Hoppa yfir valmynd
16. maí 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 27. mars 2023

Fundur fjármálastöðugleikaráðs 27. mars 2023

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fundarmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ólafur H. Helgason, sérfræðingur á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst kl. 11:05

1. Þróun áhættu í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn hélt kynningu þar sem farið var yfir helstu áhættuþætti úr nýju riti bankans um fjármálastöðugleika.
Þá var sérstaklega gerð grein fyrir helstu þáttum sem lágu til grundvallar ákvörðun um hækkun sveiflujöfnunarauka á fundi fjármálastöðugleikanefndar í mars 2023. Aukinn verður hækkaður úr 2% í 2,5% og tekur sú hækkun gildi 15. mars 2024.

Seðlabankinn kynnti greiningu sína á breytingum á greiðslubyrði heimilanna vegna nýlegra vaxtahækkana. Fram kom að greiðslubyrði hefði almennt aukist en aukningin væri undir 30 þúsund krónum hjá um 75% lántakenda. Þróun áhættu vegna hækkandi greiðslubyrðar hefur aukist nokkuð ef miðað er við greiðslubyrðarhlutfall reiknað út frá tekjum við lánveitingu. Ef greiðslubyrðarhlutfall er hins vegar reiknað miðað við tekjur sem fylgt hafa launavísitölu frá lánveitingu hefur áhættan einungis aukist lítillega. Þá var einnig gerð grein fyrir útreikningum bankans á áhrifum af vaxtaendurskoðun óverðtryggðra lána, en umtalsverður hluti útistandandi lána með fasta vexti munu taka vaxtabreytingum á árunum 2024 og 2025. Miðað við núverandi vaxtastig myndi greiðslubyrði óverðtryggðra lána sem nú bera fasta vexti en myndu við endurskoðun bera breytilega vexti hækka nokkuð verulega.

Fjallað var um stöðu fjármálakerfisins hér á landi eftir ólgu á fjármálamörkuðum erlendis, einkum fall Silicon Valley Bank og Credit Suisse. Ekki hafa sést merki þess að atburðirnir hafi haft áhrif hér en mikil umræða hefur verið um hvernig best er að beita nýju regluverki um banka í rekstrarerfiðleikum og hvort þörf sé á endurskoðun þeirra reglna í ljósi nýfenginnar reynslu.
Seðlabankinn gerði grein fyrir krefjandi aðstæðum íslenskra banka til fjármögnunar erlendis. Árið 2023 eru um 128 milljarðar króna af erlendum lánum á gjalddaga og hluta þess er nú þegar búið að endurfjármagna. Það sem af er liðið ári hafa bankarnir gefið út skuldabréf erlendis með ágætum árangri en markaðsaðstæður hafa versnað, m.a. vegna falls banka beggja vegna Atlantshafsins. Lánshæfismat bankanna, stærð útgáfa þeirra og áhætta sem fjárfestar telja fylgja því að fjárfesta á Íslandi eru meðal þeirra þátta sem draga úr möguleikum bankanna til að sækja fjármagn erlendis.

Á fundinum var einnig rætt um fjármálaáætlun og háan vaxtakostnað íslenska ríkisins.

2. Innlend óháð smágreiðslulausn
Rætt var um leiðir til að koma á innlendri óháðri smágreiðslulausn. Vinnuhópur framtíðarvettvangs Seðlabanka Íslands um slíka lausn er langt kominn í vinnu sinni. Í hópnum eru fulltrúar Seðlabankans, Landsbankans, Arion banka, Íslandsbanka, Kviku banka, sparisjóðanna og Reiknistofu bankanna. Líklegt er að frekari skref verði stigin um nánari útfærslu slíkrar lausnar á vegum framtíðarvettvangs. Þá hyggst forsætisráðherra skipa starfshóp um innlenda smágreiðslumiðlun sem í eiga sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands. Starfshópnum er ætlað að vinna tillögur að lagabreytingum sem styðja við áform stjórnvalda og Seðlabanka Íslands um að koma á fót innlendri smágreiðslulausn sem tryggi hagkvæmni fyrir neytendur og þjóni þjóðaröryggi.

3. Samskipti skilavalds við fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Rætt um eftirlitshlutverk ráðherra og hvernig heppilegast væri að miðla upplýsingum til hans um ákvarðanir sem skilavaldið tekur. Ákveðið að fjármálstöðugleikaráð yrði upplýst skriflega um ákvarðanir sem skilavaldið hefur tekið milli funda, nema ef um áríðandi atburð er að ræða sem upplýsa þyrfti ráðherra um eins fljótt og auðið er.

4. Önnur mál

Drög að fréttatilkynningu samþykkt með breytingum.
Fundi slitið kl. 12:10




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta