19 Fjölmiðlun
Umfang
Stjórnarmálefni á þessu málefnasviði heyra undir menningar- og viðskiptaráðherra. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkur sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun á tímabilinu 2021–2023.
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn fyrir fjölmiðlun er að fólk hafi greiðan aðgang að fjölbreyttum, ábyrgum og sjálfstæðum fjölmiðlum sem miðla fréttum, samfélagsumræðu og menningu og til að efla lýðræðislega umræðu. Allir hafi jafna möguleika á þátttöku í lýðræðislegri umræðu þar sem tjáningarfrelsi er virt.
Meginmarkmið stjórnvalda á sviði fjölmiðlunar er að stuðla að lýðræðislegri umræðu og lýðræðisþátttöku fólks með því að efla miðlalæsi, auka fjölbreytni, gagnsæi og fjölræði í fjölmiðlum. Einnig að skapa starfsumhverfi sem stuðlar að öflugri fjölmiðlun í almannaþágu með virkri þátttöku ólíkra og fjölbreyttra fjölmiðla. Eftirlit með fjölmiðlum taki einkum mið af réttindum og skyldum þeirra, ekki síst þannig að virtar séu takmarkanir á birtingu efnis sem talið er skaðlegt fyrir börn og unglinga.
Fjármögnun
Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins hækki um 1.904 m.kr. frá fjárlögum 2023 til ársins 2028. Helstu breytingar til hækkunar á útgjöldum málefnasviðsins má rekja til breytinga á áætlun um tekjur af útvarpsgjaldi. Þá er gert ráð fyrir 400 m.kr. hækkun vegna aukins stuðnings við fjölmiðla til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Tímabundið 100 m.kr. framlag til eins árs til stuðnings við einkarekna fjölmiðla fellur niður. Að lokum má nefna að gert er ráð fyrir almennri aðhaldskröfu á sviðið að upphæð 31,2 m.kr. á tímabilinu.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
Helstu áherslur 2024–2028
19.1 Fjölmiðlun
Verkefni
Markmið laga um fjölmiðla eru að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun sem og að efla vernd neytenda á þeim vettvangi. Markmið laganna er jafnframt að koma á samræmdri löggjöf á vettvangi fjölmiðlunar óháð því miðlunarformi sem er notað.
Undir málaflokkinn heyrir starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Markmið þess, samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, eins og nánar er kveðið á um í samningi við ráðherra.
Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir undir ráðherra. Nefndin annast eftirlit samkvæmt fjölmiðlalögum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Ákvörðunum nefndarinnar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda. Hlutverk ráðuneytisins gagnvart fjölmiðlanefnd felst einkum í því að skapa umgjörð sem gerir henni mögulegt að sinna lögbundnum hlutverkum sínum, bæði hvað varðar stjórnsýslumál og önnur verkefni.
Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að frjálsir fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytni í flóru fjölmiðla með öflugu almannaútvarpi og einkareknum fjölmiðlum. Á sama tíma hefur umhverfi fjölmiðla tekið miklum breytingum undanfarin ár með tilkomu samfélagsmiðla og nýrra miðlunarleiða. Um er að ræða alþjóðlega þróun og hafa stjórnvöld víða um heim gripið til margvíslegra aðgerða til að styrkja fjölmiðlaumhverfið í ljósi breyttra aðstæðna. Áskorun stjórnvalda felst í því að stuðla að fjölræði og starfsumhverfi sem styður við fjölbreytileika í fjölmiðlun. Því er mikilvægt að aðgerðir taki mið af því að einkareknir fjölmiðlar og staðbundnir fjölmiðlar geti þrifist svo að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttu efni, fréttum, samfélagsumræðu og íslenskri menningu. Er það mikilvægur þáttur í að viðhalda og efla lýðræði og lýðræðisþátttöku í landinu. Fyrirhuguð er innleiðing á tilskipun 2018/1808/ESB en gert er ráð fyrir að efni tilskipunarinnar verði innleitt með breytingum á lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla og mun menningar- og viðskiptaráðherra leggja fram frumvarp þar að lútandi á yfirstandandi löggjafarþingi. Fjölmiðlanefnd sinnir eftirliti með fjölmiðlum og fjölmiðlaveitum landsins. Verkefni fjölmiðlanefndar munu aukast með innleiðingu tilskipunarinnar, m.a. vegna aukinnar skýrslugjafar til Eftirlitsstofnunar EFTA, og því þarf að bæta við einu stöðugildi hjá fjölmiðlanefnd á tímabilinu til að tryggja að nefndin geti sinnt öllum þeim skyldum sem tilskipunin gerir kröfur um.
Stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla rann út í lok árs 2022 en frumvarp, sem lagði til framlengingu þess til eins árs, var lagt fyrir Alþingi haustið 2022. Árangur af núverandi styrkjakerfi var metinn 2022 með því að kanna hvort stuðningskerfið hafi náð þeim markmiðum sem að var stefnt, þ.e. að efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni, hvort starfsfólki á ritstjórnum fjölmiðla hafi fjölgað o.fl. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp á næsta löggjafarþingi sem festir styrkina í sessi til lengri tíma. Tengist það náið velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi, þ.e. að nægilegt framboð sé af góðum störfum. Fyrirhugaðar eru aðgerðir á tímabilinu á grundvelli fjölmiðlastefnu til að styrkja textun og talsetningu á myndefni sem sýnt er opinberlega til þess að renna frekari stoðum undir aðgerðir stjórnvalda til að vernda og efla íslenskt mál.
Unnið er að endurnýjun á samningi ráðherra við Ríkisútvarpið sem rennur út í lok árs 2023. Lögð verður áframhaldandi áhersla á að Ríkisútvarpið muni áfram sem hingað til leitast við að fylgja þróun fjölmiðlunar, m.a. með breyttum áherslum í dagskrá og fjölbreyttara efnisframboði á vef, auk þess að gera eldra efni aðgengilegra en áður. Unnið verði að því að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði. Helstu áskoranir næstu árin eru að viðhalda og efla það traust sem almenningur ber til Ríkisútvarpsins, sbr. árlegar mælingar þar að lútandi. Þá stendur Ríkisútvarpið enn frammi fyrir því að lækka skuldir og halda óbreyttum tekjum til að hægt verði að halda úti sambærilegri dagskrá og verið hefur.
Markvisst verður leitað leiða til að jafna aðstöðumun innlendra og erlendra streymisveitna hér á landi.
Á málefnasviði fjölmiðla og fjölmiðlunar eru ýmsar áskoranir og tækifæri þegar kemur að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Gæta þarf þess við undirbúning lagasetningar og annarrar reglusetningar að horft verði til kynja- og jafnréttissjónarmiða við útfærslu. Gæta þarf sömu sjónarmiða við úthlutun styrkja til einkarekinna fjölmiðla og að fjölmiðlar endurspegli mismunandi hópa samfélagsins og hafi kynja- og jafnréttissjónarmið að leiðarljósi. Með stofnun sérstaks tal- og textasjóðs er einnig stuðlað að auknu jafnrétti í aðgangi að efni fjölmiðlaveitna þar sem sjóðurinn gerir fjölmiðlum kleift að fá styrk fyrir t.a.m. því að texta efni sem er þegar með íslensku tali en með því er efnið gert aðgengilegt heyrnarskertum eða öðrum sem er bót í að fá texta meðfylgjandi tali.
Fjölmiðlastefna til 2030 verður kynnt á árinu 2023 að loknu samráði við helstu hagaðila og tekur til einkarekinna fjölmiðla og fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu en þar eru auk þess boðaðar aðgerðir á tímabilinu til að efla miðla- og upplýsingalæsi almennings. Þá er sömuleiðis kveðið á um stofnun nýs talsetningar- og textasjóðs á tímabilinu til að koma til móts við kostnað fjölmiðla sem texta og talsetja efni yfir á íslensku. Stofnun sjóðsins hefur nána tengingu í velsældarmarkmið um grósku í nýsköpun en sjóðurinn er hvati fyrir fjölmiðlaveitur að talsetja og/eða texta efni sem annars hefði e.t.v. ekki hægt verið að talsetja/texta vegna kostnaðar. Loks er mikilvægi blaða- og fréttamanna í lýðræðislegri umræðu sem og heimildarmanna áréttað, sem og áform íslenskra stjórnvalda um aukið frelsi fjölmiðla á Íslandi.
Áhættuþættir
Ljóst er að stuðningur til frjálsra fjölmiðla hefur haft mikla þýðingu fyrir rekstur einstakra fjölmiðla og í sumum tilfellum gert þeim kleift að starfa áfram í óbreyttri mynd og sækja fram. Verði ekki framhald á stuðningnum er hætta á frekari gjaldþrotum og samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði. Annar áhættuþáttur felst í því að komist fjölmiðlastefna og aðgerðaráætlun á grundvelli hennar ekki til framkvæmda á tímabilinu þá hefur það í för með sér að frjálsir fjölmiðlar standa hallari fæti og að það hafi ekki verið mörkuð almenn stefna fyrir málefnasviðið.
Markmið og mælikvarðar
Markmið |
HM |
Mælikvarðar |
Staða 2022 |
Viðmið 2024 |
Viðmið 2028 |
Auka sjálfstætt unnið efni í fjölmiðlum. |
16.6, 16.10 |
Hlutfall íslensks efnis í línulegri dagskrá sjónvarps. |
60,7% hjá RÚV og RÚV2 árið 2021 (55,8% 2020). |
61% |
62% |
Fjölgun blaðamanna á ritstjórnum einkarekinna fjölmiðla. |
Ekki til |
Fer eftir stöðu 2023 |
Fer eftir stöðu 2024 |
||
Greiður aðgangur almennings að fjölbreyttum, ábyrgum og sjálfstæðum fjölmiðlum.
|
|
Aukið hlutfall fjölmiðla sem hljóta styrk. |
28 sóttu um styrk, þar af hlutu 25 styrk eða 89%. |
Fer eftir stöðu 2023 |
Fer eftir stöðu 2024 |
Efla miðlalæsi fyrir lýðræðislega umræðu og þátttöku.
|
|
Rannsóknir fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. |
23,8%* |
21%* |
18%*
|
*Hlutfall þeirra sem kanna ekki sannleiksgildi
Í ljósi vinnu við fjölmiðlastefnu til 2030 og innleiðingu á tilskipun 2018/1808/ESB sem breytir hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni frá 2010 með breytingu á fjölmiðlalögum er nauðsynlegt að uppfæra markmið málefnasviðs 19 í takt við þær áherslur sem þar koma fram. Markmið eflingu miðlalæsis sækir stoð sitt bæði í fjölmiðlastefnu sem og innleiðingu tilskipunarinnar en hlutverk fjölmiðlanefndar um að efla miðlalæsi er áréttað í tilskipun 2018/1808. Þá verður í fjölmiðlastefnu mælt fyrir um að festa í sessi styrki til einkarekinna fjölmiðla og sækir markmið þrjú og seinni mælikvarði í markmiði eitt stoð sína til þess.
Efla miðlalæsi fyrir lýðræðislega umræðu og þátttöku. Fjölmiðlanefnd hefur það hlutverk að efla miðlalæsi meðal almennings. Markmiðinu verður náð með því að halda áfram með samanburðarrannsóknir á miðlalæsiskönnunum þannig að mælanlegur árangur sjáist og hægt sé að bregðast við. Markmið fjölmiðlanefndar er að „kanna færni og þekkingu almennings með reglubundnum hætti þannig að hægt verði að greina hvernig hún breytist með tímanum“.
Greiður aðgangur almennings að fjölbreyttum, ábyrgum og sjálfstæðum fjölmiðlum. Markmið með að styrkja einkarekna fjölmiðla er að styðja og efla ritstjórnir þeirra og með því styrkja lýðræðishlutverk fjölmiðla. Það er einnig nátengt mælikvarðanum um fjölgun blaðamanna á ritstjórnum einkarekinna fjölmiðla.
Stefnumótun málefnasviða
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.