Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálastöðugleikaráð - fundargerð frá 18. janúar 2018

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fundinn sátu: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Eggert Þröstur Þórarinsson, forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Seðlabanka Íslands, Einar Jón Erlingsson, forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu, Páll Ásgeir Guðmundsson, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hefst 15:18

1. Kynning formanns kerfisáhættunefndar á helstu þáttum greinargerðar hennar
Áhætta í fjármálakerfinu telst fremur lítil en alþjóðleg áhætta hefur aukist. Stærsti áhættuþátturinn, sem þó er ólíklegt að raungerist í bráð, er hátt raunverð á fasteignamarkaðnum. Líkur á ofhitnun í hagkerfinu hafa minnkað frá því sem talið var í sumar. Á alþjóðlegum mörkuðum hefur flökt verið í lágmarki á sama tíma og eignaverð er í hámarki og mögulegt er að aðstæður geti breyst skyndilega. Sú áhætta myndi birtast hér m.a. í dýrari erlendri fjármögnun bankanna. Almennt má þó segja að viðnámsþróttur bankanna sé mikill, eiginfjárstaðan góð, lausafjárstaðan sterk og þeir geta staðist mjög mikið álag samkvæmt álagsprófum. Gangi áform um arðgreiðslur úr bönkunum eftir munu þau, að öðru óbreyttu, draga úr viðnámsþrótti þeirra og því þurfa eftirlitsaðilar að fylgjast vel með þeim.
Formaður kerfisáhættunefndar lagði fram stutta kynningu um nokkur meginatriði úr niðurstöðum áhættumatshóps um fjármálainnviði sem kynntar voru á fundi nefndarinnar í desember sl. Þessi atriði voru endurnýjun fjármálainnviða, uppgjörsfyrirkomulag debetkorta og mótaðilaáhætta færsluhirða. Um þessar mundir á sér stað endurnýjun stórgreiðslu- og jöfnunarkerfa, endurnýjun viðskiptakerfa bankanna sjálfra og endurnýjun viðskiptakerfis Seðlabankans. Þessum breytingum fylgir töluvert álag og möguleg smitáhrif. Þá raungerðist stór mótaðilaáhætta hjá færsluhirði á síðasta ári.

2. Opinber stefna fjármálastöðugleikaráðs um sveiflujöfnunarauka og álagning kerfisáhættuauka snemma á næsta ári
Drög að opinberri stefnu fjármálastöðugleikaráðs um sveiflujöfnunarauka, sem unnin voru í kerfisáhættunefnd, voru lögð fram. Jafnframt var rætt um atriði sem hafa þarf til hliðsjónar við endurskoðun kerfisáhættuauka fyrir næsta fund fjármálstöðugleikaráðs. Nokkur umræða hefur verið á vettvangi evrópska kerfisáhætturáðsins um eiginfjáraukana, samspil þeirra á milli og reynslu af beitingu þeirra.

3. Önnur mál
a. Stuttlega fjallað um samstarfshóp Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á sviði fjármálastöðugleika. Til stendur að skipuleggja sameiginlega áfallsæfingu hópsins í samræmi við viljayfirlýsingu hans en slík æfing var síðast haldin árið 2007.
b. Rætt um málefni Arion banka.
c. Fréttatilkynning samþykkt.

Fundi slitið 16:22.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta