
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.