Styrktarflokkar til framleiðenda í sauðfjárrækt
Sauðfjárrækt
Framleiðendur í sauðfjárrækt fá greiddar beingreiðslur samkvæmt skráðu greiðslumarki í byrjun hvers árs. Upplýsingar um stöðu greiðslumarks er að finna í greiðslumarksskrá sem vistuð er í matvælaráðuneytinu. Beingreiðslur samkvæmt greiðslumarki breytast í samræmi við töflu 1 í Viðauka 1 við samkomulagi m.a. um breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárrækar frá 15. janúar 2024. Til að fá fullar beingreiðslur þarf framleiðandi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Nái gripafjöldi ekki framangreindu lágmarki skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Markaður með greiðslumark er haldinn 15. nóvember ár hvert og þar geta framleiðendur aukið við greiðslumark sitt með kaupum eða minnkað við sig með sölu en ríkið innleysir það greiðslumark sem ekki selst á markaði. Verðið á greiðslumarkinu er fast og miðast við núvirtar beingreiðslur næstu tveggja ára.
Beingreiðslur út á greiðslumark fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.
Álagsgreiðslur gæðastýringar greiðast á allt framleitt kindakjöt ætlað á innanlandsmarkað frá framleiðendum sem uppfylla kröfur um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu, hollustu afurða og önnur skilyrði reglugerðar nr. 511/2018 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Frekari upplýsingar um greiðslurnar o.fl. er að finna í 20. gr. reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Býlisstuðningur er greiddur til hvers framleiðanda sem fellur í ákveðna stærðarflokka eftir fjölda vetrarfóðraðra kinda samkvæmt haustskýrslu í Bústofni árið á undan. Frekari upplýsingar um útreikning er að finna í 29. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt. Markmið þessa stuðnings er að styrkja byggð og styðja við fjölskyldubú. Býlisstuðningur er hins vegar ekki greiddur til framleiðenda sem eiga 100 vetrarfóðraðar kindur eða færri.
Býlisstuðning fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.
Greiddur er stuðningur til framleiðanda vegna framleiðslu á ull. Greiðslum er deilt niður hlutfallslega eftir gæðum á hvert kíló hreinnar ullar miðað við alla innlagða ull á tímabilinu 1. janúar- 31. desember samkvæmt verðskrá. Skilyrði fyrir greiðslum til framleiðenda er að ullin hafi verið flokkuð og metin í gæðaflokka sbr. ákvæði 17. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt. Allt að 15% fjármunanna rennur til þess að niðurgreiða kostnað við söfnun á ull skv. samningum þar um.
Ullarnýtingarstuðning fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.
Greidd eru framlög til fjárfestingastuðnings í sauðfjárrækt. Tilgangur hans er að stuðla að bættum aðbúnaði sauðfjár og hagkvæmari búskaparháttum.
Fjárfestingarstuðning fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.
Fjárfestingastuðningur er veittur vegna framkvæmda sem stuðla að bættum aðbúnaði sauðfjár og hagkvæmari búskaparháttum. Stuðningurinn takmarkast við nýframkvæmdir og endurbætur á eldri byggingum sbr. 24. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.
Fjárfestingarstuðningur fyrir hvern framleiðanda getur að hámarki numið 40% af stofnkostnaði ef heildarkostnaður fer yfir eina milljón króna. Hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag ár hvert en 10% af árlegri heildarupphæð fjárfestingastuðnings skv. fjárlögum.
Greiddur er svæðisbundinn stuðningur í sauðfjárrækt. Markmið svæðisbundins stuðnings er að styðja þá framleiðendur sem eru á landsvæðum sem eru háðust sauðfjárrækt og framleiðendur sem hafa takmarkað möguleika á annarri tekjuöflun.
Svæðisbundinn stuðning fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.
Þá þurfa framleiðendur einnig að uppfylla skilyrði fyrir veitingu svæðisbundins stuðnings sem er að finna í 19.-22. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.
Styrktarflokkar til framleiðenda
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.