Starfsreglur fyrir fjármálastöðugleikaráð
Hlutverk fjármálastöðugleikaráðs
Kveðið er á um fjármálastöðugleikaráð í lögum nr. 66/2014. Ráðið er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Hlutverk þess er að efla og varðveita fjármálastöðugleika, auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins og sporna við uppsöfnun kerfisáhættu.
Skipan fjármálastöðugleikaráðs
Í ráðinu sitja:
- Fjármála- og efnahagsráðherra,
- Seðlabankastjóri,
Fjármála- og efnahagsráðherra er formaður ráðsins.
Starfsemi ráðsins
Formaður kallar ráðið saman þrisvar sinnum á ári og oftar ef þörf krefur. Skrifstofa ráðsins er í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Ráðherra skal tilgreina ritara ráðsins. Ritari ber ábyrgð á undirbúningi funda og eftirfylgni.
Undirbúningur funda ráðsins
Umsýsla fjármálastöðugleikaráðs er í höndum skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þ.m.t. boðun funda, skráning gagna og skjölun.
Ráðið ákveður dagsetningar funda næsta árs eigi síðar en 30. nóvember ár hvert. Fundir skulu að jafnaði haldnir innan tveggja vikna frá fundi kerfisáhættunefndar. Óski ráðsmaður eftir breytingum á fundartíma skal hann tilkynna það ritara ráðsins og annar fundartími er ákveðinn í samráði við báða ráðsmenn.
Ritari lætur ráðsmönnum í té dagskrá og fundargögnmeð a.m.k. fjögurra daga fyrirvara. Seðlabanki Íslands veitir ráðinu þær upplýsingar sem ráðið óskar eftir til að sinna hlutverki sínu.
Fundir ráðsins
Fundir fjármálastöðugleikaráðs skulu að jafnaði fara fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Formaður stýrir fundum fjármálastöðugleikaráðs. Fundina sitja ráðsmenn og ritari. Heimilt er að fleiri sitji fundina ef slíkt er samþykkt af ráðsmönnum.
Fundir ráðsins skulu að jafnaði byggja á eftirfarandi skipulagi:
i) Kynning á greiningu Seðlabanka Íslands á fjármálakerfinu og hagkerfinu þannig að ráðsmenn geti vaktað efnahagslegt ójafnvægi, áhættu í fjármálakerfinu, óæskilega hvata eða annað sem kann að ógna fjármálastöðugleika.
ii) Kynning Seðlabanka Íslands á virkum þjóðhagsvarúðartækjum og árangri af þeim
iii) Umræður
iv) Önnur mál.
v) Samþykkt fréttatilkynningar eða annars kynningarefnis
Ef fjármálastöðugleika telst ógnað og ráðið kemur saman sem formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda, sbr. 6. gr. laga 66/2014, skal skipulag funda taka mið af þeim sérstöku aðstæðum.
Þegar tilefni er til getur ráðið óskað eftir að sérfræðingar eða fulltrúar fyrirtækja leggi ráðinu til upplýsingar, eða taki þátt í fundum ráðsins.
Heimilt er að halda fund í gegnum fjarfundabúnað
Gagnsæi
Fjármálastöðugleikaráð heldur fundargerð, þar sem skrá skal þau mál sem eru til umfjöllunar, umræður og ákvarðanir.
Í gerðabók skal skrá viðveru ráðsmanna og gesta á fundum ráðsins.
Fundargerð sendist ráðsmönnum til yfirlestrar og samþykktar eigi síðar en viku eftir fundinn. Ráðsmenn skulu koma athugasemdum við fundargerð til ritara ráðsins innan viku frá móttöku, enda skal fundargerð gerð opinber innan eins mánaðar frá fundi ráðsins, sbr. 10. gr. laganna. Eftir samþykkt ráðsmanna undirritar formaður fundargerðina.
Þagnarskylda
Ráðsmenn og gestir funda ráðsins eru bundnir þagnarskyldu um störf nefndarinnar.
Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Endurskoðun starfsreglna
Ráðsmönnum er heimilt að leggja fram skriflegar og rökstuddar tillögur að breytingum á reglum þessum. Skulu tillögur teknar fyrir á fundi ráðsins, enda hafi þær borist ritara með a.m.k. viku fyrirvara.
Samþykkt 2. júlí 2020.
Fjármálastöðugleikaráð
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.