Dómar
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. nóvember 2016
Árið 2014 stefndi fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstólum. Í málinu hafði félagið farið þess á leit við Matvælastofnun að hún heimilaði innflutning á 83 kílóum af fersku nautakjöti frá Hollandi án þess að gerð væri krafa um frystingu. Matvælastofnun hafnaði þeirri beiðni og var kjötinu fargað. Félagið taldi að ákvörðun um stöðvun innflutnings til landsins hefði verið í andstöðu við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Undir rekstri málsins var að beiðni félagsins leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.
Niðurstaða héraðsdóms var sú að íslensk stjórnvöld hafi á grundvelli EES-samningsins ekki haft frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning á hrárri kjötvöru heldur hafi verið bundin af viðeigandi ákvæðum sem tekin hafa verið upp í viðauka EES-samningsins.
Héraðsdómur vísaði í dómi sínum til þess að ríkisstjórn Íslands hefði í tvígang lagt fram frumvörp til laga sem ætlað var að innleiða tilskipun 89/662/EBE í íslenskan rétt. Í þeim hafi innflutningur á hráu ófrystu kjöti verið heimilaður. Þetta hafi breyst með frumvarpi á löggjafarþingi 2009-2010. Í dómi Héraðsdóms segir síðan:
„Ganga verði út frá því, svo sem athugasemdir með frumvarpinu bera með sér, að íslensk stjórnvöld hafi verið þess fullmeðvituð að með því að samþykkja frumvarpið á þann veg og með ákvæðum reglugerðar nr. 448/2012, væri ekki verið að innleiða EES-rétt í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti.“
Dómurinn vísaði jafnframt til þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefði komist að niðurstöðu um brot á skuldbindingum að EES-rétti á árinu 2013. Hefði því verið um vísvitandi og alvarlegt brot á samningsskuldbindingum íslenskra stjórnvalda að ræða sem leiddi til tjóns fyrir Ferskar kjötvörur ehf. Með vísan til framangreinds var íslenska ríkið dæmt til að greiða Ferskum kjötvörum ehf. skaðabætur.
Dómur EFTA-dómstólsins frá 14. nóvember 2017
Með dómi kveðnum upp 14. nóvember 2017 í sameinuðum málum E-2-3/17 komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og tilteknir hlutar reglugerðar brytu gegn 5. gr. tilskipunar 89/662/EBE um dýraheilbrigðiseftirlit í viðskiptum innan bandalagsins til að stuðla að því að hinum innri markaði verði komið á. Í 10. gr. laganna er kveðið á um bann við innflutning á tilteknum vörum, þ. á m. hráum og lítt söltuðum sláturafurðum, bæði unnum og óunnum, hráum eggjum sem mál þetta varðaði.
Í dóminum kemur fram að af tilskipun 89/662/EBE leiðir að dýraheilbrigðiseftirlit á að meginstefnu til að fara fram í upprunaríki vöru. Takmarkanir eru á því hvaða aðgerðir eru heimilar af hálfu móttökuríkis sem er Ísland í þessu tilviki. Innflutningsleyfiskerfi eins og kveðið er á um í ákvæðum íslenskra laga og sambærileg formsatriði falli undir skilgreiningu tilskipunarinnar á því hvað telst vera dýraheilbrigðiseftirlit í skilningi hennar. Meginefni tilskipunarinnar og þeim skyldum sem hún leggur á EES-ríkin er vel lýst í dómi EFTA-dómstólsins:
„Eins og fram kemur í formálsorðunum er með tilskipuninni lögð áhersla á að tryggja að dýraheilbrigðiseftirlit fari einungis fram á sendingarstað. Þetta er birtingarmynd meginreglunnar um upprunaland. 1. gr. tilskipunarinnar kveður á um að dýraheilbrigðiseftirlitið með dýraafurðum skuli ekki lengur fara fram við landamæri, heldur samkvæmt tilskipuninni. Þess er sérstaklega krafist af EES/EFTA-ríkjum skv. 3. gr. tilskipunarinnar, eins og hún hefur verið löguð að EES-samningnum, að þau tryggi að dýraafurðir hafi verið fengnar, skoðaðar og merktar í samræmi við reglur EES-réttar, sem gilda um viðtökustaðinn, og að heilbrigðisvottorð, dýraheilbrigðisvottorð eða eitthvert annað skjal sem kveðið er á um í dýraheilbrigðisreglum EES fylgi þeim. Samkvæmt 5. gr. má einnig sinna dýraheilbrigðiseftirliti á viðtökustað, í formi dýraheilbrigðisskyndikannana, eða, ef uppi er rökstuddur grun um brot, við flutning varanna á yfirráðasvæði ríkis.
Tilskipunin miðar að samhæfingu grundvallarkrafna um verndun heilbrigðis manna og dýra. Samræmt dýraheilbrigðiseftirlit byggist á ítarlegri skoðun varanna í sendingarríkinu. Kerfinu er ætlað að koma í stað reglulegs eftirlits á viðtökustað. Ekki er unnt að réttlæta sérstakar viðbótartakmarkanir EES-ríkis, þegar farið er yfir landamæri, með vísan til lýðheilsusjónarmiða eða dýraheilbrigðis.“
Á þessum grundvelli komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að tilgangi og virkni tilskipunar 89/662/EBE yrði ekki náð ef EES-ríkin hefðu heimild til kveða á um viðbótarráðstafanir sem væri ekki að finna í ákvæðum tilskipunarinnar sjálfrar. Málatilbúnaður Íslands byggði m.a. á því að leyfiskerfið hefði það markmið að vernda lýðheilsu og dýraheilbrigði og væri því réttlætanlegt á grundvelli 13. gr. EES-samningsins. Væri það grundvöllur þess að ákveðið var að afnema ekki 10. gr. laga nr. 25/1993 við setningu laga nr. 143/2009. Ákvæði 13. gr. EES-samningsins heimilar aðildarríkjum að réttlæta takmarkanir á frjálsum vöruflutningum ef þær byggja á lögmætu markmiði eins og t.d. lýðheilsusjónarmiðum og eru í samræmi við meðalhófsreglu.
Af hálfu EFTA-dómstólsins var því alfarið hafnað að ákvæði 13. gr. EES-samningsins gæti átt við í málinu þar sem tilskipunin sjálf hefði að geyma tæmandi reglur um þetta efni. Tilvísanir Íslands til varúðarreglu 13. gr. EES-samningsins og 18. gr. EES-samningsins taldi dómstóllinn engu breyta í þessu samhengi. Sjónarmiðum byggðum á sérstöðu Íslands var auk þess alfarið hafnað af dómstólnum. Af dómum EFTA-dómstólsins er ljóst að til þess að slík sjónarmið hafi gildi að EES-rétti þurfi að vera um það samið í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar.
EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að með upptöku matvælalöggjafarinnar hafi Ísland skuldbundið sig til þess að leiða ekki í lög neinar tæknilegar innflutningstakmarkanir. Eins er ítrekuð sú niðurstaða sem hafði áður komið fram í máli Ferskra kjötvara ehf. að greining á milli stjórnsýslulegra formsatriða annars vegar og efnislegra krafna hins vegar hafi enga þýðingu. Ljóst er að hugmyndir á borð við að afnema leyfiskerfið en viðhalda efnislegum kröfum s.s. frystiskyldu eru ekki í samræmi við EES-rétt að mati EFTA-dómstólsins.
Rétt er að geta þess að í dómi EFTA-dómstólsins var byggt á dómi Evrópudómstólsins í samningsbrotamáli Framkvæmdastjórnarinnar gegn Svíþjóð frá 20. október 2005. Í þeim dómi komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Svíþjóð hefði brotið gegn 5. gr. tilskipunarinnar þar sem sænsk lög lögðu tilkynningarskyldu á innflytjendur tiltekinna matvæla.
Dómur Hæstaréttar Íslands frá 11. október 2018
Íslenska ríkið áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar Íslands. Með dómi í máli nr. 154/2017 frá 11. október 2018 staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms. Í dómi Hæstaréttar er sérstaklega fjallað um að í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007 varðandi endurskoðun á undanþágum sem Ísland hafði haft frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn hafi ekki verið gerður annar fyrirvari af Íslands hálfu en sá að ákvæði I. kafla viðauka I við EES-samninginn skyldu ekki taka til Íslands að því er varðaði ákvæði um lifandi dýr og dýraafurðir á borð við egg, fósturvísa og sæði.
Um málsvörn íslenska ríkisins um að reglurnar samrýmdust skuldbindingum Íslands með vísan til 13. gr. EES-samningsins vísaði Hæstiréttur til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins frá 1. febrúar 2016 og dóms hans 14. október 2017. Þar komi fram að ekki væri unnt að vísa til markmiðs um vernd lífs og heilsu manna og dýra í viðskiptum innan EES, eins og það birtist í 13. gr. EES-samningsins, til þess að réttlæta takmarkanir á innflutningi í tilvikum þar sem tilskipun kveður á um samræmingu nauðsynlegra aðgerða til að tryggja vernd heilsu dýra og manna. Að öðru leyti vísaði Hæstiréttur Íslands til forsendna í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og staðfesti dóminn. Niðurstaða Hæstaréttar var efnislega samhljóða niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að leyfisveitingakerfi í tengslum við innflutning á kjöti og eggjum og krafa um frystingu kjöts brjóti í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES samningnum. Þá var skaðabótaskylda íslenska ríkisins staðfest.
Innflutningur landbúnaðarafurða frá EES
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.