Nánar um reglugerð um almenna hópundanþágu
Reglugerð (ESB) um almenna hópundanþágu tiltekur skilyrði þess að veita megi fyrirtækjum ríkisaðstoð á tilteknum sviðum án þess að leita þurfi eftir samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.
Af flokkum aðstoðar sem falla undir gerðina má nefna aðstoð vegna lagningar háhraðanets, menningar og varðveislu menningararfleifðar, orkugrunnvirkja, hljóð- og myndmiðlaverka, grunnvirkja á sviði tómstunda, aðstoð til að bæta tjón vegna tiltekinna náttúruhamfara (m.a. jarðskjálfta og eldgosa), byggðaaðstoð, aðstoð til umhverfisverndar og til menntunar.
Með breytingarreglugerð frá 2017 var bætt við nýjum undanþágum varðandi fjárfestingar- og rekstraraðstoð vegna flugvalla og hafna. Einnig var gefinn meiri sveigjanleiki til stuðnings við menningu, til fjárfestingaraðstoðar við byggingu íþróttagrunnvirkja og til svæðisbundinnar rekstraaðstoðar í dreifbýli. Gildistími var framlengdur árið 2020.
- Reglugerð um almenna hópundanþágu 2014. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
- Breyting 2017. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
- Framlenging 2020. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
- Samsteypt útgáfa á ensku
Ef til staðar eru heimildir í landslögum geta stjórnvöld, að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar, veitt fyrirtækjum ríkisaðstoð af því tagi sem kveðið er á um í reglugerðinni og telst hún samrýmanleg ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) og undanþegin tilkynningarskyldu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Nánar er kveðið á um tilkynningarskylduna í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (SED), einkum bókun 3 við hann.
Meirihluti allrar ríkisaðstoðar sem veitt er í dag innan EES fellur undir ákvæði hópundanþágureglugerðarinnar. Framkvæmdin er með þeim hætti að fyrirhugaðar ráðstafanir sem fela í sér veitingu ríkisaðstoðar eru mátaðar við ákvæði reglugerðarinnar eða þær hannaðar frá upphafi með reglugerðina í huga. Í stað þess að ráðstafanirnar þurfi að tilkynna til ESA eru grunnupplýsingar um þær skráðar á staðlað eyðublað sem ESA er látið í té, í hvert sinn sem aðstoðarkerfi er hrundið í framkvæmd eða sérstök (ad hoc) aðstoð er veitt. Eyðublaðið sem fylgir gerðinni hefur verið staðfært af EFTA-skrifstofunni. Sjá einnig leiðbeiningar um útfyllingu og birtingu GBER eyðublaðs.
Birt eyðublöð má nálgast á GBER-vef ESA
Ríkisaðstoð
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.