Hoppa yfir valmynd

Fjárlög fyrir árið 2021

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 

Ríkisfjármálum verður áfram beitt af fullum þunga til að verja störf og skapa viðspyrnu, en gert er ráð fyrir að áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar á ríkissjóð verði neikvæð um 192 milljarða króna á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 sem lagt er fram á Alþingi í dag, samhliða fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025. Skattar verða alls um 52 ma.kr. lægri á komandi ári en þeir hefðu orðið án ákvarðana ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu.

Ríkisfjármálunum beitt markvisst gegn samdrætti

Með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 er haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var með fyrstu viðbrögðum við efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar: Að verja lífskjör og veita viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið.

Góð staða ríkissjóðs við upphaf farsóttarinnar hefur gefið stjórnvöldum tækifæri til að bregðast kröftuglega við afleiðingum hennar með stuðningi við fólk og fyrirtæki í vanda. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar þá ætlun stjórnvalda að vinna bug á erfiðum aðstæðum og beita ríkisfjármálunum af fullum þunga. Ekki verða gerðar auknar aðhaldskröfur til málefnasviða og verða öll helstu tilfærslukerfi varin. Til þess að sporna við útgjaldaaukningu er þess gætt að ný aukin útgjöld takmarkist við mótvægisráðstafanir vegna faraldursins.

Afkoma ríkissjóðs versnar á næsta ári um 192 milljarða króna vegna beinna efnahagslegra áhrifa faraldursins og ákvarðana til að sporna við afleiðingum hans. Þyngst vegur samdráttur skatttekna vegna minni umsvifa en hann nemur um 89 ma.kr. Einnig minnka tekjur ríkissjóðs vegna aðgerða til að bregðast við heimsfaraldrinum, m.a. með því að endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu, flýtingu á lækkun bankaskatts og niðurfellingu gistináttaskatts en samtals kosta þessar aðgerðir ríkissjóð um 17 ma.kr. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 23 ma.kr. Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætluð um 35 ma.kr. en þar má nefna fjárfestingar- og uppbyggingarátak, eflingu háskóla- og framhaldsskólastigs til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar. Þá er gert ráð fyrir að arðgreiðslur lækki um 27 ma.kr.

 

Velferðar-, heilbrigðis og menntamál vega þyngst

Áfram er unnið að helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Þar á meðal er veruleg efling velferðarkerfa, stórsókn í innviðafjárfestingum, endurskoðun skattkerfa og metnaðarfull markmið í umhverfismálum.

Velferðar-, heilbrigðis- og menntamál eru þau málefnasvið sem mest fjármagn rennur til en yfir 60% af heildarfjárheimildum ríkissjóðs er varið til þeirra:

 

Framlög til heilbrigðismála aukast á næsta ári um ríflega 15 ma.kr. að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum, þar af eru framlög til byggingar nýs Landspítala tæplega 7 ma.kr. Meðal helstu áherslna á kjörtímabilinu er að bæta þjónustu óháð efnahag og búsetu, lækka greiðsluþátttöku sjúklinga og byggja hjúkrunarheimili.

Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála vega þyngst á gjaldahlið fjárlaga, eða 26% af heildarframlögum. Lenging fæðingarorlofs er meðal áherslumála kjörtímabilsins, ásamt hækkun frítekjumarks atvinnutekna aldraðra og auknum stofnframlögum til byggingar leiguhúsnæðis fyrir tekjulága, auk laga um hlutdeildarlán sem taka gildi 1. nóvember nk. Markmið þeirra er að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð.

Gert er ráð fyrir að framlög til mennta- og menningarmála aukist um tæpa 6 ma.kr. á árinu 2021. Þar af eru 2 ma.kr. vegna áætlaðrar fjölgunar nemenda vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins ásamt því að tekið er mið af nýsamþykktum lögum um Menntasjóð námsmanna. Þá verður 1 ma.kr. varið til háskólastigsins í samræmi við stefnumörkun um að Ísland nái meðaltali OECD um fjármögnun háskólastigsins. Þá hefur menntakerfið verið eflt bæði á framhalds- og háskólastigi á yfirstandandi kjörtímabili, auk þess sem unnið hefur verið eftir metnaðarfullri áætlun um máltækni svo hægt verði að nota íslensku í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims.

Áætluð framlög til nýsköpunarmála árið 2021 eru 25 ma.kr. sem er liðlega 5 ma.kr. hækkun samanborið við áætluð útgjöld yfirstandandi árs. Mikil áhersla hefur verið lögð á nýsköpun og rannsóknir í tíð ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, og má í því samhengi nefna stofnun Kríu, fjárfestingarsjóðs sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins. Auk þess hafa ívilnanir til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunarstarfs verið ríflega þrefaldaðar frá árinu 2017 en gert er ráð fyrir að sá fjárstuðningur hækki í rúmlega 7 ma.kr. í fjárlagafrumvarpi ársins 2021.

Þá aukast verulega framlög til upplýsingatækniverkefna, eða sem nemur 2,3 ma.kr. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur verkefnastofan Stafrænt Ísland stóreflt stafvæðingu opinberrar þjónustu í samstarfi við stofnanir ríkisins.

Umhverfismál hafa verið í brennidepli allt kjörtímabilið. Þar má t.d. nefna aðgerðaáætlun í loftlagsmálum, landgræðslu og endurheimt. Þá hefur auknum framlögum verið varið til viðamikillar uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum samhliða aukinni landvörslu. Alls eru nærri 24 ma.kr. áætlaðir til umhverfismála á komandi ári, en það er 3,4 ma.kr. aukning á milli ára. Þyngst vega aukin framlög til ofanflóðasjóðs til að efla ofanflóðavarnir.

Léttari skattbyrði

Skattar verða 34 ma.kr. lægri á næsta ári en þeir hefðu orðið ef ekki hefðu komið til ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um skattbreytingar frá árinu 2017. Sérstakar aðgerðir vegna faraldursins lækka að auki tekjur ríkissjóðs um rúmlega 17 ma.kr. á næsta ári og verða því skattar á árinu 2021 tæpum 52 ma.kr. lægri en þeir hefðu orðið án breytinga frá árinu 2017.
Skattbreytingar síðustu ára hafa falið í sér endurskoðun á skattkerfinu með það fyrir augum að auka ráðstöfunartekjur lægri tekjuhópa, bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins og vinna að framgangi umhverfismarkmiða ríkisstjórnarinnar.

Umfangsmestar eru breytingar á tekjuskatti einstaklinga með þriggja þrepa skattkerfi og léttari skattbyrði lægst launuðu hópa samfélagsins. Ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu hækka um rúmlega 120 þúsund krónur á ári, en alls nemur aukning ráðstöfunartekna 21 ma.kr. á ári. Auk þess skilar hækkun persónuafsláttar árið 2019 heimilunum tæpum 2 ma.kr. á ársgrundvelli.

Tryggingagjald hefur einnig verið lækkað á kjörtímabilinu og verður skattbyrði fyrirtækja 8 ma.kr. minni á næsta ári en ella hefði orðið. Er þá ótalin fyrirhuguð tímabundin lækkun tryggingagjalds til að mæta áhrifum launahækkana samkvæmt Lífskjarasamningnum. Einnig hefur verið tvöfölduð upphæð rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja sem endurgreidd er af ríkinu.

Sú áhersla sem ríkisstjórnin hefur lagt á umhverfisvernd og á að takmarka kolefnislosun endurspeglast í endurskoðun einstakra skatta. Kolefnisgjald hefur hækkað markvert á kjörtímabilinu og lagður hefur verið skattur á losun flúoraðra gróðurhúsalofttegunda en um leið gefinn eftir virðisaukaskattur af kaupum á vistvænum ökutækjum, hjólum og heimahleðslustöðvum.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að frítekjumark erfðafjárskatts verði hækkað en áætlað er að við það muni álögur minnka um 500 m.kr. árið 2021 sem gagnast eignaminni dánarbúum best. Þá er verið að leggja lokahönd á endurskoðun stofns fjármagnstekjuskatts. Að lokum er gert er ráð fyrir að nýir eða auknir skattastyrkir til að styðja við félög sem starfa í þágu almannaheilla í svokölluðum þriðja geira kosti ríkissjóð um 2,1 ma.kr.

Kraftur í fjárfestingum

Framlög til fjárfestinga árið 2021 eru há í sögulegu samhengi, eða um 111 ma.kr. Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala en gert er ráð fyrir tæplega 12 ma.kr. framlagi til framkvæmdanna 2021.

Framlög til ýmissa fjárfestinga aukast um ríflega 36 ma.kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Aukningin á milli ára skýrist að miklu leyti af mótvægis
ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og þeirri stefnumörkun stjórnvalda að styðja við hagkerfið þar til atvinnulífið hefur tekið við sér, m.a. með sérstöku fjárfestingaátaki í innviðum, hugviti og þekkingu. Alls nemur umfang fjárfestingar- og uppbyggingarátaks stjórnvalda á árinu 2021 um 27,2 ma.kr.

Fjármálaáætlun 2021-2025: Viðsnúningur hallareksturs skýrt markmið

Helsta áskorun stjórnvalda á tímabili fjármálaáætlunarinnar fyrir árin 2021–2025 verður að snúa við miklum hallarekstri hins opinbera vegna efnahagslegra áhrifa af heimsfaraldri kórónuveirunnar og koma böndum á skuldasöfnun. Við aðstæður sem þessar felur hallareksturinn ekki í sér þjóðhagslegt tap. Fénu er varið til að styrkja fjárhagslega stöðu einstaklinga og fyrirtækja og til að koma í veg fyrir að verðmæti og störf tapist með varanlegum hætti. Markmiðið er að styðja við og örva hagkerfið svo að út úr lægðinni komi samkeppnishæft þjóðfélag þar sem velsæld byggist á öflugum mannauði og kröftugu efnahagslífi.

Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við efnahagsáhrifum COVID-19 heimsfaraldursins fólust í því að beita traustri stöðu ríkissjóðs til að verja heimili og fyrirtæki fyrir fullum þunga áfallsins með ýmsum aðgerðum. Tilgangur þeirra fyrsta kastið var að styðja við lausafjárstöðu og greiðsluhæfi fyrirtækja og heimila eins og kostur var og fleyta þeim áfram til betra efnahagsástands, þar sem vonir stóðu til þess að faraldurinn yrði skammvinnur.

Skuldasöfnun verði stöðvuð 2025

Samanlagður halli áranna 2020 og 2021 gæti orðið um 600 ma.kr. og skuldir hins opinbera samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál gætu því vaxið úr 28% af VLF í árslok 2019 í 48% árið 2021.

Telur ríkisstjórnin mikilvægt að sett verði skýrt og raunhæft stefnumið um að stöðva hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar og rjúfa með því vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar til að endurheimta styrka fjárhagsstöðu hins opinbera.

Til að ná þessu markmiði þarf að ráðast í um 37,5 ma.kr. afkomubætandi ráðstafanir árlega árin 2023–2025, sem nemur tæpum 3% af veltu hins opinbera eða rúmlega 1% af VLF, miðað við grunnsviðsmynd opinberra fjármála og fyrirliggjandi hagspá. Aðgerðir af þessari stærðargráðu eru nauðsynlegar til að tryggja áframhaldandi sjálfbærni opinberra fjármála, að staða þeirra stuðli að efnahagslegum stöðugleika og að ríkissjóður verði í færum til að veita viðnám gegn efnahagsáföllum framtíðarinnar.

Með þessum afkomubætandi aðgerðum verða brúttóskuldir hins opinbera meira en 230 ma.kr. lægri í lok ársins 2025 en ef ekki væri gripið til þeirra. Gert er ráð fyrir að skuldasöfnunin stöðvist við um 59% af VLF í stað þess að verða um 65% af VLF og halda áfram að hækka í framhaldinu. Í kjölfarið taki skuldahlutfallið að lækka á grunni þeirrar hagvaxtargetu sem lögð er til grundvallar í áætluninni.

Frumvarp lagt fram um að víkja lengur frá fjármálareglum

Í greinargerð með fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 kemur fram að til þess að koma í veg fyrir of harkalegt viðbragð ríkisfjármálanna þegar árið 2023 sé nauðsynlegt að víkja tölulegum fjármálareglum frá lengur en þau þrjú ár sem lög um opinber fjármál gefa svigrúm til. Ella þyrfti að taka halla sem næmi um 6% af VLF niður í 2,5% í einu vetfangi.
Samhliða framlagningu fjármálaáætlunar leggur fjármála- og efnahagsráðherra því fram frumvarp um breytingu á lögum um opinber fjármál. Það felur í sér að skilyrði 7. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, varðandi heildarjöfnuð og skuldahlutföll hins opinbera, svonefndar tölulegar fjármálareglur, gildi ekki fyrir árin 2023–2025.

Framlagning síðar en venja er

Fjármálaáætlun á samkvæmt lögum um opinber fjármál að leggja fram eigi síðar en fyrir 1. apríl ár hvert. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru samþykkti Alþingi í sumar breytingu til bráðabirgða á lögum um opinber fjármál sem heimilaði að leggja fram endurskoðaða fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp ekki síðar en á fyrsta samkomudegi haustþings. Endurskoðuð fjármálastefna var lögð fram í ágúst sl. og samþykkt 3. september. Fjármálaáætlun, sem felur í sér nánari útfærslu á markmiðum fjármálastefnu, er lögð fram í dag samhliða fjárlagafrumvarpinu.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Allar upphæðir eru í milljónum króna

 

Vakin er athygli á eftirfarandi atriðum:

  • Fjárhæðir áranna 2019 til 2021 eru á verðlagi hvers árs. Áætlanir áranna 2022 og 2023 eru á verðlagi ársins 2021.
  • Eftir atvikum hafa verið gerðar aðlaganir á framsetningu útgjalda áranna 2019 og 2020, einkum í þeim tilfellum þar sem viðföng hafa verið flutt í heild sinni á ný viðföng.
  • Í samanburðinum hér, þar sem við á, hafa afskriftir ársins 2019 verið dregnar frá en fjárfestingum bætt við en þær eru ekki gjaldfærðar innan ársins heldur eignfærðar í efnahagsreikningi.

 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta