Orkuskipti og eldsneytismál
Orkuskipti eru meðal fimm leiðarljósa orkustefnu sem setur fram markmið um 40% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum fyrir árið 2030 og langtímamarkmiðið er að Ísland verði alfarið óháð jarðefnaeldsneyti. Undir orkuskipti falla aðgerðir til að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap Íslands. Nær það jafnt til aðgerða á láði, lofti eða legi.
Orkustofnun safnar gögnum um eldsneytisnotkun og birtir regulega orkuspár. Orkuspár eru gefnar út reglulega og eru mikilvægt stjórntæki við stefnumótun í orkumálum. Þær byggja á sögulegum gögnum um orkunotkun, mannfjöldaspám, efnahagshorfum og þróun í tækni og orkuskiptum. Spárnar ná til raforkunotkunar, jarðefnaeldsneytis og annarra orkugjafa, og gefa mikilvæga innsýn í framtíðarþörf fyrir orku og innviði.
Allt jarðefnaeldsneyti sem er notað á Íslandi er innflutt. Nemur árlegur kostnaður við olíuinnflutning um 65 milljörðum króna sem greiðast úr landi. Með hagrænum hvötum hefur verið unnið að því að auka notkun á innlendum, vistvænum orkugjöfum og finna leiðir til að draga úr eldsneytisnotkun, sbr. lög nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Með orkuskiptum má því ekki aðeins draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæði, heldur einnig styrkja efnahag landsins með því að nýta innlenda, endurnýjanlega orkugjafa í stað innfluttrar olíu.
Í þróun eru bílar sem ganga fyrir vetni, rafmagni, bæði rafmagni og bensíni, etanóli, metanóli, bútanóli, metani, E85, lífdísilolíu og jafnvel samanþjöppuðu lofti. Tæknileg útfærsla er þó mislangt á veg komin í hverju tilviki og jafnframt má segja að möguleikarnir henti misvel við íslenskar aðstæður. Mikilvægt er að viðhalda fjölbreytni í orkugjöfum og byggja upp viðeigandi innviði til að mæta ólíkum þörfum notenda. Þannig má tryggja að orkuskipti nái til allra flokka ökutækja og notkunarmynstra, sem er forsenda þess að ná markmiðum um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum.
Orkuskipti í flugi og þungaflutningum eru einn mikilvægasti þátturinn í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Þessir geirar nota stóran hluta þess eldsneytis sem flutt er til landsins og krefjast sérstakra lausna vegna eðlis starfseminnar. Í flugi er unnið að orkuskiptum með nokkrum leiðum. Sjálfbært flugeldsneyti (SAF), sem er lífeldsneyti eða rafeldsneyti, er nú þegar notað í blöndu við hefðbundið þotueldsneyti og mun hlutfall þess aukast á næstu áratugum. Í þungaflutningum á landi eru nokkrar leiðir í þróun og innleiðingu. Rafknúnir flutningabílar eru þegar komnir á markað og henta vel fyrir vöruflutninga í þéttbýli og styttri akstur. Vetnisknúin ökutæki eru talin heppilegri fyrir þyngri flutninga og lengri vegalengdir. Í flutningum á hafi er rafvæðing hafna með landtengingum nú þegar hafin og dregur úr mengun í höfnum. Fyrir siglingar eru rafhlöður álitlegur kostur fyrir minni báta, en vetni, ammóníak og metanól eru möguleikar fyrir stærri skip og lengri siglingar. Lífdísilolía og tilbúið eldsneyti geta nýst á núverandi vélar með litlum breytingum.
Til að ná árangri í orkuskiptum í flugi og flutningum þarf markvissa stefnu stjórnvalda, uppbyggingu innviða og samstarf við atvinnulífið. Uppbygging innviða fyrir vistvæna orkugjafa er forsenda þess að fyrirtæki geti fjárfest í nýrri tækni og mikilvægt er að tryggja að innviðir séu til staðar um allt land.
Loftlags- og orkusjóður auglýsir reglulega styrki til orkuskipta, í verkefni sem miða að því að hætta jarðefnaeldsneytisnotkun og nota í staðinn endurnýjanlega og vistvæna orku. Sjóðurinn hefur eflst mikið á undanförnum árum og hefur stuðningur til orkuskiptaverkefna aukist mjög.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Tenglar
Auðlindir
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.