Fjármálaáætlun 2024-2028
Í fjármálaáætlun eru áherslur og markmið til næstu fimm ára sem byggja á fjármálastefnu hins opinbera. Áætlunin felur í sér ítarlega útfærslu á markmiðum sem sett eru fram í fjármálastefnunni, dýpkar nánar markmið hennar og greinir hvernig þeim verði náð. Markmið með fjármálaáætluninni er að útfæra markmið um tekjur og gjöld hins opinbera og þróun þeirra.
Inngangur að fjármálaáætlun 2024-2028
Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sýnir þá stefnu ríkisstjórnarinnar að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti til að sporna gegn verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda. Á sama tíma er staðinn vörður um mikilvæga grunnþjónustu sem ríkisstjórnin hefur eflt með verulegum hætti á undanförnum árum á grundvelli sterkrar stöðu ríkissjóðs. Þá verður sérstaklega stutt við þá hópa sem síst geta mætt áhrifum hærri verðbólgu líkt og áður hefur verið gert með stuðningsaðgerðum stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur og á liðnu ári.
Lykiltölur úr fjármálaáætlun 2024-2028
22. Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála
24. Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa
25. Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta
27. Örorka og málefni fatlaðs fólks
30. Vinnumarkaður og atvinnuleysi
32. Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
33. Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar
Greinargerð ráðuneyta um málefnasvið og málaflokka
Í köflum greinargerðarinnar hér á eftir fer umfjöllun um áherslur og markmið til næstu fimm ára fyrir þau 35 málefnasvið og 105 málaflokka sem fjármálaáætlun tekur til. Um stefnumótun málefnasviða og málaflokka gildir ákvæði 20. gr. laga um opinber fjármál sem stuðlar að heildstæðri áætlanagerð fyrir tímabil fjármálaáætlunar.
Um framsetningu og framkvæmd stefnumótunar fyrir öll málefnasvið eiga við sömu sjónarmið þrátt fyrir ólíkt eðli og umfang starfsemi. Í því samhengi skal lögð áhersla á skýrleika, einfaldleika og gegnsæi, sbr. lög um opinber fjármál. Framsetning stefnu málefnasviða og málaflokka er því samræmd og umfjöllun um efnisþætti eðlislík. Slíkt auðveldar yfirsýn og einfaldar samanburð þvert á málefnasvið og málaflokka.
Gildandi fjármálaáætlun til fimm ára var samþykkt á Alþingi 14. júní sl., sbr. 513. mál 152. þings. Áætluninni fylgdi greinargerð um áherslur og markmið á tímabilinu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem fjármálaáætlun tekur til, sbr. þingskjal 735 á 152. löggjafarþingi, bls. 172–473. Sú stefnumörkun sem þar lá til grundvallar stendur að miklu leyti óbreytt og í greinargerð þessarar áætlunar er sjónum beint að breytingum ef einhverjar hafa orðið.
Uppbygging málefnasviða
- Ábyrgð hlutaðeigandi ráðherra er tilgreind í upphafi málefnasviðs, einnig þar sem málefnasvið skarast við ábyrgðarsvið tveggja eða fleiri ráðherra. Í slíkum tilfellum móta ráðherrar í samráði stefnu með hliðsjón af því stjórnarmálefni sem þeim tilheyrir.
- Fjárhagsleg þróun málefnasviðs og viðkomandi málaflokka er birt fyrir tímabilið 2021–2023. Eftir atvikum hafa verið gerðar aðlaganir á framsetningu útgjalda ársins í þeim tilfellum sem viðföng hafa verið flutt í heild sinni milli málefnasviða eða málaflokka.
- Framtíðarsýn fyrir málefnasvið lýsir þeim framförum sem ætlað er að ná til lengri tíma, sem dæmi um aukið virði fyrir samfélagið.
- Meginmarkmið fyrir málefnasvið lýsir tilætluðum áhrifum af starfsemi stjórnvalda, ráðuneyta og ríkisaðila fyrir samfélagið, sem dæmi um hag fyrir borgara og skattgreiðendur – og styður jafnframt við framtíðarsýn.
- Töluleg umfjöllun dregur fram helstu lykilatriði eða breytingar á fimm ára fjárhagsramma málefnasviðs. Þá eru tilgreindar fjárheimildir málefnasviðsins á tímabili fjármálaáætlunar.
- Helstu áherslur lýsa forgangsmálum á málefnasviðinu á tímabili áætlunarinnar.
Uppbygging málaflokka
- Verkefnum hvers málaflokks er lýst í byrjun, þ.e. hvaða málefni/verkefni falla þar undir.
- Helstu áskoranir í málaflokknum eru tíundaðar fyrir tímabil áætlunarinnar og gerð grein fyrir tækifærum til að mæta þessum áskorunum. Lögð er áhersla á að gera grein fyrir breytingum frá gildandi fjármálaáætlun en að öðru leyti er vísað til umfjöllunar í þingskjali 735 á 152. löggjafarþingi. Þá er áhersla á að draga fram áskoranir út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum, sbr. stöðuskýrslu um kortlagningu kynjasjónarmiða. Mörg af þeim tækifærum sem tíunduð eru birtast síðar sem verkefni í greinargerð um viðkomandi málaflokk í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.
- Markmið fyrir hvern málaflokk lýsa hreyfingu sem ætlað er að ná fram og styðja við meginmarkmið málefnasviðs. Markmiðin eru talin upp í sérstakri töflu en ítarlegri lýsingu á markmiðum og mælikvörðum hvers málaflokks má finna gildandi fjármálaááætlun sbr. 513. mál 152. þings.
- Mælikvarðar um árangur mæla framgang markmiðs, þ.e. ólíka þætti árangurs, skilvirkni og þjónustu, með hlutlægum hætti. Mælikvörðunum er þannig ætlað að mæla aukið samfélagsvirði, sjáanlegar jákvæðar breytingar eða bætt gæði fyrir samfélagið. Þar sem það er mögulegt er leitast við að mæla endanleg áhrif sem sóst er eftir.
- HM-dálkur lýsir tengingu mælikvarða við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sbr. umfjöllun hér að aftan.
Áherslur til grundvallar stefnumótun
Áherslur ríkisstjórnarinnar, sem gerð er grein fyrir í stjórnarsáttmála, eru grundvöllur allrar umfjöllunar um málefnasvið og málaflokka og mótun stefnu fyrir þau. Þannig ættu áherslur í stjórnarsáttmála að endurspeglast í helstu áherslum hvers málefnasviðs, í tækifærum til umbóta og í markmiðum og mælikvörðum hvers málaflokks.
Jafnframt mynda sex velsældaráherslur, sem saman endurspegla stefnu ríkisstjórnarinnar og horfa til framtíðar á mikilvægum sviðum, grundvöll að umfjöllun á málefnasviðum. Vísanir til einstaka velsældaráherslna er að finna í greinargerðum langflestra málefnasviða. Nánari grein er gerð fyrir velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar í rammagrein 8 í 4. kafla almennri greinargerðar.
Stefna til meðallangs tíma
Stefnumörkun í fjármálaáætlun byggist á hagstjórnarmarkmiðum og stefnumörkun í opinberum fjármálum sem sett voru fram í fjármálastefnu 2022–2026 og samþykkt á Alþingi 24. febrúar 2022. Meginleiðarljós fjármálaáætlunarinnar er að standa vörð um efnahagsbatann sem náðst hefur eftir kórónuveirufaraldurinn og sporna gegn þenslu í hagkerfinu og verðbólgu á sama tíma og styrkur ríkisfjármálanna er endurbyggður. Líkt og í gildandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir óútfærðum ráðstöfunum til þess að bæta afkomu ríkissjóðs á næsta ári til þess að draga úr þenslu og frekari ráðstöfunum á síðari hluta tímabilsins til þess að ná settum markmiðum í stefnunni. Í áætluninni hefur þessum ráðstöfunum ekki verið dreift niður á einstök málefnasvið að svo stöddu en ráðstafanir fyrir næsta fjárlagaár mun þurfa að útfæra við vinnslu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2024. Útfærsla þeirra kunna að hafa áhrif á stefnu einstakra málefnasviða og málaflokka þegar fram í sækir án þess þó að þær muni kollvarpa þeirri stefnu sem hér er kynnt.Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Í töflum með markmiðum og mælikvörðum fyrir hvern málaflokk er að finna tengingar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (HM). Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016–2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum.Heimsmarkmiðin eru alþjóðlegt kall um aðgerðir í þágu jarðar, mannkyns og velsældar. Markmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Rík áhersla hefur verið lögð á tengingu heimsmarkmiðanna við markmiðssetningu í stefnumótun málefnasviða fyrir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á undanförum árum. Með því gefst tækifæri til að kortleggja hvaða aðgerðir og fjármagn liggja til grundvallar innleiðingu hvers markmiðs á tilteknu tímabili.
Tenging heimsmarkmiðanna við fjármálaáætlun þykir á alþjóðavísu vera góð leið til að tryggja samþættingu fjármagns og aðgerða í þágu markmiðanna. Sameinuðu þjóðirnar hafa ýtt úr vör átakinu Áratugur aðgerða í því skyni að hvetja þjóðir heimsins til að leggja aukinn þunga á innleiðingu markmiðanna.
Fjármálaáætlun
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.