Hoppa yfir valmynd

Fjármálaáætlun 2021-2025

Fjármálaáætlun 2021-2025

Fjármálaáætlun var samþykkt á Alþingi 17. desember 2020. Meðfylgjandi eru skjöl úr áætluninni: 

Töflur í þingsályktun  (Excel). 

Töfluviðauki fjármálaáætlunar áranna 2021-2025.

Frá kynningu áætlunarinnar 1. október 2020

Viðsnúningur hallareksturs skýrt markmið

Helsta áskorun stjórnvalda á tímabili fjármálaáætlunarinnar fyrir árin 2021–2025 verður að snúa við miklum hallarekstri hins opinbera vegna efnahagslegra áhrifa af heimsfaraldri kórónuveirunnar og koma böndum á skuldasöfnun. Við aðstæður sem þessar felur hallareksturinn ekki í sér þjóðhagslegt tap. Fénu er varið til að styrkja fjárhagslega stöðu einstaklinga og fyrirtækja og til að koma í veg fyrir að verðmæti og störf tapist með varanlegum hætti. Markmiðið er að styðja við og örva hagkerfið svo að út úr lægðinni komi samkeppnishæft þjóðfélag þar sem velsæld byggist á öflugum mannauði og kröftugu efnahagslífi.

Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við efnahagsáhrifum COVID-19 heimsfaraldursins fólust í því að beita traustri stöðu ríkissjóðs til að verja heimili og fyrirtæki fyrir fullum þunga áfallsins með ýmsum aðgerðum. Tilgangur þeirra fyrsta kastið var að styðja við lausafjárstöðu og greiðsluhæfi fyrirtækja og heimila eins og kostur var og fleyta þeim áfram til betra efnahagsástands, þar sem vonir stóðu til þess að faraldurinn yrði skammvinnur.

Skuldasöfnun verði stöðvuð 2025

Samanlagður halli áranna 2020 og 2021 gæti orðið um 600 ma.kr. og skuldir hins opinbera samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál gætu því vaxið úr 28% af VLF í árslok 2019 í 48% árið 2021.

Telur ríkisstjórnin mikilvægt að sett verði skýrt og raunhæft stefnumið um að stöðva hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar og rjúfa með því vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar til að endurheimta styrka fjárhagsstöðu hins opinbera.

Til að ná þessu markmiði þarf að ráðast í um 37,5 ma.kr. afkomubætandi ráðstafanir árlega árin 2023–2025, sem nemur tæpum 3% af veltu hins opinbera eða rúmlega 1% af VLF, miðað við grunnsviðsmynd opinberra fjármála og fyrirliggjandi hagspá. Aðgerðir af þessari stærðargráðu eru nauðsynlegar til að tryggja áframhaldandi sjálfbærni opinberra fjármála, að staða þeirra stuðli að efnahagslegum stöðugleika og að ríkissjóður verði í færum til að veita viðnám gegn efnahagsáföllum framtíðarinnar.

Með þessum afkomubætandi aðgerðum verða brúttóskuldir hins opinbera meira en 230 ma.kr. lægri í lok ársins 2025 en ef ekki væri gripið til þeirra. Gert er ráð fyrir að skuldasöfnunin stöðvist við um 59% af VLF í stað þess að verða um 65% af VLF og halda áfram að hækka í framhaldinu. Í kjölfarið taki skuldahlutfallið að lækka á grunni þeirrar hagvaxtargetu sem lögð er til grundvallar í áætluninni.

Frumvarp lagt fram um að víkja lengur frá fjármálareglum

Í greinargerð með fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 kemur fram að til þess að koma í veg fyrir of harkalegt viðbragð ríkisfjármálanna þegar árið 2023 sé nauðsynlegt að víkja tölulegum fjármálareglum frá lengur en þau þrjú ár sem lög um opinber fjármál gefa svigrúm til. Ella þyrfti að taka halla sem næmi um 6% af VLF niður í 2,5% í einu vetfangi.
Samhliða framlagningu fjármálaáætlunar leggur fjármála- og efnahagsráðherra því fram frumvarp um breytingu á lögum um opinber fjármál. Það felur í sér að skilyrði 7. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, varðandi heildarjöfnuð og skuldahlutföll hins opinbera, svonefndar tölulegar fjármálareglur, gildi ekki fyrir árin 2023–2025.

Framlagning síðar en venja er

Fjármálaáætlun á samkvæmt lögum um opinber fjármál að leggja fram eigi síðar en fyrir 1. apríl ár hvert. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru samþykkti Alþingi í sumar breytingu til bráðabirgða á lögum um opinber fjármál sem heimilaði að leggja fram endurskoðaða fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp ekki síðar en á fyrsta samkomudegi haustþings. Endurskoðuð fjármálastefna var lögð fram í ágúst sl. og samþykkt 3. september. Fjármálaáætlun, sem felur í sér nánari útfærslu á markmiðum fjármálastefnu, er lögð fram í dag samhliða fjárlagafrumvarpinu.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta