Hoppa yfir valmynd

Aðlögunarsamningar í sauðfjárrækt

Matvælaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um aðlögunarsamninga í sauðfjárrækt. 

Nánari upplýsingar um aðlögunarsamninga er að finna í reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1253/2019. VII. kafla,  sjá hér fyrir neðan. 

Aðlögunarsamningar

30. gr.

Framleiðendur sem hyggjast hætta í sauðfjárbúskap eða fækka vetrarfóðruðum kindum um a.m.k. 100 geta sótt um aðlögunarsamning. Framleiðendur geta óskað eftir að gera slíka samninga til 2022. Aðlögunarsamningar sem gerðir eru árið 2019 gilda í fjögur ár en samningar gerðir síðar gilda í þrjú ár. Með gerð aðlögunarsamnings skuldbindur framleiðandi sig til að fækka vetrar­fóðruðum kindum og í staðinn að byggja upp nýjar búgreinar, búskaparhætti eða hasla sér völl á öðrum sviðum m.a. til þess að stuðla að nýsköpun og náttúruvernd. Framleiðandi í sauðfjár­rækt sem uppfyllir skil­yrði 3. gr. getur sótt um aðlögunarsamning.

31. gr.

Hámarksfækkun vetrarfóðraðra kinda með aðlögunarsamningum skal vera 10% miðað við fækkun frá haustskýrslu árið 2016 í Bústofni. Ráðherra er heimilt að endurmeta hlutfall hámarks­fækkunar, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, með tilliti til innanlandsvogar og þróunar á framboði og eftirspurn sauðfjárafurða. Ákvörðun ráðherra vegna næsta almanaksárs á eftir skal liggja fyrir eigi síðar en 31. desember.

32. gr.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins auglýsir eftir umsóknum og annast alla samningagerð við framleiðendur. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar. Framleiðnisjóður fjallar um þær umsóknir sem berast, forgangsraðar ef þörf er á, sjá nánar 33. gr., og metur hvort þær uppfylla skilyrði um markmið og önnur ákvæði reglugerðarinnar. Framleiðnisjóður sér um að tilkynna framleiðanda um afgreiðslu umsóknar eigi síðar en 1. apríl og gera við hann aðlögunarsamning eigi síðar en 20. nóvember.

33. gr.

Verði fjöldi samninga takmarkaður skal forgangsraða umsóknum. Verkefni tengd sauðfjár­afurð­um skulu þá njóta forgangs. Auk þess skulu þeir framleiðendur sem hyggjast hætta sauðfjár­búskap njóta forgangs. Stjórn Framleiðnisjóðs setur verklagsreglur við úthlutun og forgangsröðun sem stað­festar skulu af framkvæmdanefnd búvörusamninga. Framleiðnisjóður sendir framkvæmda­nefnd búvörusamninga skýrslu yfir samþykktar umsóknir til upplýsinga.

34. gr.

Framleiðandi skuldbindur sig til að fækka um að minnsta kosti 100 fjár á vetrarfóðrun. Samn­ings­bundinni fækkun skal vera lokið á því ári sem samningur tekur gildi. Við mat á fækkun fjár skal miða upphafsstöðu fjárfjölda við haustskýrslu ársins 2019 og lokastöðu við haustskýrslu ársins 2021. Þá skal hafa til hliðsjónar skýrsluhaldsupplýsingar á gildistíma samningsins til að sannreyna að um umsamda fækkun sé að ræða. Framleiðendur skuldbinda sig til að skila fé með fullorðins­númeri til slátrunar og fjölga ekki fé á vetrarfóðrun né kaupa greiðslumark á gildistíma samnings­ins.

35. gr.

Framleiðandi með greiðslumark skal innleysa það að lágmarki þannig að skilyrði 1. mgr. 13. gr. fyrir því að fá óskertar beingreiðslur séu uppfyllt þegar fækkun vetrarfóðraðs sauðfjár samkvæmt aðlög­unar­samningi er komin til framkvæmda. Innleyst greiðslumark vegna aðlögunarsamninga fellur niður.

 

 

 

Umsóknarfrestur er 31. desember n.k. Sækja skal um á meðfylgjandi eyðublaði og skila undirrituðu á [email protected]

Eyðublaðið má finna hér : Eyðublað fyrir aðlögunarsamninga í Sauðfjárrækt (excel)

 

 

 

36. gr.

Framleiðandi fær stuðningsgreiðslur á samningstímanum í samræmi við ákvæði reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt á gildistíma samningsins þrátt fyrir að hann stundi ekki sauðfjárrækt, þó að hámarki í fjögur ár. Greiðslur vegna býlisstuðnings og ullarnýtingar eru þó undanskildar. Gæðastýr­ingargreiðslur skulu miðast við framleiðslu sl. tveggja ára enda skal framleiðandi standast skilyrði gæðastýringar á samningstímanum, sé hann ekki að hætta sauðfjárrækt. Aðrar stuðn­ings­greiðslur sem framleiðandi hafði við gildistöku aðlögunarsamnings taka almennum breytingum sem kunna að verða á úthlutun þeirra árlega. Framleiðandi verður áfram rétthafi svæðis­bund­ins stuðnings á gildis­tíma samningsins. Gildir það jafnt um samninga þar sem framleið­andi hættir fjárbúskap og samninga um hlutfallslega fækkun.

Hjá þeim framleiðendum sem hætta í sauðfjárbúskap miðast greiðslur vegna aðlögunarsamninga við ærgildi fyrir innlausn. Gæðastýringargreiðslur og svæðisbundinn stuðningur miðast við meðal­fjárfjölda og framleiðslu síðastliðinna tveggja ára eftir því sem við á.

Hjá þeim framleiðendum sem halda áfram sauðfjárbúskap miðast beingreiðslur vegna aðlög­unar­samnings við innleyst greiðslumark. Hlutfall annarra greiðslna verður það sama og hlutfallsleg fækkun vetrarfóðraðs fjár sem samið er um. Um greiðslur út á framleiðslu eða gripafjölda sem áfram er á búinu fer eftir almennum ákvæðum reglugerðarinnar.

37. gr.

Aðlögunarsamningar sem gerðir eru 2019 taka gildi 1. janúar 2020 og greiðslur samkvæmt þeim gilda í fjögur ár. Aðlögunarsamningar gerðir síðar taka gildi 1. janúar komandi árs eftir samnings­gerð og gilda í þrjú ár.

38. gr.

Aðlögunarsamningur skal fela í sér áætlun framleiðanda, sem samþykkt er af Framleiðnisjóði, um nýja starfsemi eða nýsköpun í samræmi við markmið 30. gr. Framleiðanda ber að stunda á samn­ings­tímanum búrekstur eða aðra starfsemi í samræmi við áætlunina. Í aðlögunarsamningi skulu markmið og vörður sem settar eru um árangur koma fram með skýrum hætti m.a. til að auðvelda eftirlitsskyldu stjórnvalda með samningunum.

39. gr.

Samningnum skal þinglýst sem kvöð á viðkomandi jörð. Kvöð samkvæmt samningnum gildir út samningstímann, óháð því hvort eignarhald eða umráð yfir jörðinni flyst milli aðila. Ráðherra hefur heimild til að aflétta þessari kvöð af jörðum. Samningurinn er framseljanlegur milli aðila á jörðinni, t.d. við breytingar á eignarhaldi eða ábúð jarðar og gilda þá ákvæði 11. og 12. gr. um aðilaskipti á lögbýli.

40. gr.

Komi í ljós verulegur misbrestur á því að framleiðandi uppfylli skyldur sínar samkvæmt samn­ingi er heimilt að rifta samningnum gagnvart viðkomandi framleiðanda og krefja hann um endur­greiðslu þeirra fjármuna sem þegar hafa verið greiddir á grundvelli samningsins.

Ef í ljós kemur á gildistíma samningsins að forsendur hafi brostið fyrir þeirri starfsemi sem fram­leiðandi samdi um að hefja í aðlögunarsamningi getur framleiðandi óskað eftir því að uppfæra eða breyta áætlun sinni um starfsemina. Sé talið að góð rök séu færð fyrir breytingum á áætlun, skal leitað til Framleiðnisjóðs um mat á uppfærðri áætlun. Að fengnu jákvæðu mati Framleiðnisjóðs er heimilt að samþykkja breytingar á áætlun.

41. gr.

Framleiðandi er skuldbundinn til að hafa lögheimili og fasta búsetu á lögbýlinu á gildistíma samn­ingsins og halda jörðinni í góðu ásigkomulagi, og skal þar horft til viðmiðunarreglna um mat á umhverfis­þáttum í viðauka III í reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Þó er framleiðanda heimilt að fengnu skriflegu samþykki að starfrækja hluta þeirrar starfsemi sem fram kemur í áætlun á bújörð í sama eða aðliggjandi sveitarfélagi.

42. gr.

Framleiðendur skulu í lok hvers árs skila skýrslu þar sem fram koma upplýsingar um markmið og framvindu verkefna samkvæmt samningnum. Skýrslunni skal skilað fyrir 31. desember. Árlegar skýrslur frá framleiðendum skulu yfirfarnar eftir settum verklagsreglum. Framleiðendur skulu veita eftirlitsaðila allar þær upplýsingar sem tengjast verkefninu ef þess er krafist. Eftirlitsaðila er heimilt að fara í heimsóknir á lögbýli framleiðenda ef þörf krefur. Framleiðendum er skylt að veita þær upplýsingar sem óskað er eftir og eru nauðsynlegar vegna eftirlits.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta