Hoppa yfir valmynd

23 Sjúkrahúsþjónusta

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í þrjá mála­flokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er hin sama og á öðrum málefnasviðum heilbrigðisráðu­neytisins, að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða og að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé hluti af allri þjónustu. Árangur heilbrigðisþjónustunnar er metinn með því að mæla gæði þjónustunnar, öryggi hennar, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar. Framtíðarsýn um stafræna framþróun í heilbrigðisþjónustu lýsir því að íslenskur almenningur hafi tækifæri til að styrkja og viðhalda eigin heilbrigði með stafrænum lausnum í öruggu og samtengdu upplýsingaumhverfi. Staða Landspítalans sem stærstu heil­brigðisstofnunar landsins verður styrkt og sérstök áhersla er á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar.

Meginmarkmiðið er að veitt sé örugg, aðgengileg og hagkvæm heilbrigðisþjónusta þar sem sjúklingum er tryggð greið leið að réttri þjónustu á réttum stað. Markmiðið er að setja þarfir einstaklingsins í forgrunn og einfalda dagleg störf heilbrigðisstarfsfólks með því að styrkja stafræna upplýsingagrunna sem ganga þvert á heilbrigðiskerfið ásamt því að tryggja öryggi og gæði. Þjónustutengd fjármögnun verður innleidd í auknum mæli, settir upp miðlægir biðlistar og tryggt að þjónusta sé veitt innan tiltekins ásættanlegs biðtíma. Aðgengi allra landsmanna að sérfræðiþjónustu verður bætt.

Fjármögnun

Helsta útgjaldabreyting málefnasviðsins snýr að framkvæmdum við nýjan Landspítala. Áætlað er að framkvæmdir við nýbyggingarnar standi yfir til 2028. Einnig verður haldið áfram vinnu við nýtt legudeildarhúsnæði við Sjúkrahúsið á Akureyri og viðbyggingu við endur­hæfingardeild Landspítalans á Grensási. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefna­sviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Helstu áherslur 2024–2028

AÐGENGI, GÆÐI, HAGKVÆMNI  -  Efla mönnun í heilbrigðis-þjónustu. Auka aðgengi að réttri þjónustu á réttum stað. Stytta biðtíma.

23.1 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta

Verkefni

Landspítalinn er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Sjúkrahúsið á Akureyri er kennslusjúkrahús og varasjúkrahús Landspítala. Hlutverk þeirra er að veita heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu slíks sjúkrahúss, m.a. sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum læknisfræði, hjúkrunarfræði og eftir atvikum öðrum greinum heil­brigðisvísinda sem stundaðar eru hér á landi, með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknar­deildum.

Helstu lög sem gilda um málaflokkinn eru lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Helstu áskoranir

Mikilvægt er að þjónusta sérhæfðra sjúkrahúsa á Íslandi standist samanburð við sambærileg sjúkrahús annars staðar á Norðurlöndum. Á Íslandi eru aðeins tvö sjúkrahús sem veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Annað þeirra, Landspítali, veitir margs konar þjónustu sem ekki er hægt að fá annars staðar á landinu. Mönnun í heilbrigðisþjónustunni er hér, sem annars staðar, ein af stærstu áskorununum á málefnasviðinu og ljóst er að leita þarf ýmissa leiða til að efla mönnunina. Sjá nánar í fjármálaáætlun 2023–2027 um helstu áskoranir vegna mönn­unar. Því þarf að fylgjast með mælikvörðum sem tengjast mönnun og álagi sem hefur áhrif á öryggi heilbrigðisþjónustu.

Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar á næstu árum er áskorun fyrir sjúkrahúsþjónustu og rétt að setja í samhengi við vinnu við greiningu á langtímahorfum í efnahagsmálum og opin­berum fjármálum, sbr. 9. og 33. gr. laga um opinber fjármál. Bregðast þarf við aukinni sjúk­dómabyrði vegna langvinnra sjúkdóma og áhættuþátta vegna lífsstílstengdra sjúkdóma sem og kröfu um öruggari og aðgengilegri heilbrigðisþjónustu. Sjá nánari umfjöllun um áskoranir í fjármálaáætlun 2023–2027. Vísbendingar eru um að heimsfaraldur kórónuveiru hafi lang­tímaafleiðingar á geðheilbrigði þjóðarinnar, þá sérstaklega hefur nýgengi kvíða, þunglyndis, átröskunar og áfallastreitu aukist. Innan geðþjónustu sem og barna- og unglingageðdeildar Landspítala eru starfrækt þverfagleg sérhæfð meðferðarteymi sem sinna notendum og aðstandendum þeirra sem glíma við þessar geðraskanir. Þá sinnir BUGL-teymi á Sjúkrahúsinu á Akureyri börnum og unglingum með geðrænar áskoranir. Biðtími eftir þjónustu allra teyma hefur verið töluverður en fjármögnuð átaksverkefni 2021–2022 styttu biðtíma eftir þeirri sérhæfðu þjónustu. Áfram verður unnið að styttingu biðtíma.

Ofbeldi gegn konum er útbreiddasta mannréttindabrot í heimi og heimilisofbeldi er ein stærsta ógn við lýðheilsu kvenna. Einnig nær heimilisofbeldi til margra viðkvæmra hópa sam­félagsins. Því er mikilvægt að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið að veita viðeigandi þjónustu þegar þolendur og gerendur leita þangað. Einnig er mikilvægt að börn sem búa á ofbeldis­heimilum og eru beinir og/eða óbeinir þolendur ofbeldisins fái þann stuðning sem þeim ber lögum samkvæmt, t.a.m. nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Önnur mikilvæg áskorun felst í skorti á viðeigandi þjónustuúrræðum til að mæta þörfum einstaklinga á ýmsum aldri svo þeir geti útskrifast af sjúkrahúsum og verið heima þrátt fyrir veikindi. Verulega hefur verið bætt í þá þjónustu, sjá nánari umfjöllun í köflum um málefnasvið 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa og 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.

Við jafnréttismat málaflokks 23.1 kemur í ljós að veikindahlutfall af greiddum stöðugildum er hærra hjá konum en körlum, hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu, en konur eru tæplega 80% starfsmanna spítalanna. Starfsmannavelta er svipuð á milli áranna 2021 og 2022 eða um 15,5%. Veikindahlutfall jókst hins vegar úr 7,5% í 8,9% milli ára sem gæti verið vísbending um mikið álag og að leggja þurfi áherslu á bættar starfsaðstæður þeirra sem starfa á sjúkrahúsum. Bætt mönnun kvennastétta eins og sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga ásamt umbótum í starfsumhverfi og vinnuskipulagi gæti stuðlað að minna álagi, aukið starfsánægju og fyrirbyggt veikindafjarveru eins og áður hefur verið bent á. Sjá nánar umfjöllun í stöðuskýrslu um kortlagningu kynjasjónarmiða fyrir 2022.[1]

Tækifæri til umbóta

Unnið er að ítarlegri greiningu á mönnun heilbrigðiskerfisins, m.a. með það að markmiði að styðja við tillögur að aðgerðum til að bæta mönnun og tryggja að ráðuneytið hafi heildstæða sýn á mönnun til framtíðar. Stefnt er að því að mönnunarþörf verði metin út frá þjónustuþörf, árangri, afköstum og öryggi. Einnig er unnið að kortlagningu vinnufyrirkomulags innan Land­spítala með það að markmiði að hver heilbrigðisstarfsmaður vinni sem mest störf þar sem hæfni, menntun og reynsla viðkomandi nýtist sem best.

Samhliða hefur verið hafið samstarf við MMR og HVIN um eflingu menntunar heil­brigðisstétta, m.a. með uppbyggingu á færni- og hermisetrum. Jafnframt vinna þessi ráðuneyti að því að fjölga í námi í ákveðum heilbrigðisgreinum samkvæmt skilgreindri forgangsröðun sem er í takt við tillögur landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu.

Til að tryggja sem best aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni þjónustunnar þarf að skoða hvernig auka megi samvinnu milli sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, heilsugæslu og annarra þjónustuveitenda enn frekar og samnýta þekkingu og hæfni heilbrigðisstarfsmanna.

Innan heilbrigðisráðuneytisins er nú unnið að aðgerðaáætlun byggðri á skýrslu verkefna­stjórnar um bráðaþjónustu. Þar er fjöldi tillagna sem miða að samræmingu og styrkingu bráða­þjónustu á landsvísu.

Hjá ráðuneytinu og embætti landlæknis er verklag um utanumhald og birtingu biðlista til heildarendurskoðunar. Fyrsta skrefið er birting yfirlits um liðskiptaaðgerðir. Tilgangur þessarar heildarendurskoðunar er að auka gagnsæi og yfirsýn. Einnig styður skilvirk rauntíma­gagnaöflun við ákvarðanatöku. Til framtíðar er svo stefnt að því að innleiða sambærilegt verklag fyrir fleiri þjónustuflokka, s.s. geðheilbrigðisþjónustu og ýmsa endurhæfingarþjón­ustu.

Í fjárlögum ársins 2023 er gert ráð fyrir tímabundnu fjárframlagi til þriggja ára til heilsu­farslegra aðgerða til að vinna gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs og verður fjárframlagið nýtt til að efla þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu, óháð aldri, með það markmið að biðtími eftir þjónustunni haldist innan viðmiðunarmarka.

Undanfarið hefur verið í gangi vinna milli ráðuneytisins, embættis landlæknis og heil­brigðisstofnana landsins sem miðar að því að innleiða verklag við móttöku og þjónustu við þolendur heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis. Áhersla er á að verklag sé samræmt og að þolendur og gerendur fái viðeigandi þjónustu óháð búsetu og efnahag. Stefnt er að því að innleiða verklagið á landsvísu haustið 2023. Í kjölfar lagasetningar um farsæld barna frá árinu 2021 er nú unnið að því á Landspítala að hanna ferla til að leitast við að tryggja börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögunum. Meðal annars þarf að tryggja börnum sem eru beinir og óbeinir þolendur ofbeldis rétta þjónustu. Mörg verkefni eru fram undan varðandi innleiðingu og eftirfylgd verklags við móttöku þolenda, gerenda og aðstandenda heimilis- og kynferðisofbeldis. Einnig er mikilvægt að tryggja viðkvæmum hópum sem búa við slíkt ofbeldi viðeigandi heilbrigðisþjónustu á réttum stað en það þarf að kortleggja nánar. Tilraunaverkefni eru í gangi varðandi sálfræðiþjónustu við sakborninga í kynferðisbrotamálum sem og við þolendur ofbeldisins en finna þarf þjónustu til handa þeim hópum og framtíðarlausn. Verkefnin eru m.a. í samræmi við markmið ríkisstjórnarsáttmálans um markvissar aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi, við sjónarmið sem sett eru fram í Istanbúlsamningnum, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna, þingsályktun um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og í samræmi við skuldbindingar stjórnvalda í átaksverkefninu Kynslóð jafnréttis.

Uppbygging húsnæðis Landspítala við Hringbraut er stærsta beina fjárfestingarverkefni ríkisins frá upphafi. Í fjármálaáætluninni er líkt og í fjármálaáætlun 2023–2027 gert ráð fyrir nauðsynlegum fjárveitingum til uppbyggingar meðferðarkjarna. Nú er unnið að áætlun fyrir annan áfanga í uppbyggingunni. Þar verður einnig tekin inn áætlun um upplýsingatækni, tæki og aðra innviði. Í uppbyggingu Landspítala og tengdri þjónustu felast tækifæri í aukinni notkun heilbrigðistækni og aukinni stafrænni þróun. Stefna um stafræna heilbrigðisþjónustu og heilbrigðistækni er nú til meðferðar hjá stýrihópi á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Mikil þörf er á að efla alla umgjörð varðandi tækni, nýsköpun, gagnasöfn og öryggi innan málaflokksins. Samþætt og öflug rafræn kerfi og gagnagrunnar eru forsenda þess að tæknin nýtist við úrlausn framtíðaráskorana tengdum mönnun, notendamiðaðri þjónustu, upplýsingagjöf, samvinnu, öruggum samskiptum o.fl. Einnig er öflug stafræn heilbrigðisþjónusta ein forsenda þess að hægt sé að efla umbótavinnu, vísindastarf og rannsóknir.

Haldið verður áfram undirbúningi að framkvæmdum við nýtt legudeildarhúsnæði við Sjúkrahúsið á Akureyri og viðbyggingu við endurhæfingardeild Grensáss. Þessar fram­kvæmdir skipta máli svo hægt sé að veita betri og öruggari þjónustu í takt við nýja tækni og þekkingu, auk þess sem aðbúnaður starfsfólks og sjúklinga verður betri.

Áhættuþættir

Helstu innri áhættuþættir málaflokksins eru taldir tengjast getunni til að ráða viðeigandi starfsfólk til starfa og halda því í starfi.

Ytri áhættuþættir tengjast þróun kjarasamninga, bæði á opinberum og almennum markaði, og almennt framboð atvinnu. Það er vel þekkt að þegar uppgangur er í sérhæfðri heilbrigðis­þjónustu á einkamarkaði, eins og nú er, er erfitt fyrir opinberar heilbrigðisstofnanir að manna lausar stöður sem kalla oftar en ekki á þunga vaktabyrði. Vísbendingar eru um að efling geð­heilbrigðisþjónustu í heilsugæslu og annars stigs þjónustu undanfarin ár hafi leitt til brotthvarfs fagfólks úr þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Afleiðingarnar eru að mönnunaráskorun hefur aukist á þessu stigi geðheilbrigðisþjónustu og aðlögun sérhæfðs fagfólks í tiltekin sérhæfð teymi er áskorun.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Efla mönnun.

3.d

Starfsmannavelta:

a) LSH b) SAk.

a) 15,5%

b) 8,3%

a) 13%

b) <7%

a) 12%

b) <7%

3.d

Veikindafjarvistir – allir starfsmenn:

a) LSH b) SAk.

a) 8,9%

b) 7,4%

a) 6%

b) <6%

a) 6%

b) <5%

3

Hlutfall hjúkrunarfræðinga á

bráðalegudeildum LSH.

48,4%

60%

70%

Sjúklingar fái heilbrigðisþjónustu

á réttu þjónustustigi.

3

Hlutfall rúma á bráðalegu-deildum fullorðinna (ásamt Landakoti) á LSH sem eru upptekin vegna sjúklinga sem bíða úrræða utan spítala (staða í lok árs).

12%

5%

2%

3

Bið á bráðamóttöku LSH. Hlutfall innlagna < 6 klst. frá því að innlögn var ákveðin.

29%

70%

80%

3

Heildarreynsla sjúklinga LSH af síðustu innlögn (0–10).

8,3

8,5

9,0

Að sjúklingar í brýnni þörf fái heilbrigðisþjónustu innan ásættanlegs biðtíma.

3.8

Hlutfall þeirra sem beðið hafa

eftir liðskiptum skemur en 90 daga: a) LSH b) SAk.

a) 10%

b) 17%

a) 50%

b) 50%

a) 80%

b) 80%

3.8

Heildarfjöldi liðskiptaaðgerða á hné og mjöðm á sérgreina­sjúkrahúsum:

a) LSH b) SAk.

a) 687

b) 329

a) 800

b) 550

a) 1000

b) 600

3.4

Fjöldi barna sem hafa beðið lengur en þrjá mánuði

eftir þjónustu á BUGL.

39

0

0

Mælikvarði 3 við markmið 3 samræmdur við upplýsingar frá umboðsmanni barna til að gæta samræmis í framsetningu mælinga.

23.2 Almenn sjúkrahúsþjónusta

Verkefni

Með almennri sjúkrahúsþjónustu er átt við almennar lyflækningar, göngudeildarþjónustu, sérgreinalækningar, eftir atvikum skurðlæknisþjónustu ef um skilgreindan A-, B- og C-fæð­ingarstað[2] er að ræða, hjúkrun, slysamóttöku, endurhæfingu og nauðsynlega stoðdeildaþjón­ustu. Almenn sjúkrahúsþjónusta er veitt á heilbrigðisstofnunum í heilbrigðisumdæmum. Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri veita almenna sjúkrahúsþjónustu fyrir íbúa sem búa í viðkomandi heilbrigðisumdæmi en allar fjárveitingar til þessara tveggja stofnana eru undir málaflokki 23.1. Helstu lög sem gilda um málefnasviðið eru lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Helstu áskoranir

Samkeppni er um vel menntað heilbrigðisstarfsfólk. Mikilvægt er að vinna áfram að því að gera nám heilbrigðisstétta aðgengilegt óháð búsetu og aðstæðum eins og fram kemur í áherslum stjórnarsáttmála því að slíkt eykur líkur á því að sérhæft starfsfólk nýti sína sér­þekkingu í heimabyggð. Á landsbyggðinni er mönnun sérstök áskorun og snýr hún helst að því að tryggja viðeigandi læknisþjónustu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Sjá einnig nánari umfjöllun í málaflokki 23.1.

Önnur mikilvæg áskorun felst í skorti á viðeigandi þjónustuúrræðum utan sjúkrahúsa til að mæta þörfum einstaklinga sem lokið hafa meðferð á sjúkrahúsi eða þurfa á annarri meðferð eða umönnun að halda en boðið er upp á innan sjúkrahúsa. Þessum þætti eru gerð nánari skil á málefnasviðum 24 og 25.

Helsta áskorun í geðheilbrigðismálum er samþætting og samvinna milli þjónustustiga geð­heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum notenda um allt land með árangursríkum lausnum á réttu þjónustustigi sem veittar eru tímanlega. Að auki skortir upp á samvinnu þjónustustiga heilbrigðisþjónustu við aðra velferðarþjónustu. Setja þarf í forgang að þróa og samþætta þjónustuferla í geðheilbrigðisþjónustu og er geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni þar í forgangi.

Slys og veikindi erlendra ferðamanna auka álag á heilbrigðisþjónustuna, s.s. heilsugæslu­þjónustu, bráðaþjónustu sjúkrahúsa og sjúkraflutninga. Þá þurfa erlendir ferðamenn á rýmum á gjörgæsludeildum sjúkrahúsanna að halda. Það getur haft áhrif á skurðaðgerðir og þar með flæði á sjúkrahúsunum og gæði þjónustunnar. Nauðsynlegt er að styrkja innviði heilbrigðis­kerfisins til að það sé í samræmi við umfang þjónustunnar og er það í takti við áherslur í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Eins og fyrr segir er unnið að gerð aðgerðaáætlunar í samræmingu og styrkingu bráðaþjónustu á landsvísu.

Töluvert mikið vantar upp á að kyngreind tölfræðigögn heilbrigðisstofnana séu aðgengileg og vel uppfærð þar sem heilbrigðisstofnanir leggja mismikla áherslu á aðgengilegar upplýs­ingum á vefsíðum sínum. Mælaborð embættis landlæknis er í þróun en vonir standa til að þar verði að finna aðgengilegar upplýsingar um veitta þjónustu stofnana. Komur karla á dagdeildir heilbrigðisstofnana voru hlutfallslega fleiri en kvenna í aldurshópnum 60 ára og eldri en komur kvenna á göngudeildir heilbrigðisstofnana í sama aldursflokki voru hlutfallslega fleiri. Munurinn er ekki mikill og gæti verið innan skekkjumarka. Að öðru leyti er vísað í nýjustu stöðuskýrslu um kortlagningu kynjasjónarmiða.[3]

Tækifæri til umbóta

Til að jafna aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu þarf m.a. að nýta fjarheilbrigðistækni til að færa þjónustuna nær íbúum svæðisins í samræmi við tillögur starfshóps heilbrigðisráðu­neytisins um fjarheilbrigðisþjónustu, sbr. velsældaráherslur og stefnuáherslur ríkisstjórnar. Þá er stefnt að því að sérhæfðu sjúkrahúsin færi, í samvinnu við heilbrigðisstofnanir, tiltekna þjónustu í auknum mæli nær íbúum í dreifðari byggðum. Til að jafna aðgang að sérfræði­þjónustu á heilbrigðissviði óháð búsetu hefur starfshópi verið falið að skila tillögum um að nýta ákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna sem kveður á um sértækar aðgerðir um ívilnun á sérstökum svæðum.

Til að auka samfellu í þjónustu og til að aðgengi að sérhæfingu og sérþekkingu fagfólks á geðrænum áskorunum barna og ungmenna nýtist til forvarna, eflingar geðheilbrigðis og snemmtækrar meðferðar barna í heimabyggð er nauðsynlegt að barna- og unglingageðeild Landspítala starfræki sérhæfða ráðgjafaþjónustu og stuðning við annars og fyrsta stigs þjónustu fyrir börn og ungmenni. Ákjósanlegt er að gera það í gegnum 24 starfandi fjölskyldu­teymi/samráðsvettvang skólaþjónustu, félagsþjónustu sveitarfélaga, barnavernd og heilsu­gæslu á landsvísu. Þá er nauðsynlegt að auka aðgengi allra landsmanna að sérhæfðri geð­heilbrigðisþjónustu með því að nýta nýsköpun, fjarheilbrigðisþjónustu og aðrar tækniframfarir eins og fram kemur í stjórnarsáttmála. Æskilegt er að fjarheilbrigðisgeðþjónusta jafnt sem önnur þjónusta er nýtir tækniframfarir byggi á gagnreyndri þekkingu, öryggi og gæðum. Þessi tækifæri tengjast velsældaráherslum ríkisstjórnar um geðheilbrigði, grósku í nýsköpun og jöfnu aðgengi.

Til að efla stafræna heilbrigðisþjónustu er unnið að þróun og stefnumótun um stafrænar lausnir við veitingu heilbrigðisþjónustu. Hefur stýrihópur um þá vinnu verið skipaður en honum er ætlað að vera samráðsvettvangur og ráðuneytinu til ráðgjafar við mótun stefnu og framtíðarsýnar í málaflokknum.

Vegna ýmissa áskorana tengt bráðaþjónustu var sett á fót viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á Íslandi. Teymið skilaði ráðherra skýrslu í lok árs 2022 með 39 tillögum um aðgerðir til að efla og bæta bráðaþjónustu um allt land. Tillögurnar miða m.a. að því að efla og samræma bráðaþjónustu um allt land, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið um gæði þjónustunnar, styðja við menntun og þjálfun viðbragðsaðila og innleiða skilgreiningar á við­bragðstíma sjúkraflutninga. Rík áhersla er lögð á að stórefla faglegan stuðning við viðbragðs­aðila á vettvangi með bráðafjarheilbrigðismiðstöð.

Ýmsar byggingar sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana þarfnast endurbóta en með samningum við FSRE (Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir) hefur viðhald bygginga batnað miðað við það sem áður var. Töluverðar umbætur hafa t.d. verið gerðar á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vegna vaxandi umfangs starfsemi samhliða brýnum viðhaldsverkefnum. Þá er endurnýjun tækjakosts sjúkrahúsa viðvarandi verkefni sam­kvæmt skilgreindri þörf en endurnýjun á stærri tækjum, t.d. myndgreiningatækjum á heil­brigðisstofnunum, hefur gengið vel undanfarin ár. Unnið er að yfirferð á íbúðarhúsnæði heil­brigðisstofnana þar sem markmiðið er að tryggja húsnæðiskost og hámarka hagkvæmni þess íbúðarhúsnæðis sem heilbrigðisstofnanir eiga eða leigja fyrir starfsfólk stofnananna til dvalar í lengri eða skemmri tíma.

Áhættuþættir

Helstu innri áhættuþættir málaflokksins eru taldir tengjast getunni til að ráða viðeigandi starfsfólk til starfa og halda því í starfi. Hnökrar í samvinnu, bæði innan stofnana (flæði starfs­fólks milli eininga) og utan, eru einnig þættir sem gætu hindrað árangur sem og forgangsröðun stjórnenda, bæði hvað varðar fjármagn og hvaða málefni hljóta brautargengi. Ytri áhættuþættir tengjast helst samningsleysi sérgreinalækna við Sjúkratryggingar Íslands sem hefur í för með sér að erfitt er að skipuleggja þjónustuna. Staðan veldur því að nærri ómögulegt er að stilla upp jafnara þjónustuframboði á einkarekinni sérgreinalæknaþjónustu um landið. Vaxandi þrengingar á fasteignamarkaði á landsbyggðinni gera heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni einnig erfitt fyrir að tryggja starfsfólki sem kemur til starfa um skemmri tíma húsnæði.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Efla aðgang sjúklinga að skilgreindri sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum.

3.8

Hlutfall framboðs á almennri sérfræðiþjónustu til einstaklinga á heilbrigðis­stofnunum utan höfuð­borgarsvæðis.

73%

80%

90%

Efla sérhæfða ráðgjafa­þjónustu til stuðnings við fagaðila sem sinna börnum og unglingum í heimabyggð.

3.4

Heildarfjöldi mála í fyrsta eða annars stigs þjónustu sem fær sérhæfða ráðgjöf BUGL á samráðsvettvang.

1464

1600

1600

Sjúklingar komist í lið­skiptaaðgerðir innan ásættanlegs biðtíma miðað við viðmið embættis landlæknis.

3.8

Hlutfall þeirra sem beðið hafa eftir liðskiptum skemur en 90 daga á HVE.

24%

35%

80%

3.8

Heildarfjöldi liðskiptaaðgerða á hné og mjöðm á HVE.

235

430

430

Mælikvarði 2 er þróaður og byggt á verklagi og framlagi fagaðila BUGL á teymisfundum 24 starfandi fjölskylduteyma á landsvísu. Á teymisfundina mæta tveir fagaðilar frá BUGL og veita sérhæfða ráðgjöf tengda heildrænni velferðarþjónustu að beiðni fagaðila í fyrsta eða annars stigs þjónustu í heimabyggð.

23.3 Erlend sjúkrahúsþjónusta

Verkefni

Til erlendrar sjúkrahúsþjónustu telst sú heilbrigðisþjónusta sem veitt er erlendis og greitt er fyrir af Sjúkratryggingum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. reglugerðir 712/2010, 442/2012 og 484/2016. Um er að ræða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem ekki er í boði á Íslandi, nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem er ekki veitt á Íslandi innan tímamarka og heil­brigðisþjónustu yfir landamæri innan EES-lands (landamæratilskipun). Að auki heyrir sjúkra­kostnaður vegna veikinda og slysa erlendis undir málefnasviðið.

Helstu lög sem gilda um málefnasviðið eru lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Helstu áskoranir

Löggjöf hér á landi og Evrópulöggjöf gera einstaklingum kleift að sækja þjónustu til annarra Evrópulanda ef bið hér á landi fer yfir tilgreind mörk. Slík tilfærsla á heilbrigðis­þjónustu milli landa getur haft umtalsverð áhrif á skipulag þjónustunnar hér á landi. Í ákveðnum aðgerðaflokkum, eins og t.d. efnaskiptaaðgerðum og liðskiptaaðgerðum, hefur verið töluverð aukning á því að sjúklingar fari erlendis til aðgerða og fái til þess greiðsluþátttöku frá Sjúkratryggingum Íslands. Greiðsluheimild vegna biðtímareglugerðar heimilar greiðslu kostnaðar vegna aðgerðanna og ferðakostnað. Í ákveðnum tilfellum er einnig heimilað að greitt sé fyrir fylgdarmann. Áskorunin felst í umsýslu og þeim óþægindum fyrir sjúklinginn að þurfa að leita sér þjónustu erlendis og fyrir ríkið sem í flestum tilfellum greiðir meira fyrir þjónustu sem veitt er erlendis heldur en ef hún væri veitt innan lands.

Umfang þjónustunnar getur verið mjög breytilegt milli tímabila og byggist á sértækum þörfum. Tilgreint er í lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, að þeir sem þurfa á heilbrigðis­þjónustu að halda fái hana innan lands svo fremi sem gæði þjónustunnar og öryggi sjúklings sé sambærilegt því sem gerist erlendis. Ef þekking eða þjónusta er ekki fyrir hendi hérlendis þarf aðgangur sjúklinga að slíkri þjónustu erlendis að vera tryggður.

Konur eru í meiri hluta þeirra sem sækja um læknismeðferð erlendis á grundvelli biðtíma­reglugerðar og 74% þeirra sem fá samþykkta umsókn eru konur. Munar þar mestu að fleiri konur sækja um efnaskiptaaðgerð erlendis en karlar. Þó virðist offita ekki vera algengari meðal kvenna en karla og ástæða er til að skoða orsök þessa munar á eftirspurn kynjanna eftir þjón­ustunni.

Tækifæri til umbóta

Til þess að bregðast við þeirri stöðu að einstaklingar þurfi að leita erlendis eftir heilbrigðis­þjónustu á grundvelli biðtímareglugerðar hefur heilbrigðisráðherra heimilað opinberum stofn­unum að útvista í auknum mæli aðgerðum til einkarekinna þjónustuveitenda innan lands og lagt áherslu á að samningar náist um sérgreinalæknaþjónustu og þær aðgerðir sem mikil bið er eftir. Er þá sérstaklega horft til aðgerða eins og liðskiptaaðgerða. Slík ráðstöfun er í takt við stefnuáherslur ríkisstjórnar í loftslagsmálum um minnkun kolefnisspors og er ætlað að auka hagkvæmni opinbers fjár.

Sjúkratryggingar Íslands hafa undanfarin ár í samstarfi við sérgreinasjúkrahúsin unnið að þróunarverkefnum með samningum sem miða að því að flytja heim meðferð sem hefur ein­ungis verið veitt erlendis. Verkefni þessi hafa verið afar mikilvæg fyrir fagfólk og hafa aukið þekkingu og bætt starfsþróun þeirra. Þau auka einnig nýsköpun í íslensku heilbrigðiskerfi. Í nokkrum tilfellum hafa svona samningar leitt til þess að sérfræðingar erlendis frá flytja til landsins. Mikilvægt er að styðja við nýsköpun sem þessa.

Í skýrslu McKinsey 2021 um framtíðarhlutverk Landspítala kemur fram að það skorti form­legt ferli við tilvísun sjúklinga erlendis, sérstaklega vegna biðtímamála. Tækifæri eru til umbóta með skipulagðri nálgun tilvísenda, greiðenda og innlendra þjónustuaðila þegar um er að ræða samþykki til meðferða erlendis.

Áhættuþættir

Áhættuþættir tengjast helst forgangsröðun þegar kemur að því að meta hversu brýn með­ferðin er og hvernig hún raðast inn í áætlanir stofnana. Reynslan hefur auk þess sýnt að opinber umræða eða þrýstingur á stjórnvöld og stofnanir getur haft áhrif varðandi forgang og ráðstöfun fjármagns fyrir einstaka meðferðir eða sjúklingahópa. Unnið er að því að ná samvinnu þjónustuveitenda um lausn sem tryggir ásættanlegan biðtíma eftir þjónustu; forgangsröðun sjúklinga sem eru í mestri þörf fyrir þjónustuna; og nauðsynlega mönnun í þjónustu sem veitt er af stofnunum sem jafnframt þurfa að manna bráðaþjónustu allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Aðgerðir sem áður voru gerðar erlendis á grundvelli biðtímareglugerðarinnar eru framkvæmdar hérlendis.

3.8

Fjöldi samþykktra umsókna um heilbrigðisþjónustu erlendis á grundvelli biðtímareglugerðar.

219

100

30

[1] https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/_Kortlagning_kynjasjonarmida_vefur.pdf

[2] Skilgreiningar á þjónustustigi fæðingarstaða er að finna á vefsíðu embættis landlæknis, www.landlaeknir.is.

[3] https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/_Kortlagning_kynjasjonarmida_vefur.pdf

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta