Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 7. október 2024
Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs
Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Ráðsmenn: Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Aðrir fundarmenn: Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Hermann Sæmundsson, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurður Páll Ólafsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.
Fundur hófst kl. 9:00.
1. Staða og horfur í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn fór yfir stöðu, horfur og helstu áhættuþætti í fjármála- og hagkerfinu. Fjármálakerfið hér á landi stendur traustum fótum. Hægt hefur á efnahagsumsvifum á síðustu mánuðum og raunvextir hafa hækkað. Horfur í ferðaþjónustu hafa versnað. Útlit er fyrir að framboð á millilandaflugi dragist saman á milli ára á næstu misserum og bókunarstaða er lakari en á sama tíma í fyrra. Viðnámsþróttur einkageirans, þ.e. heimila og fyrirtækja, er þó almennt sterkur og lítil merki um aukin vanskil. Eigin- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka er sterk og arðsemi af reglulegum rekstri góð. Netógn vex stöðugt og afar mikilvægt að öflug öryggiskerfi séu til staðar og áætlanir um samfelldan rekstur og viðbúnað. Raungengi krónunnar er nokkuð sterkt í sögulegu samhengi og rædd voru möguleg áhrif þess á samkeppnishæfni ólíkra atvinnugreina. Fjallað var um framvirka gjaldeyrisstöðu og -samninga. Reglur nr. 412/2022 um afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli hafi skilað tilætluðum árangri, aukið gagnsæi og stuðlað að stöðugra gengi en ella. Reglurnar byggja á reglusetningarheimild í II. kafla laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál um sérstakar ráðstafanir í þágu þjóðhagsvarúðar og fólu þær í sér rýmkun á heimildum til afleiðuviðskipta og einfaldari framkvæmd.
Sérstaklega var fjallað um þróun á húsnæðismarkaði og húsnæðislánamarkaði frá síðasta fundi ráðsins. Raunvextir höfðu hækkað á bæði útlánum og fjármögnun. Skuldir heimila drógust saman að raunvirði, en skuldir fyrirtækja jukust á ný. Verðtryggð lántaka færist í vöxt af hálfu bæði heimila og fyrirtækja. Greiðslubyrði af verðtryggðum lánum er léttari en af óverðtryggðum lánum. Vanskilahlutfall heimila hreyfist lítið og viðnámsþróttur heimila er góður líkt og sjá má á rúmri eiginfjárstöðu meirihluta heimila. Raunverð íbúðarhúsnæðis er hátt á flesta mælikvarða, en framboð nokkuð stöðugt. Á byggingamarkaði eru enn mikil umsvif.
Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægu bankanna er sterk, aðgengi að lánsfjármörkuðum greitt og hafa kerfislega mikilvægu bankarnir nánast lokið við erlenda endurfjármögnun ársins 2025. Endurfjármögnunaráhætta bankanna er takmörkuð sem stendur. Þeir standast álagspróf Seðlabankans vel. Rætt var um aukin gæði og dreifingu útlánasafna og nýlegar breytingar á EES-gerðum um eiginfjárkvaðir.
2. Viðnámsþróttur
a) Staða vinnu við miðlægan innvið fyrir greiðslubeiðnir
Seðlabankinn upplýsti um stöðu vinnu við miðlægan innvið fyrir greiðslubeiðnir. Auglýst verður eftir þróunaraðila fyrir innviðinn á næstunni og frekari greining er fyrirhuguð að því er varðar kostnað og tæknilega útfærslu. Markmið
innviðarins er að auka viðnámsþrótt í smágreiðslumiðlun hér á landi, en 99% allra smágreiðslna eru rafrænar (mælt í færslufjölda).
b) Innviðir – nýlegt rafmagnsleysi
Mikil truflun varð í flutningskerfi Landsnets 2. október sem olli rafmagnsleysi á Norðurlandi og Austfjörðum. Atvikið hafði ekki áhrif á fjármálakerfið eða veitingu greiðsluþjónustu, en var áminning um mikilvægi samþættingar viðbúnaðar með tilliti til ólíkra mikilvægra innviða samfélagsins. Áætlanir um samfelldan rekstur og viðbúnað eru til staðar hjá eftirlitsskyldum aðilum. Þá er vinna yfirstandandi við endurskoðun neyðarferla og samhæfingaráætlunar Seðlabankans.
3. Önnur mál
Seðlabankinn birtir á næstunni skýrslu um lífeyrismál. Hún er framlag bankans til væntanlegrar umræðu um lífeyriskerfið í kjölfar vinnu starfshóps sem skipaður var af fjármála- og efnahagsráðherra í febrúar 2023 og ætlað er að greina stöðu og framtíð lífeyrissjóðakerfisins með heildstæðum hætti.
Á fundinum var gerð grein fyrir störfum skilavalds frá síðasta fundi ráðsins. Uppfærðar skilaáætlanir hafa verið samþykktar fyrir kerfislega mikilvægu bankana.
Drög að fréttatilkynningu voru samþykkt.
Fundi slitið um kl. 10:00.