Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs 2017

Um miðjan mars voru fjármagnshöft losuð því sem næst að fullu á einstaklinga og fyrirtæki. Töluverð óvissa er um áhrif þess á þjóðarbúskapinn en líklegt er að hann verði næmari fyrir breytingum á erlendum fjármálaskilyrðum. Þjóðhagslegar aðstæður hafa í meginatriðum verið fjármálakerfinu hagstæðar undanfarin misseri. Hagvöxtur er mikill og atvinnuleysi er komið vel undir áætlað langtímaatvinnuleysi. Skuldahlutfall heimila og fyrirtækja lækkar enn. Útlánavöxtur hefur verið hóflegur og kjör innlendra aðila á erlendum lánsfjármörkuðum hafa batnað. Erlend staða þjóðarbúsins er hin hagstæðasta í sögu landsins svo langt sem sambærileg gögn ná og einnig tiltölulega hagstæð miðað við önnur þróuð ríki. Afgangur af utanríkisviðskiptum hefur verið óvenjumikill þrátt fyrir gengishækkun krónunnar. Á hinn bóginn gætir vaxandi spennu í hagkerfinu, sem einkum kemur fram á húsnæðis- og vinnumarkaði. Húsnæðisverð hefur hækkað hratt frá síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs og að raunvirði er það orðið nánast jafn hátt og rétt fyrir fjármálaáfallið haustið 2008. Byggingakostnaður hefur ekki hækkað jafn hratt og húsnæðisverð og því verður sífellt hagstæðara að byggja húsnæði. Hækkandi húsnæðisverð gæti aukið á áhættu í fjármálakerfinu síðar meir. Viðnámsþróttur viðskiptabankanna er þó góður, hvort heldur horft er til eiginfjárhlutfalla eða lausafjárstöðu.

Fjallað var um áhættu tengda millimarkmiði eitt og farið yfir þá fjóra kjarnavísa sem hafa verið staðfestir fyrir það markmið; raunvöxt útlána til heimila og fyrirtækja, raunhækkun íbúða- og atvinnuhúsnæðisverðs, skuldavöxt í hlutfalli við verga landsframleiðslu og frávik skuldahlutfalls frá langtímaleitni. Aðstæður á húsnæðismarkaði voru ræddar og tengsl hans við útlánavöxt og fjármálakerfið.

Ákveðið var að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum við 1,25%. Fjármálasveiflan hefur haldið áfram að rísa með svipuðum hraða og áætlað var á síðasta fundi kerfisáhættunefndar. Þess má vænta að fjármálastöðugleikaráð muni leggja til að uppbyggingu sveiflujöfnunaraukans verði haldið áfram á næstu misserum í takt við ris fjármálasveiflunnar.

Samþykkt að Íbúðalánasjóður, Arion banki hf., Landsbankinn hf. og Íslandsbanki hf. teldust áfram kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar og að eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, þ.e. bankana þrjá, skyldi vera óbreyttur, eða 2%. Tilmæli þess efnis verða send Fjármálaeftirlitinu í kjölfar fundarins.

Fjallað um upptöku reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja í EES-samninginn. Í reglugerðinni er ný regla sem kemur fram í 501. gr. hennar og kveður á um afslátt á eiginfjárbindingu fjármálafyrirtækis vegna lánveitinga til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Farið var yfir greiningar á því hvaða áhrif þessi regla gæti haft á eiginfjárkröfur á íslensk fjármálafyrirtæki.

Jafnframt var rætt um kaup fjögurra fjárfestingarsjóða á tæplega 30% hlut í Arion banka, sem marka upphaf breytinga á eignarhaldi á hlutafé í bankanum.

Næsti fundur fjármálastöðugleikaráðs verður 20. júní 2017.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta