Hoppa yfir valmynd
03. október 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjórði fundur fjármálastöðugleikaráðs árið 2016

Fjórði fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2016 var haldinn föstudaginn 30. september í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þjóðhagslegar aðstæður hafa í meginatriðum verið fjármálakerfinu hagstæðar undanfarin misseri. Hagvöxtur hefur verið þróttmikill, dregið hefur úr atvinnuleysi, ráðstöfunartekjur heimila aukist hröðum skrefum og hagnaður fyrirtækja verið ágætur. Heimili og fyrirtæki hafa að töluverðu leyti nýtt góða stöðu til þess að lækka skuldir og bæta eiginfjárstöðu. Útlánavöxtur hefur verið hóflegur um leið og aðgangur innlendra aðila að erlendum lánsfjármörkuðum hefur orðið greiðari. Þrátt fyrir öran vöxt eftirspurnar hefur viðskiptaafgangur haldist verulegur og verðbólga lítil. Ytri staða þjóðarbúsins er á heildina litið með ágætum og gjaldeyrisforði vel nægjanlegur til að styðja við almenna losun fjármagnshafta. Í þessu hagstæða umhverfi hafa áhættur í fjármálakerfinu að flestu leyti þróast í jákvæða átt. Á hinn bóginn gætir vaxandi spennu á ákveðnum mörkuðum, einkum vinnumarkaði og húsnæðismarkaði, sem gæti aukið á áhættuna síðar meir. Að auki fylgir nokkur áhætta losun fjármagnshafta á næstu misserum. Viðnámsþróttur bankanna til að mæta hugsanlegum áföllum er hins vegar góður; eiginfjárhlutföll þeirra há og lausafjárstaða góð.

Eftirfarandi mál voru á dagskrá: Ársfjórðungslegt mat á sveiflujöfnunarauka.

Mat á áhættuþáttum í fjármálakerfinu gefur tilefni til þess að hækka sveiflujöfnunarauka um 0,25 prósentustig. Ráðið sendir Fjármálaeftirlitinu tilmæli um þessa hækkun í kjölfar fundarins og mun nýr sveiflujöfnunarauki, 1,25%, taka gildi 12 mánuðum frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þar um. Megintilgangur sveiflujöfnunaraukans er að styrkja viðnámsþrótt fjármálakerfisins og milda þar með fjármálasveiflur. Losun aukans veitir lánastofnunum svigrúm til útlána í fjármálaniðursveiflu og dempar þannig áhrif áfalls á raunhagkerfið. Því er mikilvægt að ljúka uppbyggingu aukans áður en niðursveifla hefst og þörf verður á losun hans. Þess má því vænta að fjármálastöðugleikaráð leggi til að uppbyggingu sveiflujöfnunaraukans verði haldið áfram í takt við uppgang fjármálasveiflunnar.

Næsti fundur fjármálastöðugleikaráðs verður 16. desember 2016.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta