Fundur fjármálastöðugleikaráðs
Annar fundur fjármálastöðugleikaráðs fór fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu miðvikudaginn 15. október 2014. Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Ráðið er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfir viðbúnað opinberra aðila við fjármálakreppu.
Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Eftirfarandi mál voru á dagskrá:
- Skýrsla kerfisáhættunefndar
- Drög að starfsreglum fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar
- Ákvæði um eiginfjárauka í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki
- Drög að opinberri stefnu um fjármálastöðugleika
- Önnur mál
Að mati fjármálastöðugleikaráðs er jafnvægi í þjóðarbúskapnum með besta móti um þessar mundir ef frá er talinn fjármagnsjöfnuður sem haminn er af fjármagnshöftum. Helstu kerfisáhættuþættir eru hinir sömu og undanfarin misseri: Fjármagnshreyfingar gætu valdið óstöðugleika í kjölfar losunar fjármagnshafta eða eignaverð brenglast af völdum viðvarandi fjármagnshafta. Þung endurgreiðslubyrði þjóðarbúsins í erlendum gjaldmiðlum eykur á greiðslujafnaðarvanda vegna mögulegra fjármagnshreyfinga við losun hafta. Þótt eiginfjárstaða bankanna sé sterk og ágætur hagnaður af rekstri þeirra ber að hafa í huga að óreglulegir liðir vega þungt í hagnaðinum. Útlán til einkageirans halda áfram að dragast saman og útlánaskilyrði hafa lítið breyst á síðustu mánuðum. Fjármögnun bankanna byggist enn að mestu leyti á stöðugum innlendum innlánum en endurfjármögnunaráhættan sem tengist skuldabréfum milli Landsbankans og LBI er miðað við óbreytta skilmála enn fyrir hendi.