Hoppa yfir valmynd

16 Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála og nýsköpunar

Umfang

Starfsemi á málefnasviði markaðseftirlits og neytendamála er á ábyrgð menningar- og viðskiptaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn stjórnvalda er skilvirk efnahagsstarfsemi og velferð á grunni stöðugleika, virkrar samkeppni, gagnsæis og heilbrigðra viðskiptahátta. Meginmarkmið málefnasviðsins er alþjóðleg samkeppnishæfni atvinnulífs sem byggist á efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu jafnvægi.

Framtíðarsýn og meginmarkmið málefnasviðsins eru í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 7–10, 12 og 13, en virkt markaðseftirlit styður við markmið um góða atvinnu og hagvöxt, ábyrga neyslu og framleiðslu, nýsköpun og uppbyggingu, jöfnuð og framþróun á sviði umhverfis- og loftlagsmála. Þau styðja jafnframt við heimsmarkmið 10.5 um að reglusetning og eftirlit með alþjóðlegum fjármálamörkuðum og -stofnunum verði bætt og beiting slíkra reglna efld og heimsmarkmið nr. 16.6 um að þróaðar verði skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum sem hafi gagnsæi að leiðarljósi.

Markmið málaefnasviðsins eru til þess fallin að stuðla að ánægju almennings með þjónustu Samkeppniseftirlitsins, Neytendastofu og Fjármálaeftirlits í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar.

Fjármögnun

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins í heild hækki um 612 m.kr. frá fjárlögum 2023 til ársins 2028. Hækkun um 658,3 m.kr. skýrist af áætluðum breytingum á rekstrargjöldum Fjármálaeftirlitsins en þau eru fjármögnuð með eftirlitsgjaldi sem Seðlabankinn innheimtir af eftirlitsskyldum aðilum og rennur í ríkissjóð. Hækkunin tekur mið af rekstraráætlun Seðlabanka Íslands fyrir Fjármálaeftirlitið fyrir árið 2024 og langtímaáætlun til ársins 2028. Byggir niðurstaðan m.a. á fyrirliggjandi spá Seðlabanka Íslands fyrir vísitölu neysluverðs og áætlunum um launaþróun. Til lækkunar í útgjaldaramma er almenn aðhaldskrafa að fjárhæð 46,3 m.kr.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

BÆTT SAMKEPPNIS-HÆFNI  -  Aukið gagnsæi og skilvirkni með virkri samkeppni og heilbrigðum viðskiptaháttum.	Aukið traust með góðri upplýsingagjöf og rafrænni stjórnsýslu.	Aukin samkeppnishæfni með því að draga úr hindrunum í gildandi regluverki.

16.1 Markaðseftirlit og neytendamál

Verkefni

Undir málaflokk 16.1 fellur eftirlit Samkeppniseftirlitsins með ákvæðum samkeppnislaga, nr. 44/2005, og samkeppnisreglna EES-samningsins, og almennt fyrirsvar fyrir bættum samkeppnis­skilyrðum íslensks atvinnulífs. Undir málaflokkinn fellur einnig eftirlit Seðlabanka Íslands með fjármálastarfsemi (Fjármálaeftirlitið). Neytendastofa fer með eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og sérlögum á sviði neytendaverndar. Þá fer Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með markaðseftirlit með öryggi vöru en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heyrir undir málefnasvið 11.

Helstu áskoranir

Helstu áskoranir á sviði samkeppnismála eru eftirfarandi:

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er brýnt að vinna markvisst að því að draga úr hindrunum í regluverki og gera það skilvirkt þannig að það stuðli að aukinni samkeppnishæfni landsins. Tryggja þarf að ný löggjöf sé skýr og skilvirk og hindri ekki frjálsa samkeppni, m.a. með samkeppnismati á frumvörpum til laga.

Í stjórnarsáttmála er einnig lögð áhersla á að samkeppniseftirlit verði styrkt. Í því skyni þarf að tryggja fjárhagslegt svigrúm Samkeppniseftirlitsins til þess að það geti uppfyllt lögbundið hlutverk sitt þrátt fyrir óhjákvæmilegar sveiflur í verkefnaálagi, s.s. vegna breytilegs álags við rannsóknir á samrunamálum sem háðar eru lögbundnum tímafrestum. Tryggja þarf að umgjörð samkeppnislöggjafar hér standist samanburð við önnur lönd, svo sem að því er varðar sjálfstæði eftirlits, eftirlitsheimildir og rétt málsaðila í samkeppnismálum.

Í mars 2023 mun starfshópur, sem menningar- og viðskiptaráðherra skipaði á síðasta ári, skila tillögum að leiðum til að skapa eftirliti samkeppnis- og neytendamála nýja stjórnsýslulega stöðu innan stofnanakerfis ríkisins. Er það verkefni í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að stefnt verði að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu. Starfshópurinn hefur einnig til skoðunar að kanna eftir atvikum kosti og galla á sameiningu við aðrar stofnanir, þar með talið fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og hlutafélagaskrá sem aukið geti samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. Meginmarkmiðið með þessari vinnu er að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi viðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Falla þessar áskoranir og verkefni vel að velsældarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar um aukinn hagvöxt, kaupmátt, samkeppni, neytendavernd og aukna skilvirkni í opinberum rekstri.

Helstu áskoranir á sviði fjármálaeftirlits eru eftirfarandi:

Við sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins árið 2020 voru gerðar breytingar á lögum um Seðlabankann þar sem m.a. var kveðið á um að á fimm ára fresti skyldi fela óháðum sérfræðingum að gera úttekt á því hvernig Seðlabankanum hefði tekist að ná markmiðum sínum. Þá var einnig kveðið á um, í ákvæði til bráðabirgða, að fyrir lok árs 2021 skyldi ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga um reynsluna af starfi nefnda Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laganna. Nú er báðum þessum úttektum lokið og er það niðurstaðan að heilt yfir hafi sameiningin verið til góða fyrir yfirsýn og eftirlit en að úrbóta sé þörf til að styrkja umgjörðina og stjórnarhætti enn frekar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun leggja fram skýrslu sumarið 2023 sem byggist á úttekt sjóðsins á fjármálakerfinu hér á landi árin 2022 og 2023. Þar verður að finna tillögur að frekari úrbótum í fjármálaeftirliti hér á landi. Því liggur fyrir að frá 2024 til 2028 munu stjórnvöld hafa ýmsar umbótatillögur til að vinna úr vegna fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands.

Á næstu árum verður unnið að upptöku og innleiðingu á nýjum Evrópureglum sem tengjast stafrænum málum með ýmsu móti. Töluverðar breytingar verða gerðar á umgjörð netöryggismála með tilkomu reglugerðar um viðnámsþrótt net- og upplýsingakerfa á sviði fjármálamarkaðar (e. Digital Operational Resilience Act, DORA). Þá er að vænta lagasetningar um stafrænar eignir með innleiðingu reglugerðar um markaði með sýndareignir (e. Markets in Crypto-Assets, MICA). Þá gætu fylgt því ýmsar áskoranir fyrir fjármálakerfið og eftirlit með því þegar ný lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar taka gildi á árinu 2023.

Helstu áskoranir á sviði neytendamála eru eftirfarandi:

Á sviði neytendamála er unnið að heildarstefnumótun sem áætlað er að ljúki fyrir árslok 2024. Felst hún í nokkrum þáttum.

Í fyrsta lagi í því að bæta skilvirkni og málshraða hjá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og gera nefndinni þar með kleift að sinna með fullnægjandi hætti þeim lögbundnu verkefnum sem henni er falið.

Í öðru lagi felst í stefnumótuninni að á árunum 2023–2024 verður unnið að innleiðingu fjölda EES-gerða á sviði neytendaverndar sem krefjast umfangsmikilla lagabreytinga. Í því felast m.a. ný heildstæð markaðssetningarlög, löggjöf um rafrænar skulda­viðurkenningar, löggjöf um eflingu markaðseftirlits, bætt úrlausn ágreiningsmála, aukin fræðsla á sviði neytendamála, auk fleiri þátta sem fela í sér verulegar umbætur fyrir neytendarétt og neytendavitund í landinu til lengri tíma.

Í þriðja lagi felst í stefnumótuninni endurskoðun á stjórnsýslulegri stöðu neytenda- og samkeppnismála innan stofnanakerfis ríkisins. Vísast þar til framangreindrar umfjöllunar um starfshóp sem hefur það verkefni til skoðunar og mun skila skýrslu til ráðherra í mars 2023.

Falla þessar áskoranir og verkefni vel að velsældarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar um neytendavernd og aukna skilvirkni í opinberum rekstri.

Helstu tækifæri til umbóta

Helstu tækifæri til umbóta á sviði samkeppnismála eru að áfram verður unnið að endurskoðun á stofnanaumgjörð á sviði samkeppnismála með það að markmiði að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi viðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Í því samhengi verða m.a. kannaðir möguleikar á sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu, samanber framangreint.

Helstu tækifæri til umbóta á sviði fjármálaeftirlits liggja í þeim samlegðaráhrifum sem fylgja því að Fjármálaeftirlitið var sameinað Seðlabanka Íslands. Ríflega þrjú ár eru liðin frá sameiningunni en stöðugt ætti að leita leiða til að ná fram umbótum á grunni þess hagræðis sem felst í því að þeim eftirlitsverkefnum sem áður var sinnt af tveimur stofnunum er nú sinnt af einni.

Helstu tækifæri til umbóta á sviði neytendaverndar eru að áfram verður unnið að heildarendurskoðun markaðssetningarlaganna sem er rammalöggjöf á sviði neytendaverndar. Endurskoðunin er til þess fallin að létta reglubyrði, auka skýrleika, tryggja bætt samræmi við EES-rétt og tryggja framúrskarandi neytendavernd.

Áfram verður einnig unnið að endurskoðun á stofnanaumgjörð á sviði neytendaverndar með það að markmiði að bæta skilvirkni og eftirlit í þágu heildarhagsmuna neytenda. Í því felst m.a. að kannaðir verða möguleikar á sameiningu Neytendastofu við Samkeppniseftirlitið, samanber framangreint.

Í íslensku atvinnulífi eru fjölmargar áskoranir þegar kemur að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Tryggja þarf að kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja verði jöfn og að fleiri konur veljist til æðstu stjórnenda. Hvað varðar markaðseftirlit sérstaklega má almennt segja að það taki með jöfnum hætti til kynjanna en gæta þarf þess við undirbúning lagasetningar og annarrar reglusetningar að horft verði til jafnréttissjónarmiða við útfærslu og að ekki halli á eitt kyn umfram önnur.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Aukið gagnsæi, virk samkeppni og heilbrigðir viðskiptahættir fjármála- og viðskiptalífs.

10.5, 8, 9

Meðaltal VLF og reiknaðs ábata vegna ákvarðana Samkeppniseftirlitsins sl. tíu ár[1].

0,5%

0,5%

0,5%

12

Aukning innkallaðrar ólöglegrar vöru á markaði.

16[2]/p>

18

20

10

Hlutfall atriða í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á opinberu eftirliti á fjármálamarkaði sem uppfylla lágmarksviðmið að verulegu leyti.

24%[3]

>50%

>75%

Unnið er að því að gera mælingar á reiknuðum ábata vegna samkeppniseftirlits nákvæmari og kann sú vinna að leiða til þess að gerðar verði á síðari stigum breytingar á mælikvarðanum og viðmiðum sem sett eru. Þá er verið að þróa mælikvarða sem mælir þekkingu almennings og fyrirtækja á samkeppnisreglum og samkeppniseftirliti en aukin þekking er til þess fallin að auka skilvirkni og efla traust.

[1] Gert er ráð fyrir því að reiknaður ábati vegna ákvarðana Samkeppniseftirlitsins verði reiknaður reglulega í samræmi við aðferðafræði OECD.

[2] Í eftirliti Neytendastofu með ólöglegri vöru á markaði hefur Neytendastofa heimild til að innkalla vöru sem er ólöglega sett á markað þar sem hún uppfyllir ekki ákveðin skilyrði fyrir að vera sett á markað. Viðmiðunartalan 16 fyrir árið 2022 vísar til þess að árið 2022 voru 16 innkallanir á ólöglegri vöru á markaði. Markmiðið til næstu ára er að hækka þetta hlutfall, í 18 innkallanir fyrir árið 2024 og í 20 innkallanir á árinu 2028. Mælikvarðinn snýr að betra og virkara eftirliti með ólöglegri vöru á markaði, þar sem brýnt er að innkalla eins mikið af þeirri vöru og hægt er.

[3] 2014, úttekt á fylgni við kjarnaviðmið Basel-nefndar um bankaeftirlit (BCP).

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta