Hoppa yfir valmynd
13. október 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 29. september

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Ráðsmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.

Aðrir fundarmenn: Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Eggert Þ. Þórarinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur á skrifstofu yfirstjórnar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Katrín Oddsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst kl. 13:00.

  1. Helstu áhættuþættir í fjármálakerfinu og hagkerfinu
    Seðlabankinn fór yfir helstu áhættuþætti í fjármála- og hagkerfinu. Þar var meðal annars fjallað um þróun á húsnæðismarkaði og skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Dregið hefur úr skuldavexti heimila, en greiðslubyrði þeirra þyngst vegna hækkandi fjármagnskostnaðar. Viðnámsþróttur heimila er þó enn að meðaltali mikill, eiginfjárhlutföll heimila góð og vanskil mjög takmörkuð. Umsvif á íbúðamarkaði hafa minnkað talsvert og hærra hlutfall nýrra lána er nú verðtryggt en verið hefur undanfarin ár. Töluverð fjárhæð íbúðalána með tímabundið fasta vexti nálgast vaxtaendurskoðun, einkum á seinni hluta ársins 2024 og árið 2025. Enn eru mikil umsvif á byggingamarkaði. Skuldir fyrirtækja eru heldur að vaxa og aukin eftirspurn virðist vera eftir verðtryggðri fjármögnun. Vanskil fyrirtækja hafa ekki aukist að neinu marki. Rætt var um fjármögnun kerfislega mikilvægra banka erlendis, þar sem vaxtaálag hefur lækkað og endurfjármögnunaráhætta minnkað. Álagspróf sýnir fram á mikinn viðnámsþrótt bankanna. Þá var rætt um minnisblað Seðlabankans til ráðsins um þróun gjaldeyrisforða. Hlutfall forða af viðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (RAM) hefur lækkað, bæði vegna minnkandi forða og vegna þess að RAM-viðmiðið hefur hækkað samhliða auknum krafti í efnahagslífinu. Fjármögnun og kostnaður af gjaldeyrisforða, áhrif á lánshæfismat, markaðsaðstæður, erlend skuldabréfaútgáfa og gjaldeyriskaup ríkissjóðs voru m.a. til umræðu í því samhengi. Samþykkt var að Seðlabankinn myndi vinna áfram mat á forðaviðmiðum í samstarfi við ráðuneytið, þ.m.t. varðandi stærð forða, samsetningu og fjármögnun.
  2. Mat á árangri af þjóðhagsvarúðartækjum
    Seðlabankinn reifaði virk þjóðhagsvarúðartæki og mat á árangri af þeim. Þeim markmiðum sem lagt var upp með hefur að mati bankans í meginatriðum verið náð. Viðnámsþróttur fjármálafyrirtækja hefur verið styrktur og beiting tækja sem varðveita viðnámsþrótt lántaka hafa unnið gegn óhóflegri áhættutöku. Í nýlegri FSAP-úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Financial Sector Assessment Program), sem birt var í júní sl., greinir það mat sjóðsins að þjóðhagsvarúðarstefna á Íslandi og þar með beiting þjóðhagsvarúðartækja, sé heilt á litið viðeigandi.
  3.  Málefni ÍL-sjóðs
    Fjármálaráðherra lagði fram minnisblað til ráðsins um málefni ÍL-sjóðs. Samþykkt var tillaga ráðherra um að settur verði á fót samráðsvettvangur fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabankans er verði til ráðgjafar vegna áskorana sem áform um slit ÍL-sjóðs geta haft á fjármálastöðugleika.
  4.  Viðbúnaðar- og innviðamál
    Kynnt var staða vinnu vegna áforma um innlenda óháða smágreiðslulausn. Einnig var undirbúningur netöryggisstefnu fyrir fjármálakerfið til umræðu.
  5.  Ákvarðanir skilavalds
    Á fundi fjármálastöðugleikaráðs 27. mars sl. var ákveðið að ráðið yrði upplýst skriflega milli funda um ákvarðanir sem skilavaldið hefur tekið. Skilavaldið hefur ekki tekið neinar ákvarðanir frá síðasta fundi.
  6. Önnur mál
    Af hálfu Seðlabankans var athygli vakin á því að huga þyrfti tímanlega að undirbúningi innan stjórnsýslunnar vegna næstu úttektar FATF, um aðgerðir gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka o.fl., sem fyrirhuguð er árið 2025.
    Drög að fréttatilkynningu voru samþykkt með breytingum.

Fundi slitið kl. 14:40.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta