Hoppa yfir valmynd

04 Utanríkismál

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð utanríkisráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarútgjöld málefnasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn utanríkisþjónustunnar er að hagsmunir lands og þjóðar séu tryggðir á grund­velli alþjóðalaga með virku fjölþjóðakerfi sem sátt ríkir um. Ísland leggi sitt af mörkum í alþjóðlegu samstarfi til að stuðla að framgangi lýðræðis, mannréttinda, kynjajafnréttis og réttarríkisins, sjálfbærri þróun og friðsamlegum lausnum deilumála á grundvelli þjóðaréttar. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru vegvísir í alþjóðasamstarfi til ársins 2030.

Meginmarkmið utanríkisþjónustunnar er að gæta í hvívetna hagsmuna Íslands gagnvart öðrum ríkjum samkvæmt lögbundnu hlutverki, einkum er snertir stjórnmál og öryggismál, utanríkis­viðskipti og menningarmál. Ísland fái aukna hlutdeild í alþjóðaviðskiptum, varnir landsins séu tryggðar og ríkisborgarar njóti verndar og aðstoðar gagnvart erlendum stjórn­völdum, stofnunum og einstaklingum.

Fjármögnun

Fjárheimildir til málefnasviðsins lækka um 523,5 m.kr. á áætlunartímanum. Auk aðhalds skýrist breytingin aðallega af tveimur þáttum. Annars vegar er lækkun á framlögum til Uppbyggingarsjóðs EES sem ná hámarki á árinu 2023 og lækka strax töluvert á árinu 2024, hins vegar renna tímabundin verkefni sitt skeið á enda á tímabilinu. Á móti koma til hækkunar auknar fjárheimildir til öryggis- og varnarmála.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar. 

Tafla: Útgjaldarammi málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

VELSÆLD OG FRELSI  -  Öflugt alþjóðasamstarf. Fylgja eftir gildum Íslands og hagsmunum með öflugu alþjóðlegu samstarfi og forystu. Græn framtíð og nýsköpun. Nýsköpun og lausnamiðað alþjóðastarf í loftslags-, auðlinda- og umhverfis¬málum. Mannréttindi í forgrunn. Vinna að frelsi, öryggi og friði, stuðla að jafnrétti og lýðræði.

04.1 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála

Verkefni

Á grundvelli laga nr. 39/1971[1] stendur utanríkisþjónustan vörð um hagsmuni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og veitir ríkisborgurum vernd og aðstoð gagnvart erlendum stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum, ásamt því að sinna samningagerð við önnur ríki. Málsvarastarf og hagsmunagæsla byggir á grunngildum Íslands þar sem staðinn er vörður um alþjóða­stofnanir, alþjóðalög, friðsamlegar lausnir, frjáls viðskipti, lýðræði, jafnrétti kynjanna, mann­réttindi og sjálfbærni á öllum sviðum. Í samræmi við stjórnarsáttmála er við hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi unnið að því að tryggja að Ísland hafi fullt forræði yfir öllum auðlindum sínum og staðinn vörður um það kerfi alþjóðlegra samninga og þjóðréttarskuldbindinga sem ríki heims hafa tekist á hendur.

Hér undir fellur að mestu starfsemi aðalskrifstofu ráðuneytisins og 27 sendiskrifstofa sem Ísland starfrækir í 22 ríkjum. Þær skiptast í sendiráð, fastanefndir og aðalræðisskrifstofur með útsendum og staðarráðnum starfsmönnum. Starfsfólk ráðuneytisins og sendiskrifstofa vinnur að hagsmunagæslu og málsvarastarfi á vettvangi alþjóðastofnana, þjónustu við íslenska ríkis­borgara erlendis, kynningarstarf og markaðssetningar erlendis á íslenskum vörum, þjónustu og menningu, auk þess að sinna fyrirsvari gagnvart ríkjum sem Ísland á í stjórnmálasambandi við.

Borgaraþjónustan er ein af grunnstoðum utanríkisþjónustunnar og þjónar hún þeim 50.000 Íslendingum sem búsettir eru erlendis og öðrum sem eru á faraldsfæti hverju sinni. Sendiskrifstofur og net kjörræðismanna Íslands, sem eru um 200 talsins í rúmlega 90 löndum, gegna mikilvægu öryggis- og þjónustuhlutverki fyrir Íslendinga erlendis.

Helstu áskoranir

Velsæld og frelsi eru sett í forgrunn í starfi utanríkisþjónustunnar þar sem sérstök áhersla er lögð á öflugt alþjóðasamstarf, græna framtíð og nýsköpun, og að setja mannréttindi í forgrunn í starfi í takt við velsældaráherslur og stjórnarsáttmála ríkisstjórnar.

Innrás Rússlands í Úkraínu olli straumhvörfum í alþjóðapólitík og öryggisumhverfi Evrópu. Hún sýnir glöggt að virðing fyrir alþjóðalögum, landamærum og lögsögu og sterkt alþjóðakerfi er grundvallarhagsmunamál fyrir Ísland. Brýnt er að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til alþjóðlegs samstarfs og rækti samskipti bæði við nágrannaríki og fjarlægari ríki.

Virk þátttaka og forystuhlutverk Íslands í alþjóðlegri samvinnu er hluti af nauðsynlegri hagsmunagæslu sem krefst undirbúnings, fjármuna og mannafla. Mikilvægt er að nýta þá þekkingu og reynslu sem fengist hefur í forystuverkefnum undanfarinna ára. Lýðræðisleg gildi og mannréttindi allra eru veigamikill þáttur í störfum utanríkisþjónustunnar, bæði í tvíhliða samstarfi við einstök ríki og ríkjasambönd, og á vettvangi alþjóðastofnana. Ein helsta áskorun utanríkisþjónustunnar er að sinna sínum meginverkefnum miðað við horfur í alþjóðlegu efnahagslífi, bæði hvað varðar þau verkefni sem henni eru falin samkvæmt lögum og grunnþætti í rekstri aðalskrifstofu og sendiskrifstofa Íslands á erlendri grundu. Á tímabilinu er nauðsynlegt að standa straum af kostnaði af setu Íslands í framkvæmdastjórn Mennta-, menningar- og vísindamálastofnunar SÞ (UNESCO) 2021–2025 og áframhaldandi starfsemi fastanefndar í Strassborg að lokinni formennsku í Evrópuráðinu. Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og eftirleikur þess mun sömuleiðis kalla á áframhaldandi pólitíska stefnumörkun og virka þátttöku á alþjóðavettvangi. Samstarf Norðurlanda á alþjóðavettvangi verður áfram einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands með velsældar- og loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar að leiðarljósi og samnorræna framtíðarsýn um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Ísland mun næst gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og norrænu utanríkissamstarfi árið 2029, og hefst undirbúningur hennar á tímabilinu, auk formennsku Íslands í Eystrasaltsráðinu 2026–2027.

Lausnamiðað starf á sviði loftslags-, auðlinda- og umhverfismála er sömuleiðis eitt af meginverkefnum utanríkisþjónustunnar til að stuðla að sjálfbærri þróun og tryggja að Ísland geti nýtt þau tækifæri sem felast í grænni þróun, innleiðingu hringrásarhagkerfisins og grænni umbreytingu á öllum sviðum. Starf þetta tekur mið af velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlausa framtíð árið 2040. Utanríkisráðuneytið hefur um áratugaskeið verið virkur málsvari á vettvangi hafréttar í samstarfi við fagráðuneyti og fylgir stefnumörkun ríkisstjórnar um samningsmarkmið í viðræðum um nýja alþjóðasamninga á því sviði. Samstarf við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið verður eflt í samræmi við stjórnarsáttmála ríkis­stjórnarinnar um uppfærð markmið Íslands í loftslagsmálum. Sérstaklega verður horft til aukinnar áherslu og fjármögnunar Íslands á loftslagstengdum þróunarverkefnum og þátttöku í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og markmið, ásamt áherslum í stjórnarsáttmála ríkis­stjórnarinnar um baráttuna við loftslagsbreytingar og aðlögun að þeim. Kröfugerð Íslands vegna landgrunns til suðurs verður fylgt eftir á grundvelli vísindarannsókna og samráðs til að ná fram sem skýrastri afmörkun umráðasvæðis Íslands á hafsbotni. Þá verður lögð áhersla á alþjóðasamvinnu í baráttunni við plastmengun í hafi á norðurslóðum sem og fyrirsvar og hagsmunagæslu Íslands í málefnum hafsins á alþjóðavettvangi.

Tækifæri til umbóta

Áhersla er lögð á að hagsmunir og fullveldi Íslands í samstarfi og viðskiptum við önnur ríki sé tryggt. Ísland á mikla samleið með Evrópuríkjum og Atlantshafsbandalagsríkjum en á um leið mikilla hagsmuna að gæta, sérstaklega í EES-samstarfinu og í víðtæku samstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Sendiráð Íslands gegna lykilhlutverki í samskiptum við þessi ríki og stofnanir Evrópusambandsins hafa aukist verulega á undanförnum árum og fara hagsmunir landanna saman í mikilvægum málaflokkum. Á grundvelli tillagna í skýrslunni Vinátta og vaxtarbroddar: Samskipti Íslands og Póllands mun nýopnað sendiráð Íslands í Varsjá hlúa að pólitískum, efnahagslegum og menningarlegum tengslum ríkjanna og efla samskipti við önnur Austur-Evrópuríki í umdæmi þess. Utanríkisráðuneytið, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiráð Íslands í öðrum heimshlutum leika svo lykilhlutverk í því að styrkja samskipti við fjarlægari ríki enda eru diplómatísk samskipti aldrei eins mikilvæg og þegar spenna og óeining gerir vart við sig.

Áhersla verður lögð á gerð áætlunar um framkvæmd þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða[2] í samráði við þá fjölmörgu aðila innan lands sem vinna að norðurslóðamálum. Á grundvelli stefnunnar og stjórnarsáttmála er miðað að því að efla stöðu Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á Íslandi. Markmiðið er að byggja enn frekar upp innlenda þekkingu á málefnum svæðisins og öflugt fræðastarf um málefni norðurslóða. Fram undan er einnig mótun framkvæmdaáætlunar í samstarfi Íslands við bæði Grænland og Færeyjar á grundvelli samstarfsyfirlýsinga og tillagna starfshópa um samstarf við löndin.

Hlúa þarf að mannauði utanríkisþjónustunnar og veita vandaða starfsumgjörð. Umbætur í starfi munu byggja á árangursmiðaðri sýn og að nýta þau tækifæri sem felast í stafvæðingu starfseminnar og stafrænni utanríkisþjónustu til að bæta þjónustu og upplýsingamiðlun, m.a. í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnar um betri samskipti við almenning. Áfram verður unnið að endurbótum á starfsáætlanagerð sendiskrifstofa og stutt við markaðsverkefni stjórn­valda og Íslandsstofu, Skapandi Ísland, til að efla samstarf og auka slagkraft í kynningu á íslenskri menningu erlendis. Tækifæri til umbóta felast í nýsköpun, bæði í innra starfi ráðuneytisins og til að greiða leið íslensks hugvits og nýsköpunar á markaði.

Jafnréttismálin eru sem fyrr miðlæg í öllu málsvarastarfi Íslands á alþjóðavettvangi. Í ljósi frammistöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði á þessu sviði er mikill áhugi til staðar meðal annarra ríkja á þeim leiðum sem Ísland hefur farið til að tryggja kynjajafnrétti og eru jafnréttismálin ein af útflutningsvörum Íslands.

Innra umbótastarf hefur skilað umtalsverðum árangri. Hlutfall kvenna í diplómatískum stöðum innan íslensku utanríkisþjónustunnar hefur hækkað í 57,2% úr 54,5% árið 2020 og er helmingur af yfirstjórn ráðuneytisins nú skipaður konum. Utanríkisráðuneytið hefur jafnframt framfylgt jafnlaunastefnu Stjórnarráðsins og hlaut jafnlaunavottun árið 2019. Framúrskarandi árangur hefur náðst í þessu tilliti en aðhvarfsgreining sem tekur tillit til þátta sem hafa málefnalega skýringu sýnir að kynbundinn launamunur innan utanríkisráðuneytisins reyndist vera 0,65% í byrjun árs 2022 og er því hverfandi.

Meðal stórra áskorana, sem hafa augljósa efnahagslega þýðingu og Ísland á mikið undir, er hagsmunagæsla tengd loftslags-, orku-, auðlinda- og umhverfismálum, þ.m.t. hafréttar- og landgrunnsmál, auk þess að tryggja viðskiptahagsmuni og aðgengi að alþjóðamörkuðum. Samstarf Norðurlanda sem og samstarf ríkja á norðurslóðum er lykilþáttur í svæðasamstarfi og þar með fyrir hagsmunagæslu Íslands.

Áhættuþættir

Utanríkisþjónustan starfar í síbreytilegu umhverfi og eru áhættuþættir af margvíslegum toga, margir hverjir sem orsakast af utanaðkomandi áhættu. Mikilvægt er að utanríkisþjónustan sé í stakk búin til að takast á við ólíkar aðstæður og áföll á alþjóðavettvangi, hvort sem um er að ræða vopnuð átök, heimsfaraldur, efnahagslegan eða stjórnmálalegan óstöðugleika eða af­leiðingar loftslagsvár. Umtalsverður hluti af verkefnum utanríkisþjónustunnar felur í sér að fást við áföll af ýmsu tagi sem gerir áætlanagerð vandasama og nauðsynlegt að hún miði að því að viðhalda viðbragðsgetu utanríkisþjónustunnar. Með skömmum fyrirvara getur reynst nauð­synlegt að sinna brýnum verkefnum sem upp koma, breyta skipulagi og að starfsfólk taki að sér ný hlutverk til að bregðast við. Því er brýnt að hlúa að innviðum og tryggja að þjónustan geti sinnt sínum grundvallarhlutverkum.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða

2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Standa vörð um grunngildi Íslands á vettvangi fjölþjóðlegrar samvinnu.

16.3,

16.6,

16.7,

17.13,

17.14

Virk þátttaka árlega á vettvangi alþjóðastofnana og svæða­samstarfs: formennskur og stjórnarsetur.

 

2

 

2

2

16.6

Hlutfall Íslendinga sem eru jákvæðir gagnvart aðild að/þátttöku Íslands á vettvangi alþjóðastofnana:[3]

a) Sameinuðu þjóðanna

b) Mannréttinda­ráði SÞ

c) UNESCO

d) Evrópuráðinu

e) Norðurskautsráðinu

f) Norrænu samstarfi

 

 

 

 

78,6%

77%

62,2%

52,5%

70,9%

91,8%

 

 

 

 

79%

78%

63%

53%

71%

92%

 

 

 

 

 

≥79%

≥78%

≥63%

≥53%

≥71%

≥92%

 

16,

17

Sæti Íslands á hnattrænum lista fyrir „mjúkt vald“ ríkja.

37

<36

<35

Standa vörð um hagsmuni íslenskra ríkisborgara erlendis.

16.6

Fjöldi kjörræðismanna Íslands erlendis.

208

≥212

≥216

16.6

Hlutfall Íslendinga sem þekkja til borgaraþjónustu UTN og hlutverks hennar.

44,2%[4]

45%

64%

16.6

Sæti Íslands á hnattrænum aðgengislista fyrir vegabréf ríkja.

7

<7

<7

Standa vörð um hagsmuni Íslands með tvíhliða sam­vinnu við þjóðríki.

16.6

Fjöldi menningar- og viðskiptaviðburða á vegum sendiráða á ári.

305

315

330

04.2 Utanríkisviðskipti

Verkefni

Undir málefnaflokkinn fellur Íslandsstofa en um hana gilda lög nr. 38/2010, með síðari breytingum frá 2018. Íslandsstofa er vettvangur markaðs- og kynningarmála landsmanna á erlendri grundu og er hlutverk hennar að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnis­stöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins. Unnið er á grundvelli framtíðarstefnu fyrir íslenskan útflutning.

Alþjóðlegt og tvíhliða samstarf um utanríkisviðskipti, tengd hagsmunagæsla og samninga­gerð er fjármögnuð undir málaflokki 04.1. Þar ber helst að nefna starf ráðuneytisins sem viðkemur framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES), málefnum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Áfram er lögð áhersla á að tryggja stuðning við íslenska útflutningshagsmuni enda lögbundið hlutverk utanríkisþjónustunnar og forgangsmál. Viðskiptaþjónusta er einn lykilþátta í starfi sendiskrifstofa Íslands erlendis sem ásamt Íslandsstofu kynna Ísland, íslenska menningu, vörur og þjónustu og veita ráðgjöf til fyrirtækja.

Helstu áskoranir

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð aukin áhersla á framkvæmd og þróun EES-samningsins þannig að hagsmunir og fullveldi Íslands í samstarfi og viðskiptum við önnur EES-ríki sé tryggt. Hagsmunagæsla innan EES hefur verið efld til muna og á grundvelli stjórnarsáttmála standa yfir viðræður við Evrópusambandið varðandi endurskoðun viðskipta­samningsins við sambandið um landbúnaðarafurðir. Jafnframt er samið við ESB um nýtt tímabil Uppbyggingarsjóðs EES og um bættan markaðsaðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir. Umfangsmikið starf hefur verið unnið í tengslum við nýjan fríverslunarsamning við Bretland sem brýnt er að fylgja eftir á komandi árum.

Ísland tekur þátt í fjármögnun Uppbyggingarsjóðs EES. Í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlausa framtíð og grósku í nýsköpun leggur Ísland áherslu á að markmið sjóðsins til 2027 snúi að samvinnu á sviði nýsköpunar, rannsókna, jafnréttismála, menntunar, menningarmála og umhverfis-, loftslags- og orkumála. Öfluga stoðþjónustu þarf til að hámarka mögulega aðkomu íslenskra aðila að verkefnum styrkt af sjóðunum.

Ísland mun taka við formennsku í EFTA árið 2025 sem mun ljúka með ráðherrafundi á Íslandi í júní 2026.

Jafn aðgangur kynjanna að alþjóðamörkuðum er mikilvægur, eykur samkeppnishæfni og stuðlar að fjölbreyttari viðskiptaháttum. Helstu atvinnuvegir tengdir viðskiptasamningum Íslands eru fremur karllægir geirar. Erlend gögn gefa til kynna að konur eigi aðeins um 15–20% útflutningsfyrirtækja og að fyrirtæki í eigu kvenna séu almennt smærri og frekar í þjónustugeirum.

Tækifæri til umbóta

Bættur árangur við upptöku og innleiðingu EES-reglna og að koma íslenskum sjónarmiðum um ESB-gerðir fyrr að í upptökuferlinu er stöðug áskorun. Tækifæri til umbóta á framkvæmd EES-samningsins eru í eðli sínu viðvarandi verkefni og verður áfram unnið á þeirri braut í samstarfi við forsætisráðuneytið og stýrihóp Stjórnarráðsins um framkvæmd EES-samningsins.

Áfram er lögð áhersla á fríverslunarviðræður EFTA og tvíhliða viðskiptasamráð Íslands á stærstu mörkuðum. Tækifæra verður leitað fyrir nýsköpun og íslenskar lausnir sem styðja við kolefnislausa framtíð og grænan hagvöxt, s.s. með fríverslunar- og viðskiptasamningum og að nýta þau tækifæri sem gefast innan græna sáttmála Evrópusambandsins. Í samræmi við stjórnarsáttmála verður jafnframt lögð áhersla á frjáls og opin alþjóðaviðskipti, greiðan aðgang íslensks atvinnulífs að alþjóðamörkuðum, afnám viðskiptahindrana og fjölgun fríverslunar­samninga.

Markvisst er reynt að deila reynslu Íslands þegar kemur að jafnréttismálum innan Upp­byggingarsjóðs EES. Einnig beitir Ísland sér áfram fyrir því að setja ákvæði um jafnrétti í frí­verslunar- og viðskiptasamninga. Fríverslunarsamningur Íslands, Noregs og Liechtensteins við Bretland er fyrsti samningurinn sem Ísland er aðili að sem inniheldur slíkt jafnréttisákvæði. Þá leggur Ísland áherslu á málefnastarf til að auka efnahagslega valdeflingu kvenna, afnema kynbundnar viðskiptahindranir og greiða fyrir aðgangi viðskiptakvenna á alþjóðamarkaði, helst á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Áhættuþættir

Pólitísk þróun á alþjóðavettvangi hefur í auknum mæli áhrif á frjáls alþjóðaviðskipti, fyrst og fremst með aukinni verndarhyggju. Vegna þessa eru miklar líkur á auknum vandkvæðum í viðskiptum sem kalla á aðkomu utanríkisþjónustunnar. Fylgjast þarf vel með þessari þróun og bregðast við ef slíkar aðgerðir ógna íslenskum hagsmunum. Slíkar ógnir gætu haft beinar afleiðingar fyrir þjóðaröryggi. Nýjar viðskiptahindranir kalla á skjót viðbrögð og samninga­viðræður við önnur ríki. Mikilvægt er að hlúa að og varðveita fyrirliggjandi samninga og að utanríkisþjónustan hafi slagkraft til að takast á við þetta verkefni í núverandi umbrotaumhverfi.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða

2022

Viðmið

2024

Viðmið

2028

Efla ímynd og orðspor Íslands og styrkja sam­keppnisstöðu íslensks atvinnu­lífs á erlendum mörkuðum.

5,

8,

9,

10,

12,

13,

17

Árangursviðmið Íslandsstofu.[5]

 

 

 

Tryggja íslenskum fyrirtækjum sem bestan aðgang að alþjóðlegum mörkuðum.

5,

8,

9,

10,

12,

13,

17

Hagsmunir Íslands tryggðir með aðild að samningnum um Evrópska efnahags­svæðið:

a) hlutfall Íslendinga sem eru jákvæðir gagnvart aðild Íslands að EES[6]

b) frammistaða við innleiðingu EES-tilskipana[7]

c) frammistaða við innleiðingu EES-reglugerða[8]

d) fjöldi samningsbrotamála fyrir EFTA-dómstólnum

 

 

 

 

58,7%

98,0%

94,8%

1

 

 

 

 

60%

>99%

96%

1

 

 

 

 

60%

>99%

>98%

0

5,

8,

9,

10,

12,

13,

17

Aðgengi Íslands að mörkuðum tryggt með fríverslunar- og loftferðasamningum:

a) fjöldi ríkja sem falla undir fríverslunar-samninga á vettvangi EFTA

b) fjöldi tvíhliða fríverslunarsamninga

c) fjöldi ríkja sem falla undir loftferða-samninga Íslands

 

 

 

40

3

113

 

 

 

41

3

121

 

 

 

43

5

137

Bæta vaxtar­skilyrði fyrir íslenskt athafnalíf og nýsköpun og tryggja velsæld.

8,
9

Fjöldi áhugasamra íslenskra aðila sem komið er á framfæri fyrir samstarfs­verkefni á vegum Uppbyggingarsjóðs EES.[9]

50

70

100

 

8,

9

Hlutfall Íslendinga sem telja að hagsæld Íslands byggist á alþjóðlegum viðskiptum.

80,5%

>80,5%

>80,5%

04.3 Samstarf um öryggis- og varnarmál

Verkefni

Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn varnarmála og mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi á grundvelli varnarmálalaga. Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er það leiðarljós sem starfað er eftir. Hornsteinar öryggis og varna Íslands eru annars vegar aðildin að Atlantshafsbandalaginu sem Ísland var stofnríki að árið 1949 og hins vegar varnarsamningurinn við Bandaríkin frá árinu 1951. Ísland er herlaus þjóð sem tryggir öryggi sitt og varnir markvisst með virku alþjóðlegu samstarfi og samráði við grannríki. Mikilvægt er að Ísland haldi áfram að vera trúverðugur samstarfsaðili og leggi á næstu árum enn frekar sitt af mörkum til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins sem það hefur fulla burði og getu til að gera.

Ráðuneytið ber ábyrgð á að byggja upp og samhæfa viðbúnað, áætlanir og getu gagnvart ógnum sem kunna að steðja að öryggi þjóðarinnar. Þar með taldar eru hernaðarógnir, fjölþátta­ógnir og netöryggismál. Stjórnvöld starfrækja íslenska loftvarnakerfið, samskiptakerfi, auk fjölmargra mannvirkja og tæknibúnaðar á Íslandi, þ.m.t. mannvirki á eignalista Atlantshafs­bandalagsins hér á landi. Rekstur varnarmannvirkja á öryggissvæðunum, gistiríkjastuðningur og starfræksla ratsjár- og fjarskiptakerfis Atlantshafsbandalagsins er veigamikill þáttur í fram­lagi Íslands til sameiginlegra varna bandalagsins og aðildarríkja þess, auk þess sem ráðuneytið sinnir eftirliti með flutningi hergagna og leyfisveitingum þar að lútandi. Ísland er aðili að fjölþjóðlegum samningum er varða afvopnun og vígbúnaðartakmarkanir og taka íslensk stjórnvöld virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um vopnaeftirlit og afvopnunarmál, hvers vægi er síst minna á ófriðartímum.

Dagleg framkvæmd varnartengdra rekstrarverkefna er í höndum varnarmálasviðs Landhelgisgæslu Íslands og ríkislögreglustjóra samkvæmt samningum ráðuneytisins við þessar stofnanir. Náið samstarf er við dómsmálaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og ný­sköpunarráðuneyti hvað netöryggismál varðar.

Helstu áskoranir

Innrás Rússlands í Úkraínu, aukin hernaðarumsvif og yfirlýsingar rússneskra stjórnvalda hafa haft djúpstæð áhrif á öryggishorfur í Evrópu. Í raun má segja að í samanburði við öryggisumhverfi Evrópu undanfarna áratugi hafi orðið eðlisbreyting þar á. Nær öll helstu samstarfsríki Íslands hafa markvisst unnið að því að efla varnargetu og viðnámsþol samhliða því að stórefla þátttöku og framlög til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins. Til að standa undir þessum auknu umsvifum hefur verið miðað við að bandalagsríkin verji að lágmarki 2% af vergri landsframleiðslu til öryggis- og varnarmála. Þá hefur umfang svæðisbundins og tvíhliða varnarsamstarfs tekið stökkbreytingum, þ.m.t. við Bandaríkin, Norðurlöndin og á vettvangi sameiginlegu viðbragðssveitarinnar sem Bretlands leiðir ásamt öðrum Norður-Evrópuríkjum. Breytt öryggisumhverfi, aukin verkefni og krafa um að ríki leggi meira af mörkum kallar á aukin framlög til að tryggja varnar- og öryggishagsmuni Íslands.

Brýnt er að styrkja varnir innviða á Íslandi á áætlunartímanum. Meðal þess sem huga þarf vandlega að eru verkefni sem lúta að auknu öryggi neðansjávarkapla sem tengja Ísland við Evrópu og Norður-Ameríku. Einnig er mikilvægt að tryggja betur í sessi varasambönd um gervihnetti og öryggi varnarmannvirkja og þess búnaðar sem til staðar er á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og ratsjár- og samskiptastöðvunum fjórum. Þá er unnið að undirbúningi endurnýjunar á ratsjár- og fjarskiptakerfum en ljósleiðarakerfi Atlantshafsbandalagsins er grunnstoð í öryggisfjarskiptum landsins. Tryggja þarf þátttöku Íslands í alþjóðlegum sam­vinnuverkefnum á sviði netöryggismála og fjölþáttaógna og vinna að úrbótum sem varða örugg samskipti milli starfsstöðva utanríkisþjónustunnar og við samstarfslönd. Enn fremur er nauð­synlegt að auka endurbætur og uppbyggingu mannvirkja á varnarsvæðinu. Á tímabilinu er ráðgert að verja auknum fjármunum í framangreind varnartengd verkefni.

Jafnframt verður áskorun að auka færni og getu starfsmanna með þjálfun til að sinna vax­andi umfangi í rekstri loftvarnakerfisins, eftirlits- og samskiptakerfa. Aukin viðvera liðsafla samstarfs- og bandalagsríkja felur í sér fleiri og umfangsmeiri rekstrarverkefni á öryggis­svæðinu á Keflavíkurflugvelli sem kallar á fjölgun stöðugilda til að sinna eftirliti, öryggisgæslu, umsjón og ýmiss konar gistiríkjaþjónustu.

Alþjóðlegar skuldbindingar á sviði afvopnunarmála og vígbúnaðartakmarkana eiga undir högg að sækja. Mikilvægt er að sporna við þeirri þróun og er lögð rík áhersla á að varðveita og styrkja samninga á þessu sviði.

Tækifæri til umbóta

Í takt við þróun öryggismála í Evrópu hefur áhersla Atlantshafsbandalagsins á samstarf og viðbúnað sem styrkir sameiginlegar varnir og fælingarmátt til að tryggja öryggi bandalagsríkja aukist til muna. Af þessu leiðir að bandalagsríkin hafa lagt meiri áherslu á viðveru, eftirlit og viðbúnað, m.a. á Norður-Atlantshafi, og hefur Ísland lagt sitt af mörkum með gistiríkja­stuðningi, þátttöku í pólitísku samráði og æfingum. Á sama tíma er uppi aukin krafa um að öll bandalagsríki tryggi eigið öryggi og viðnámsþol samhliða því að að leggja meira af mörkum til sameiginlegra varna og verkefna Atlantshafsbandalagsins.

Á grundvelli samnings við varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands er fjármagn veitt til viðhaldsverkefna til þess að tryggja að íslensk varnarmannvirki gegni hlutverki sínu og standist þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Þannig er viðhaldsþörf varnar­mannvirkja sinnt en á vettvangi Atlantshafsbandalagsins er áhersla lögð á að að innviðir og viðbúnaður renni styrkari stoðum undir sameiginlega viðbragðs- og varnargetu þess. Viðhaldsframkvæmdir eru fjármagnaðar af Íslandi, Bandaríkjunum og með framlögum úr sjóðum Atlantshafsbandalagsins.

Tryggja þarf að geta og sérfræðiþekking í varnarmálum sé til staðar í landinu og að náið sé fylgst með þróun öryggisumhverfisins og pólitískri umræðu um öryggis- og varnarmál. Þörf er á að fjölga markvisst sérfræðingum í þessum málaflokki en það hefur verið vanrækt um áratugaskeið og jafnframt bæta við núverandi þekkingu með þjálfun og æfingum. Stefnt er að því að það verði gert á áætlunartímanum. Í samræmi við áherslur stjórnarsáttmála er það m.a. gert með því að efla norræna samvinnu á þessu sviði sem og annað grannríkjasamstarf en einnig með þátttöku í starfi alþjóðastofnana. Aukin þátttaka í alþjóðastarfi og aukin umsvif kalla á fjölgun sérfræðinga á sviði öryggis- og varnarmála til að sjónarmið og hagsmunir Íslands komist til skila sem jafnframt eykur framlag Íslands gagnvart samstarfsríkjum og Atlantshafsbandalaginu.

Sendiskrifstofur Íslands erlendis gegna mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar, sérstaklega fastanefndir Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, Sameinuðu þjóðunum og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, auk sendiráðs Íslands í Washington. Í takt við breytt öryggis­umhverfi og ákall um aukin framlög og eflingu sameiginlegra varna á vettvangi Atlants­hafsbandalagsins er stefnt að því að borgaralegum sérfræðingum á vegum utanríkis­ráðuneytisins í verkefnum og sérfræðistörfum hjá bandalaginu verði fjölgað. Ekki er aðeins um að ræða framlag Íslands til aðgerða heldur vinna sérfræðingarnir einnig að því að halda hagsmunum Íslands á lofti og öðlast verðmæta reynslu sem skilar sér til baka.

Jafnréttissjónarmið eru höfð til grundvallar í starfi á sviði varnar- og öryggismála, líkt og í öllu starfi utanríkisráðuneytisins. Konum sem körlum eru markvisst tryggð jöfn tækifæri til starfa á málefnasviðinu, hvort sem um ræðir störf innan ráðuneytisins eða fyrir borgaralegar sérfræðistöður. Þá styður Ísland með margvíslegum hætti málefni sem varða ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og aðrar tengdar ályktanir. Sýnileiki og þátttaka í málsvarastarfi á alþjóðavettvangi er mikil en auk þess er fræðslu sinnt og fjármagnar Ísland stöðu útsends sérfræðings í jafnréttismálum innan höfuðstöðva Atlantshafsbandalagsins. Þá gera fastanefndir Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu nú árlega áætlun um hvernig vinna megi að framgangi ályktunar 1325.

Áhættuþættir

Hnattræn og tæknileg þróun, loftslagsbreytingar og nýjar ógnir eru meðal áskorana og úr­lausnarefna. Innrás Rússlands í Úkraínu hefur á stuttum tíma gjörbreytt öryggisumhverfi Evrópu og kallar á stórfellda eflingu sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsríkja. Þá er áskorun fólgin í því að uppfæra áætlanir um viðbrögð, samstarf og getu, að viðhalda stöðuvitund og tryggja að Ísland hafi getu til að framfylgja áætlunum sem tengjast öryggis- og varnarmálum á fullnægjandi máta, þ.m.t. hvað varðar netöryggi og fjölþáttaógnir.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða

2022

Viðmið

2024

Viðmið

2028

Tryggja varnir og viðbúnaðargetu Íslands.

16,

17

Fjöldi varnar- og skrifborðsæfinga sem Ísland tekur þátt í.

2

1

3

Efla þátttöku Íslands í öryggis- og varnarsamstarfi.

16,

17

Viðvera bandalagsríkja hér á landi, mæld í fjölda daga og fjölda þátttakenda.

365/1404

365/1500

365/1500

16,

17

Hlutfall fjárveitinga og styrkja til framkvæmda hér á landi úr sjóðum NATO og með vísan til varnarsamningsins.

2.500 m.kr.

114%

3.000 m.kr.

123%

500 m.kr.

21%

Efla gistiríkjastuðning Íslands.

16,

17

Fjöldi krafna um úrbætur eða breytingar á þjónustu úr gæðaeftirlitsskoðunum Landhelgisgæslu og stofnana NATO skv. skýrslum þjóða sem nýta gistiríkjastuðning.

<5%

<5%

<5%

16,

17

Fjöldi gistirýma innan öryggissvæðisins.

220

320

600

04.5 Bundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs

Verkefni

Undir málaflokkinn falla skylduframlög og aðildargjöld Íslands til alþjóðastofnana sem hafa þann tilgang að styðja alþjóðakerfið og þátttöku Íslands á vettvangi viðkomandi stofnana. Framlögin eru þess eðlis að þau sveiflast nokkuð á milli ára, m.a. vegna breytinga á hlutdeild Íslands í samræmi við reiknireglur viðkomandi stofnunar og fjárhagsáætlana alþjóðastofnana. Núverandi áætlun gerir ráð fyrir talsverðri lækkun framlaga til málaflokksins á tímabilinu. Skýrist það einkum af því að ekki hefur verið lokið við gerð nýrrar áætlunar fyrir Upp­byggingarsjóð EES í stað þeirrar sem rann út á árinu 2021. Viðbúið er að ný áætlun muni gera ráð fyrir hærri framlögum. Þátttaka Íslands í fjölþjóðasamstarfi fellur þvert á verkefni og fer stefnumótun fram undir öðrum málaflokkum sem falla undir málefnasvið 04 Utanríkismál.

[1] Sjá: https://www.althingi.is/lagas/nuna/1971039.html
[2] Sjá: https://www.althingi.is/altext/151/s/1478.html
[3] Byggt á viðhorfskönnun meðal íslensks almennings frá maí 2022. Mælikvarðar endurspegla með óbeinum hætti starf utanríkisþjónustunnar á vettvangi viðkomandi stofnana. Í niðurstöðum könnunarinnar er hægt að finna frekara niðurbrot á svörum almennings, eftir kyni, landshluta, menntun o.s.frv.
[4] Hlutfallið jókst úr 37,6% árið 2019 í 50,3% árið 2021 í kjölfar Covid-19 faraldursins og lækkaði aftur 2022.
[5] Sjá árangursviðmið Íslandsstofu í framtíðarstefnu fyrir íslenskan útflutning: https://www.islandsstofa.is/framtidarstefna-fyrir-islenskan-utflutning.
[6] Byggt á viðhorfskönnun meðal íslensks almennings sem gerð var í maí 2022.
[7] Byggt á frammistöðumati ESA frá maí 2022.
[8] Byggt á frammistöðumati ESA frá maí 2022.
[9] Virkir samstarfsaðilar samkvæmt gagnagrunni utanríkisráðuneytisins, sjá: Government of Iceland | Partnership opportunities in Iceland.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta