Hoppa yfir valmynd
03. maí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 19. apríl 2021

Fundur fjármálastöðugleikaráðs 19. apríl 2021.

Fundarmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Rannveig Júníusdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst kl. 11:07
1. Þróun áhættu í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankastjóri fór yfir þróun í fjármálakerfinu og hagkerfinu síðustu misseri. Almennt hafa aðgerðir ríkissjóðs og Seðlabanka stutt við hagkerfið í gegnum heimsfaraldur kórónuveiru. Rætt var um þróun á íbúðamarkaði. Velta hefur farið vaxandi, framboð dregist saman og aldrei hefur verið hærra hlutfall fyrstu kaupenda. Í febrúar hafði raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 3,1% síðustu 12 mánuði þar á undan en Seðlabankinn telur að ekki hafi myndast eignarverðsbóla á húsnæðismarkaði miðað við þróun grunnþátta. Raunverð atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 4,2% milli ára. Rætt var um framboð húsnæðis og þær umbætur sem gera mætti á talningu húsnæðis í byggingu. Ekki er útlit fyrir að byggingageirinn hafi orðið fyrir neikvæðum áhrifum af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru.
Staða kerfislega mikilvægra banka er nokkuð sterk, bæði með tilliti til eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu. Hagnaður þeirra jókst milli ára, þrátt fyrir aukna virðisrýrnun. Arðsemi hefur tekið að aukast en vaxtamunur hefur lækkað. Enn sem komið er hafa áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á rekstur bankanna verið minni en útlit var fyrir. Líkur eru á að greiðsluvandi ferðaþjónustunnar gæti raungerst í skuldavanda en geta bankanna til að fást við slíkan vanda er talin vera góð, m.a. vegna ágætar veðstöðu.
Sú tillaga sem Seðlabankinn bar upp á síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs um skýrari afmörkun þeirrar heimildar sem bankinn hefur til reglusetningar skv. 27. gr. laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, var rædd áfram.
2. Fjármálainnviðir
Rætt var um innleiðingu nýs innlána- og greiðslumiðlunarkerfis. Farið var yfir þær breytingar sem framundan eru á fjármálainnviðum og þau markmið sem stefnt er að með þeim, t.d. um að draga úr kostnaði.
3. Önnur mál

Drög að fréttatilkynningu voru staðfest.

Fundi slitið kl. 12:15


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta