Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 30. september 2020
Fundur fjármálastöðugleikaráðs 30. september 2020
Fundarmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Rannveig Júníusdóttir, framkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Guðmundur K. Kárason, staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.
Fundur hefst 11:10.
1. Þróun áhættu í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Fjallað var um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til fyrir heimili og fyrirtæki vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónaveiru á efnahagslífið. Örvunaraðgerðir hafa stutt við íbúðamarkaðinn og var árshækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis 1,9% í ágúst sl. Framboð íbúðarhúsnæðis hefur dregist saman og vísbendingar eru um að samdráttur í umsvifum byggingariðnaðarins haldi áfram. Atvinnuhúsnæði hefur lækkað þó nokkuð að raunvirði síðastliðið ár.
Hrein ný útlán til heimila voru töluvert meiri í sumar en þau höfðu að meðaltali verið síðustu tólf mánuði á undan. Hlutdeild óverðtryggðra fasteignalána fer vaxandi og svo virðist sem mörg heimili hafi nýtt tækifærið til endurfjármögnunar fasteignalána á hagstæðari kjörum í ljósi vaxtalækkana Seðlabankans. Ekki er talið að aukning lána með breytilega vexti muni skapa meiri áhættu í kerfinu þar sem staða þeirra lántaka sem sótt hafa í þessi lán er góð t.d. þegar litið er til greiðslubyrðar- og veðsetningarhlutfalla.
Hvað varðar fyrirtækjalán hafa vanefndir og virðisrýrnun útlána kerfislega mikilvægra banka aukist síðustu misseri. Almennum greiðsluhléum á útlánum bankanna lýkur senn. Líklega tekur þá við ítarleg skoðun bankanna á útlánasafninu þar sem aðgerðir taka í meira mæli tillit til stöðu hvers aðila um sig. Aðgerðir stjórnvalda – bæði vaxtalækkanir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar – hafa skapað viðspyrnu í kerfinu og dregið úr líkum á því að samdráttur verði almennur. Eiginfjár- og lausfjárstaða bankanna er enn sterk sem ætti að gera þeim kleift að ráða fram úr fjárhagslegum erfiðleikum fyrirtækja innan þeirra atvinnugreina sem hafa farið verst út úr faraldrinum. Bankarnir hafa fengið töluvert svigrúm með lækkun sveiflujöfnunarauka. Í ljósi þess að bankarnir eru vel fjármagnaðir verður jafnframt leitast við að gefa þeim svigrúm í könnunar- og matsferli ársins í ár.
2. Skilavald
Seðlabankinn kynnti fyrirkomulag skilavalds í bankanum en það er nýtt stjórnvald sem komið var á fót með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Auglýst hefur verið eftir sérstökum forstöðumanni skrifstofu skilavalds. Rætt var um fjármögnun skilavalds og skilasjóðs.
Fundi slitið 12:10.