Hoppa yfir valmynd

Heildaráætlun um byggingu nýs Landspítala

Í fjármálaáætlun 2022‒2026 var birt rammagrein um breytingu á skipulagi framkvæmda vegna nýs Landspítala við Hringbraut. Þar kom fram að til stæði að endurskoða umfang og skipulag fjárfestinga og framkvæmda í því skyni að styrkja heildarsýn og tryggja skýra forgangsröðun og góða nýtingu fjármuna. Settur hafði verið á fót stýrihópur um verkefni nýja Landspítalans sem ber ábyrgð á samhæfingu og stjórn allra meginþátta verkefnisins. Meðal verkefna hópsins væri að endurmeta fyrirliggjandi áætlanir um heildarskipulag verkefnisins, nýtingu nýrra og eldri bygginga sem og áætlun um öflun tækjabúnaðar.

Stýrihópurinn lét yfirfara kostnaðar- og framkvæmdaráætlanir verksins, uppfæra forsendur þarfagreiningar og í framhaldi af því var afráðið að láta gera nýja þarfagreiningu fyrir Landspítala og áhættugreiningu fyrir einstaka verkþætti verkefnisins og kostnaðar- og tímaáætlanir þeirra. Nú hefur verið lögð fram 1. áfangaskýrsla um nýjan Landspítala við Hringbraut. Stýrihópurinn hefur skipt uppbyggingu á nýjum Landspítala upp í tvo megináfanga.
Til 1. áfanga teljast annars vegar Hringbrautarverkefnið eins og það var upphaflega skilgreint en til þess teljast fjórar byggingar. Í fyrsta lagi meðferðarkjarninn sem er langstærsta byggingin, eða um 70 þúsund fermetrar að stærð, og verður í lykilhlutverki í starfsemi spítalans. Þá er það rannsóknarhúsið sem er tæpir 18 þúsund fermetrar. Þar verður allri rannsóknarstarfsemi spítalans komið fyrir auk blóðbankans. Jafnframt verður bílastæða- og tæknihús (BT-húsið) tæpir 20 þúsund fermetrar með um 550 bílastæði auk hjólageymslu en þar verður einnig tæknirými fyrir varaaflsvélar, kælikerfi og varakyndingu spítalans. Fjórða byggingin er sjúkrahótelið en hún er þegar fullkláruð. Á seinni stigum var ákveðið að bæta við bílakjallara undir aðaltorgi svæðisins og mun hann rúma 170 bílastæði og verða um 7 þúsund fermetrar.
Hins vegar eru önnur verkefni sem nýja Landspítalanum hefur verið falið að hafa umsjón með í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru á fyrirkomulagi heildarverkefnisins. Verkefnin varða helst búnað og tæki spítalans eftir að starfsemin hefur verið flutt í nýbyggingarnar og viðbyggingu við Grensásdeild spítalans. Enn fremur falla undir önnur verkefni tillögugerð og áætlanir fyrir ýmsa stoðþjónustu, þ.m.t. húsnæði fyrir eldhús, vörumóttaka og vöruhús, ásamt flokkunarmiðstöð fyrir sorp. Þá hefur stýrihópnum verið falið að móta stefnu um framtíðarupplýsingakerfi fyrir spítalann sem gert er ráð fyrir að nýtist fyrir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu almennt og heilbrigðisstofnanir í víðara samhengi. Að lokum hefur stýrihópurinn látið gera úttekt á öllu eldra húsnæði spítalans með tilliti til framtíðaruppbyggingar. Var þar horft til alls húsnæðis á vegum Landspítala, s.s. leiguhúsnæðis, húsnæðis sem ekki er í notkun og húsnæðis sem kann að losna úr notkun í framhaldi af Hringbrautarverkefninu en verklegar framkvæmdir við margar þessara bygginga falla undir 2. áfanga verkefnisins.

Til 2. áfanga í uppbyggingu Landspítala falla verkefni sem þarf að ráðast í til að sinna framtíðarþörfum LSH til viðbótar við þau verkefni sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um. Meðal þeirra bygginga sem falla undir þennan áfanga eru húsnæði vegna dag-, göngu- og legudeilda, nýbygging fyrir geðheilbrigðisþjónustu spítalans, sem fljótlega verður hægt að hefja áætlunargerð fyrir, og endurnýjun aðstöðu eða nýbyggingar fyrir krabbameinsdeild spítalans, auk þess sem mörg önnur þjónusta er í mikilli þörf fyrir betra húsnæði. Ljóst er að frekari greiningar er þörf fyrir framangreinda starfsemi. Gert er ráð fyrir að nánari þarfagreining og áætlanagerð hefjist á allra næstu misserum til að hægt verði að ráðast í verklegar framkvæmdir við 2. áfanga þegar á gildistíma þessarar fjármálaáætlunar. Haldist fjárhagslegt umfang til verkefnisins við endurskoðun næstu áætlana er raunhæft að ætla að hægt sé að ljúka einnig þeim verkefnum sem falla undir 2. áfanga á næstu 8–10 árum.

Það var niðurstaða úttektar á húsnæði spítalans að nokkrar byggingar verða ekki notaðar undir starfsemina í framtíðinni. Þar á meðal eru Kleppur og Vífilsstaðir og til skoðunar er að nýta byggingu Borgarspítalans í Fossvogi með öðrum hætti. Þá er talin þörf á sérstöku endurmati varðandi Landakot, húsnæði geðþjónustu við Hringbraut, birgðastöð við Tunguháls og rannsóknastofur við Hringbraut. Ekki liggur fyrir ákvörðun um framtíðarnýtingu þessara fasteigna en niðurstöður endurmatsins munu eðli máls samkvæmt hafa áhrif á húsnæðisþörf spítalans og fyrirkomulag 2. áfanga.

Fyrir 1. áfanga verkefnisins hefur verið unnin nákvæm tímaáætlun. Samkvæmt henni verður búið að afhenda allar byggingar áfangans til notkunar á gildistíma þessarar áætlunar að undanskildum nokkrum byggingum og mannvirkjum sem tengjast stoðþjónustu og innviðum (s.s. vörumóttaka og flokkunarstöð, tengibyggingar og endanlegur frágangur gatna og lóða). Meginbreyting í uppfærðri áætlun felst í afhendingu bygginga. Afhending þeirra og flutningur starfsemi í þær er flókið og viðamikið verkefni. Því hefur afhendingu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss verið seinkað til áranna 2027‒2028 en í fyrri áætlun átti afhending að eiga sér stað tveimur árum fyrr. Ekki liggur fyrir áætluð tímaáætlun fyrir verkefni í 2. áfanga uppbyggingar Landspítala umfram það sem að framan greinir en framkvæmdatími einstakra verkþátta hefur verið skilgreindur og verður nánari útfærsla áætlana um þessi mannvirki unnin samhliða ákvarðanatöku um þau. Miðað við fyrirliggjandi forsendur er ráðgert að framkvæmdatími hvers verkefnis í 2. áfanga geti verið um fimm ár. Það mun svo ráðast á síðari stigum hvort þau verði mörg eða öll á framkvæmdastigi á sama tímabili.

Í áfangaskýrslunni er birt kostnaðaráætlun fyrir heildarverkefnið og er hún byggð á reynslutölum úr sambærilegum verkum bæði innan lands og erlendis. Kostnaður vegna framkvæmda frá og með árinu 2022 er á verðlagi þess árs en áfallinn kostnaður til og með 2021 er á verðlagi hvers árs. Samkvæmt áætluninni er heildarkostnaður verksins um 211 ma.kr., þar af nemur kostnaður við 1. áfanga verkefnisins um 156 ma.kr., þar af á eftir að framkvæma fyrir um 127 ma.kr. fram til ársins 2030. Áætlunin gerir ráð fyrir að kostnaður við 2. áfanga nemi tæpum 55 ma.kr. en óvissubil í framangreindum tölum er upp á -10% til +30%. Miðað við þetta má áætla að kostnaður við framangreind verkefni sé á bilinu 49‒71 ma.kr. Í fjármálaáætlun hafa fjárveitingar til verkefnisins verið uppfærðar á áætlað verðlag hvers árs. Það er breytt framsetning frá því sem hingað til hefur tíðkast í fjármálaáætlun en hingað til hafa allar fjárhæðir verið á föstu verðlagi. Því eru þær töluvert hærri en áfangaskýrslan birtir. Samkvæmt verðlagsuppfærslum má gera ráð fyrir að kostnaður við 1. áfanga nemi um 148 ma.kr. frá árinu 2023 og þar af falli til á tímabili fjármálaáætlunar um 122 ma.kr. en kostnaður við 2. áfanga er áætlaður um 72 ma.kr. á verðlagi hvers árs og um tæpir 14 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar.

Með framangreindri áætlun um byggingu nýs Landspítala er nú í fyrsta skipti komin fram heildaráætlun um verkefnið eins og það er nú skilgreint. Þar er birt heildstæð mynd á þau verkefni sem búið er að taka ákvörðun um, stöðu þeirra, framkvæmdatíma og kostnað. Enn fremur er komin skýr mynd á þær ákvarðanir sem stjórnvöld þurfa að taka á næstu árum og varða helst 2. áfanga verkefnisins en stærstur hluti hans fellur til utan tímaramma þessarar fjármálaáætlunar.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta