Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 11. desember 2023

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Ráðsmenn: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.

Aðrir fundarmenn: Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur á skrifstofu yfirstjórnar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst kl. 11:00.

  1. Helstu áhættuþættir í fjármálakerfinu og hagkerfinu
    Seðlabankinn fór yfir helstu áhættuþætti í fjármála- og hagkerfinu. Úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins OMXI10 hefur lækkað um 11% það sem af er ári, en erlendis hafa hlutabréfamarkaðir víða um heim sótt í sig veðrið á árinu. Mikill vöxtur er í ferðaþjónustu, uppsafnaður ferðamannafjöldi er lítillega minni en á sama tíma metárið 2018. Fjallað var um þróun á húsnæðismarkaði og skuldastöðu bæði heimila og fyrirtækja. Íbúðaverð hefur hækkað óvænt að undanförnu. Framboð íbúða til sölu heldur þó áfram að aukast, bæði nýbyggingum og eldra húsnæði. Frá lokum júlí til loka október hækkaði hlutfall íbúðaverðs og launavísitölu lítillega, en ársbreyting mælist þó neikvæð um 7,2%. Hlutfall íbúða- og leiguverðs hefur einnig hækkað frá miðju ári eða um 4,3%. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 7,4% yfir metinni langtímaleitni í október. Mikill gangur er í byggingariðnaði, m.t.t. fjölda fullbyggðra íbúða og veltu á árinu. Hlutfall lausra starfa í byggingariðnaði er enn hátt í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Verð atvinnuhúsnæðis hækkar jafnframt enn. Skuldsetning heimila minnkar og lítil merki eru um aukinn greiðsluvanda. Yfirdráttarlán hafa dregist saman að raunvirði. Heimili hafa nýtt sér ýmis úrræði til að minnka greiðslubyrði lána, m.a. endurfjármögnun óverðtryggðra lána með verðtryggðum lánum. Töluverð fjárhæð íbúðalána með tímabundið fasta vexti nálgast vaxtaendurskoðun. Heildarskuldir fyrirtækja höfðu dregist saman milli ára, en vanskil þeirra aukist lítillega. Lausafjárstaða kerfislega mikilvægu bankanna er mjög sterk. Vaxtaálag á erlendum lánsfjármörkuðum hafði hækkað lítillega. Bankarnir hófu útgáfu á óveðtryggðum skuldabréfum í krónum en innlendan heimamarkað hefur vantað fyrir óveðtryggðar skuldabréfaútgáfur. Gjaldeyrisforðinn hafði aukist frá því í sumar. Seðlabankinn mun vinna áfram að mati á forðaviðmiðum, í samstarfi við ráðuneytið, eins og ákveðið var á fundi fjármálastöðugleikaráðs í september sl.
    2
  2. Lífeyrissjóðir og þjóðhagsvarúðarsjónarmið
    Lífeyrissjóðir eru kerfislega mikilvægir þátttakendur á öllum mörkuðum hér á landi. Svigrúm lífeyrissjóða til gjaldeyriskaupa hefur aukist nokkuð. Dregið hefur úr vægi ríkistryggðra eigna lífeyrissjóða á sama tíma og erlendar eignir þeirra hafa aukist. Til umræðu voru þjóðhagsvarúðarsjónarmið í þessu samhengi og þróun regluverks.
  3.  Málefni ÍL-sjóðs
    Málefni ÍL-sjóðs voru til umræðu. Drög að frumvarpi til heildarlaga um slit ógjaldfærra opinberra aðila voru birt til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda í október og voru niðurstöður samráðsins birtar 8. desember sl. Þá voru rædd hugsanleg áhrif af sölu eigna ÍL-sjóðs á fjármálastöðugleika.
  4.  Viðbúnaðar- og innviðamál
    Seðlabankinn kynnti stöðu vinnu vegna áforma um innlenda óháða smágreiðslulausn. Þá var rætt um minnkandi notkun og aðgengi að reiðufé, sem er mikilvæg staðgönguleið ef alvarlegt rof yrði á rafrænni greiðslumiðlun. Horft er til þróunar og umræðu í næstu nágrannalöndum, hvað varðar reiðufé sem þrautavaralausn.
  5.  Ákvarðanir skilavalds
    Á fundinum var gerð grein fyrir störfum skilavalds frá síðasta fundi ráðsins. Uppfærðar skilaáætlanir hafa verið samþykktar fyrir kerfislega mikilvægu bankana og skilaáætlanir verið samþykktar fyrir fjóra sparisjóði.
  6.  Önnur mál
    Rætt var um þörf Seðlabankans fyrir víðtækara aðgengi að upplýsingum úr skattagögnum.

    Drög að fréttatilkynningu voru samþykkt með breytingum.

Fundi slitið um kl. 12:10.

Undirrituð fundargerð (pdf)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta