Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 19. júní 2023

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Ráðsmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.

Aðrir fundarmenn: Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Sigurður P. Ólafsson, sérfræðingur á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sigríður Rafnar Pétursdóttir, sérfræðingur á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst 15:07.

1. Helstu áhættuþættir í fjármálakerfinu og hagkerfinu

Seðlabankinn fór yfir helstu áhættuþætti í fjármála- og hagkerfinu. Þar var fjallað um þróun á fasteignamarkaði, þ.á m. húsnæðisverð, fjölda samninga og hlutfall fyrstu kaupenda. Skuldsetning heimila og val þeirra á lánategundum var einnig til umræðu. Skuldahlutföll hafa haldist nánast óbreytt frá 2016 og uppfærð athugun á greiðslubyrðarhlutfalli lánþega sýnir að það hefur hækkað nokkuð frá því sem var við lántöku flestra lána með breytilega vexti vegna vaxtahækkana. Hækkunin er minni þegar tekið er tillit til launaþróunar. Rætt var um þá breytingu sem er í vændum á greiðslubyrði á árunum 2024 og 2025 þegar lán sem nú eru með föstum vöxtum taka breytilega vexti. Farið var yfir hækkun á húsnæðisverði sem orðið hefur frá því þau lán voru tekin og hvernig greiðslubyrði af t.d. verðtryggðum lánum væri í samanburði við núverandi greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum með fasta vexti. Fram kom að nýlegar breytingar á reglum um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár gætu auðveldað bönkunum að fjármagna verðtryggð útlán.

Rætt var um fjármögnun bankanna en tveir þeirra gáfu út skuldabréf í byrjun maí. Næstu stóru gjalddagar á fjármögnun bankanna eru í maí 2024. Umræða varð um aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun bankanna og innlendan fjármögnunarmarkað. Fram kom að fyrirtækjaútlán banka hafi vaxið og jafnframt að fyrirtæki hafi sótt fjármagn beint til erlendra banka. Þá var fjármögnun byggingageirans til umfjöllunar en þar eru aðstæður með öðru móti en verið hefur hingað til, mögulega vegna þess að hægar gengur að selja nýbyggingar. Raunverð atvinnuhúsnæðis heldur áfram að hækka en á þeim markaði er lítið um nýtt húsnæði.

2. Innlend, óháð smágreiðslulausn – staða vinnu og kostnaður.

Gerð var grein fyrir því að vinnuhópur skipaður sérfræðingum úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Seðlabankanum hefði lokið við gerð áformaskjals og áhrifamats um lagasetningu í tengslum við innlenda, óháða smágreiðslulausn sem til stæði að birta fljótlega. Hópurinn hefði talið ástæðu til að styrkja heimildir Seðlabankans og annarra til þess að geta hvatt markaðsaðila til þess að taka upp smágreiðslulausn sem næði þeim markmiðum sem stefnt væri að. Þá var sagt frá því að á framtíðarvettvangi Seðlabankans væri í gangi vinna um innlenda, óháða smágreiðslulausn og góð viðbrögð hefðu verið við ósk Seðlabankans fyrir hönd vinnuhópsins frá 1. júní sl. um upplýsingar um mögulegar lausnir við innleiðingu á grunninnviði fyrir innlenda, óháða smágreiðslulausn. Á sama tíma óskaði Seðlabankinn eftir samtali við aðila sem geta boðið fram mögulegar lausnir fyrir grunninnvið og hafa þó nokkrir fundir með slíkum aðilum farið fram. 

3. Netöryggi

Seðlabankinn lagði fyrir fundinn minnisblað um stofnun vinnuhóps um netöryggisstefnu í fjármálakerfinu, m.a. til að fylgja eftir einni af ábendingum úr nýlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjármálakerfinu hér á landi. Í minnisblaðinu var gert ráð fyrir þátttöku sérfræðinga utan Seðlabanka og fjármála- og efnahagsráðuneytis í vinnuhópnum og var því lagt til að tekið yrði saman minnisblað um stofnun vinnuhópsins til að leggja fyrir ríkisstjórn. Skrifstofu fjármálamarkaðar var falið að útbúa slíkt minnisblað.

4. Ákvarðanir skilavalds

Á fundi fjármálastöðugleikaráðs 27. mars sl. var ákveðið að ráðið yrði upplýst skriflega milli funda um ákvarðanir sem skilavaldið hefur tekið. Skilavaldið hefur ekki tekið neinar ákvarðanir frá síðasta fundi.

5. Önnur mál

a. Niðurstaða úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku fjármálakerfi

Stuttar umræður fóru fram um niðurstöðu úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku fjármálakerfi sem tekin var fyrir á stjórnarfundi hjá sjóðnum þann 14. júní sl. Heilt á litið þykir staða fjármálakerfisins góð en í skýrslunni má einnig finna tillögur að úrbótum sem unnið verður að á næstu misserum eftir því sem við á.

b. Nýr ritari fjármálastöðugleikaráðs

Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur á skrifstofu fjármálamarkaðar, mun taka við sem nýr ritari fjármálastöðugleikaráðs frá og með næsta fundi.

c. Fréttatilkynning

Drög að fréttatilkynningu voru samþykkt með minni háttar breytingum.

Fundi slitið 16:06.

Fundargerð (pdf, 400kb)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta