Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálastöðugleikaráð - fundargerð frá 16. desember 2016

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Ráðsmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Aðrir fundarmenn: Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hefst 15:50.

1. Greinargerð kerfisáhættunefndar
Formaður kerfisáhættunefndar fór yfir greinargerð nefndarinnar til fjármálastöðugleikaráðs. Staðan hefði ekki mikið breyst frá síðasta fundi; þjóðhagslegar aðstæður hefðu í meginatriðum verið fjármálakerfinu hagstæðar undanfarin misseri en vaxandi spennu gætti þó á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði, sem gæti aukið á áhættuna síðar meir.

2. Ársfjórðungsleg umfjöllun um sveiflujöfnunarauka.
Frá síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs hefur sveiflutengd kerfisáhætta heldur aukist en þó ekki hraðar en gert var ráð fyrir við síðustu ákvörðun um sveiflujöfnunarauka. Fjármálastöðugleikaráð samþykkti því að halda sveiflujöfnunaraukanum óbreyttum um sinn í 1,25%.

3. Samræming á störfum ráðsins við opinbera stefnu um fjármálastöðugleika og lög um fjármálafyrirtæki
Í opinberri stefnu um fjármálastöðugleika segir um vísa:

„Fyrir greiningu á kerfisáhættu skal fjármálastöðugleikaráð styðjast við a.m.k. einn mælikvarða, eða vísa, fyrir stöðu hvers millimarkmiðs. Vísana skal meðal annars byggja á niðurstöðum alþjóðlegra og innlendra rannsókna. Fjármálastöðugleikaráð upplýsir með reglubundnum hætti til hvaða vísa það horfir einkum við greiningu á kerfisáhættu.“

Hingað til hefur fjármálastöðugleikaráð upplýst þegar vísar hafi verið samþykktir sem meginvísar fyrir millimarkmið (sjá fundargerðir frá fundum 14. apríl 2015 og 18. maí 2016). Á fundinum var rætt hvort upplýsa ætti um vísana með öðrum hætti og ákveðið að kerfisáhættunefnd tæki saman minnisblað fyrir næsta fund fjármálastöðugleikaráðs um hvernig best sé að haga birtingu vísanna og skoða m.a. hvernig verklag er hjá sambærilegum aðilum erlendis.

Samþykkt að uppfæra nöfn á eiginfjáraukum í opinberri stefnu um fjármálastöðugleika til samræmis við heiti þeirra í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Í 86. gr. d. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki segir að fjármálastöðugleikaráð skuli ársfjórðungslega leggja fram tilmæli um gildi sveiflujöfnunarauka fyrir hvern ársfjórðung og jafnframt að tilmælin og ákvörðun um að kveða á um sveiflujöfnunarauka, lækkun eða hækkun hans, skulu rökstudd og birt opinberlega. Fundarmenn ræddu þessi ákvæði og hvernig best væri að standa að tilmælunum, í ljósi þess að gert væri ráð fyrir að tilmæli væru lögð fram á hverjum ársfjórðungi en að lækkun eða hækkun þyrfti að rökstyðja og birta opinberlega. Hingað til hefur ráðið ekki sent sérstök tilmæli þegar ákveðið hefur verið að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum en tilmæli um hækkun hafa verið send Fjármálaeftirlitinu og rökstudd og birt á heimasíðu fjármálastöðugleikaráðs. Ákveðið að kerfisáhættunefnd taki saman minnisblað um þetta og leggi fyrir næsta fund fjármálastöðugleikaráðs.

4. Uppfærður kjarnavísir og viðbótarvísir fyrir millimarkmið 1
Fjármálastöðugleikaráð staðfesti á fundi sínum 14. apríl 2015 þrjá kjarnavísa fyrir millimarkmið 1. Einn af þessum vísum, þróun útlána í hlutfalli við verga landsframleiðslu (VLF), hefur verið birtur með tvennum hætti, þ.e. annars vegar sem frávik skuldahlutfalls frá leitni og hins vegar sem vöxtur skuldahlutfalls. Eiginlegir vísar sem horft hefur verið til eru því fjórir. Ráðið samþykkti að skipta út vexti skuldahlutfalls (þ.e. mismun skulda sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu milli tveggja tímapunkta) fyrir aukingu skulda í hlutfalli við landsframleiðslu (þ.e. mismun skulda milli tveggja tímapunkta, sem hlutfall af landsframleiðslu) þar sem sá vísir þykir gefa stöðugri merki. Þá var samþykkt að bæta við nýjum viðbótarvísi fyrir sama markmið, vexti gengis- og verðlagsleiðrétts skuldastofns.

5. Önnur mál
Samþykkt að fréttatilkynning yrði send milli fundarmanna og leiðrétt fyrir birtingu mánudaginn 19. desember 2016.

Fundi slitið 16:45

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta