Eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru
Ásamt matvælaeftirliti hefur Matvælastofnun einnig eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru en stofnuninni er einnig heimilt að fela heilbrigðisnefndum sveitarfélaga að annast tiltekin verkefni sem eru á verksviði stofnunarinnar á grundvelli laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Lögin gilda um eftirlit með framleiðslu, geymslu og sölu á fóðri sem ætlað er búfé sem haldið er til matvælaframleiðslu og sölufóðri annarra dýra, svo og alla sáðvöru, tilbúinn áburð og önnur jarðvegsbætandi efni. Tilgangur eftirlitsins er að tryggja svo sem kostur er öryggi og heilnæmi fóðurs og gæði áburðar og sáðvöru.
Starfsleyfi
Fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki er skylt að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en starfsemi hefst. Matvælastofnun er óheimilt að skrá fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki sem ekki sýna fram á fullnægjandi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem tilkynnt er um. Til framleiðslu lyfjablandaðs fóðurs þarf einnig leyfi Lyfjastofnunar. Heimilt er að skilyrða starfsleyfi. Ef einnig er kveðið á um starfsleyfisskyldu í lögum um matvæli eða sérlögum fyrir starfsemi sem fellur einnig undir ákvæði þessara laga skal Matvælastofnun gefa út eitt starfsleyfi á grundvelli laganna.
Matvælastofnun gefur út starfsleyfi til tiltekins tíma, enda uppfylli starfsemin skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem um hana gilda. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Matvælastofnun er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum eða vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um öryggi fóðurs eða framkvæmd fóðureftirlits.
Reglur um fóður
Í lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru eru ítarlegar reglur um markaðssetningu fóðurs, vinnslu þess, m.a. úr dýrapróteini. Þá er mælt fyrir um að fóðureftirlit skuli vera áhættumiðað og byggjast á áhættugreiningu en áhættumat er unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í lögunum er einnig fjallað ítarlega um ábyrgð og skyldur stjórnenda fóðurfyrirtækja. Einnig er fjallað um rekjanleika á fóðri dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og hvers kyns efni eru notuð eða vænst er að verði notuð í fóður. Lögin taka einnig til innflutnings á fóðri.
Reglur um áburð
Sérstaklega er fjallað um kadmíuminnihald áburðartegundar í ákvæðum laganna en áburðarfyrirtækjum er skylt að leggja fram vottorð um innihald kadmíum fyrir innflutning eða markaðssetningu vörunnar. Vottorð þetta skal lagt fram árlega til staðfestingar á niðurstöðum mælinga á þeim áburðartegundum sem eru markaðssettar. Þá er í reglugerð kveðið á um hámark kadmíums í áburði. Í ákvæðum laganna er fjallað ítarlega um ábyrgð og skyldur áburðarfyrirtækja.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Eftirlitsaðilar
Matvæli og matvælaöryggi
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.