Hoppa yfir valmynd

Styrktarflokkar til framleiðenda í nautgriparækt

Nautgriparækt

Þessar greiðslur byggja á heildargreiðslumarki sem ákveðið er fyrir hvert verðlagsár (almanaksár) og skiptist niður á greiðslumark lögbýla. Greiðslumark lögbýla reiknast í lítrum mjólkur og skiptist hlutfallslega milli lögbýla á sama hátt og greiðslumark síðasta verðlagsárs.

Útreiknað greiðslumark lögbýlis veitir framleiðanda, sem uppfyllir skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning í nautgriparækt, rétt til mánaðarlegra beingreiðslna úr ríkissjóði.

Greiðslur á innvegna mjólk eru greiddar mánaðarlega á alla innvegna mjólk óháð greiðslumarki. Heildarupphæð árlegs stuðnings skiptist í 12 jafna hluta þannig að jafnhá upphæð er greidd í hverjum mánuði óháð framleiðslumagn. Upphæðin í hverjum mánuði deilist jafnt á alla innvegna lítra í þeim mánuði.

Greiðslu á innvegna mjólk fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning í nautgriparækt.

Gripagreiðslum skal ráðstafað til aðila sem eiga kýr, sem skráðar eru í afurðaskýrsluhaldi og bera kálfa a.m.k. annað hvert ár. Heildargripagreiðslur skiptast í tvo flokka, mjólkurkýr og holdakýr. Skipting heildarfjárhæðar milli flokkanna er endurskoðuð árlega af framkvæmdanefnd búvörusamninga ef þurfa þykir. Árlega verður greiðslum sem til ráðstöfunar eru í hvorum flokki deilt á allar skýrslufærðar kýr í viðkomandi flokki. Greiðslur til hvers framleiðanda ráðast af fjölda kúa á hverju búi skv. töflu 2 í viðauka við samning um starfsskilyrði nautgriparæktar dags. 19. febrúar 2016.

Gripagreiðslur fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning í nautgriparækt.

Með tillögu framkvæmdanefndar búvörusamnings skv. 7. gr. reglugerðar um stuðning í nautgriparækt, skal ráðstafa framlögum til að einangrunarstöðva vegna innflutnings á erfðaefni holdnautgripa. Hér er um að ræða verkefni sem styður við framleiðslu nautakjöts. Þessar greiðslur renna ekki beint til framleiðenda.

Sláturálag er greiðsla til stuðnings á framleiðslu nautakjöts og hefur það að markmiði að auka framboð og gæði nautakjöts. Fjárhæð sem ráðstafað er til að greiða sláturálag á nautakjöt skiptist jafnt á þá skrokka sem fullnægja þremur gæðakröfum, að lágmarksþyngd grips sé 250 kg., gripur sé yngri en 30 mánaða og nautakjöt falli ekki í EUROP gæðaflokk P+, P og P- . Greiðslum er ráðstafað til framleiðenda ársfjórðungslega í maí, ágúst, nóvember ár hvert og febrúar árið á eftir og skipta þeir með sér greiðslum úr ¼ hluta heildarframlaga hvers árs. Miða skal við slátrun á tímabilinu 1. janúar til 31. desember ár hvert.

Sláturálag fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning í nautgriparækt.

Greidd eru framlög til fjárfestingastuðnings í nautgriparækt. Tilgangur hans er að stuðla að hagkvæmari búskaparháttum, bættum aðbúnaði nautgripa og aukinni umhverfisvernd.

Framleiðandi sem uppfyllir skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning í nautgriparækt getur sótt um fjárfestingastuðning.

Stuðningurinn takmarkast við nýframkvæmdir og endurbætur á eldri byggingum sbr. 27. gr. reglugerðar um stuðning í nautgriparækt

Framlög geta numið allt að 40% stofnkostnaðar, en hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag en 10% af árlegri heildarupphæð fjárfestingastuðningsins.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga gerir tillögur að ráðstöfun framlaga sem ætluð eru til framleiðslujafnvægis skv. 6. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Hér er um að ræða framlög sem ráðstafað verður ef bregðast þarf við breytingum í framboði og eftirspurn á markaði. Nefndinni er heimilt að ráðstafa slíkum fjármunum til eftirtalinna verkefna: a. Eflingu á markaðsfærslu nautgripaafurða, b. Sérstakar uppbætur fyrir slátrun kálfa og kúa, c. Tilfærslu í aðra framleiðslu á kúabúum, d. tímabundnar býlisgreiðslur óháðar framleiðslu. Upplýsingar um ráðstöfun fjármunanna er að finna í fundargerðum framkvæmdanefndarinnar sem birtar eru á vef matvælaráðuneytisins.

Í 23. gr. reglugerðar um stuðning í nautgriparækt, er ákvæði um ráðstöfun greiðslna vegna kynbótastarfs í nautgriparækt. Þessar greiðslur renna ekki beint til framleiðenda en eru nýttar til að niðurgreiða kostnað þeirra við sæðingaþjónustu.

Síðast uppfært: 11.12.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta