Hoppa yfir valmynd

28 Málefni aldraðra

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að eldra fólk njóti lífsgæða á efri árum og geti framfleytt sér með tekjum sínum, einkum úr lífeyrissjóðum, með vinnu og/eða séreignarlífeyrissparnaði. Þau sem geta það ekki fái lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og tengdar greiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð í samræmi við lögbundin réttindi og mat á þörf, auk annars stuðnings opinberra aðila. Með greiðslum, þjónustu og stuðningi opinberra aðila verði öldruðum gert kleift að framfleyta sér og lifa sjálfstæðu lífi.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að aldraðir einstaklingar sem þess þurfa fái lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og aðrar greiðslur sér til framfærslu. Með því móti verði stuðlað að því að aldraðir geti framfleytt sér og búið sem lengst á eigin heimili og lifað sjálfstæðu lífi.

Fjármögnun

Gert er ráð fyrir fjárheimild til málefnasviðsins hækki alls um 15,6 ma.kr. Breytingin er tvíþætt, annars vegar eru áhrif til hækkunar vegna áætlunar um fjölgun aldraðra á tímabili fjármálaáætlunar og hins vegar áhrif til lækkunar vegna hærri tekna ellilífeyrisþega á síðustu árum en gert hafði verið ráð fyrir.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

VIRKNI OG ÞÁTTTAKA  -  Afkomuöryggi aldraðra. Þátttaka á vinnumarkaði. Sveigjanleg starfslok.

28.1 Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lífeyrir

Verkefni

Undir málaflokkinn falla bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, bótaflokkarnir ellilífeyrir og ráðstöfunarfé. Tryggingastofnun ríkisins ber ábyrgð á framkvæmd greiðslna sem falla undir málefnaflokkinn. Meginreglan er sú að rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og verið búsettir hér á landi í a.m.k. þrjú almanaksár frá 16–67 ára aldurs. Sveigjanleiki við töku lífeyris hefur verið aukinn á undanförnum árum og geta einstaklingar hafið lífeyristöku frá 65 ára aldri ef þeir kjósa svo, auk þess sem þeir geta frestað töku lífeyris til 80 ára aldurs.

Helstu áskoranir

Helstu áskoranir á málefnasviðinu eru breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og fjölgun aldraðra. Áframhaldandi fjölgun eldra fólks er fyrirsjáanleg á næstu áratugum og aldurs­samsetning þjóðarinnar mun halda áfram að breytast. Þessa þróun má rekja til hærri lífaldurs og færri fæðinga hér á landi. Reiknað er með að hlutfall fólks 67 ára og eldra af mannfjölda verði orðið 19% árið 2040 og aldraðir þá um 76.000 talsins. Árið 2060 er gert ráð fyrir að þetta hlutfall verði orðið 22% eða um 97.000 manns. Þá er áætlað að frá árinu 2050 muni fólk á vinnualdri (skilgreint á aldursbilinu 20–65 ára) þurfa að framfleyta hlutfallslega fleira eldra fólki en yngra, andstætt því sem nú er. Þannig verða hlutfallslega færri á vinnumarkaði til að standa undir velferðarsamfélaginu.

Unnið er að heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk samkvæmt stjórnarsáttmála, sjá nánari umfjöllun í málaflokki 29.4. Markmið endurskoðunarinnar er að bæta lífsgæði eldra fólks með markvissri, samþættri og einstaklingsmiðaðri félags- og heilbrigðisþjónustu sem veitt er á þeim tíma og á þeim stað sem hennar er þörf. Þjónustan snúist um einstaklinginn, sé aðlöguð að þörfum hans og stuðli að því að eldra fólk njóti lífsgæða á efri árum og lifi sjálfstæðu lífi sem lengst. Samfélagslegur ávinningur af slíkum breytingum er verulegur en fyrir utan aukin lífsgæði eldra fólks eru miklir fjárhagslegir hagsmunir af því að fjölga þeim einstaklingum sem virkan þátt taka í samfélaginu og draga úr þörf fyrir flutning á hjúkrunar­heimili eða sjúkrahús. Einstaklingar eiga að hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu. Áfram verða þróaðar fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir til að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima, s.s. með því að nýta tækni og nýsköpun í þjónustu við eldra fólk. Leggja þarf sérstaka áherslu á heilsueflandi aðgerðir til að sporna við félagslegri einangrun og einmanaleika.

Í málaflokknum eru áskoranir sem snúa að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Í skýrslu starfshóps um kjör aldraðra frá desember 2018 kemur fram að af þeim íbúum 67 ára og eldri sem búa við lökust kjör séu 60–70% konur. Af þeim sem eru með tekjur á lægsta tekjubilinu (tekjutíund 1) séu um 8,5% af erlendum uppruna. Í skýrslunni kemur einnig fram að þessi hópur hefur unnið sér inn lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum, lifir nær ein­göngu á bótum almannatrygginga og býr í leiguhúsnæði eða í mjög skuldsettu eigin húsnæði. Þessir einstaklingar hafa margir mjög takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu. Talið er mikilvægt að vinna áfram í að styrkja stöðu þessa hóps en liður í því var setning laga um sérstakan félagslegan viðbótarstuðning við aldraða árið 2020 sem felur í sér greiðslur til viðbótar við greiðslur almannatrygginga að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Tækifæri til umbóta

Í samræmi við stefnu stjórnvalda um aukið valfrelsi við starfslok gefst eldra fólki nú aukinn möguleiki á sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku. Þannig geta aldraðir nú lagað starfslok að persónulegum högum sínum, t.d. með því að flýta eða fresta töku lífeyris eða minnka starfshlutfall samhliða töku hálfs lífeyris hjá almannatryggingum og lífeyrissjóðum. Sú stefna stjórnvalda var m.a. mótuð í þeim tilgangi að bregðast við áskorunum vegna fjölgunar aldraðra, auk þess sem almennt er viðurkennt að aukin lífsgæði og bætt heilsa fólks á efri árum séu fólgin í því fyrir aldraða að halda áfram störfum. Því er talið mikilvægt að auka valfrelsi aldraðra við starfslok og er það í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í starfi. Þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til hér á landi og sem verið er að þróa er einnig ætlað að bregðast við fyrirsjáanlegum auknum útgjöldum almannatrygginga vegna þessarar þróunar, auk þess sem öldruðum gefst þannig tækifæri til að vinna lengur og þar með auka ráðstöfunartekjur sínar, atvinnutengd lífeyrisréttindi og séreignarlífeyris­sparnað. Því er mikilvægt að sveigjanleg starfslok og lífeyristaka verði meginreglan í því skyni að aldraðir geti nýtt starfsgetu sína og reynslu lengur samhliða lífeyristöku. Samhliða því hafa verið gerðar ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar er varða greiðslu hálfs ellilífeyris í því skyni að fleiri hafi möguleika til að nýta sér það úrræði. Einnig má nefna að aukinn sveigjanleiki til lífeyristöku er talinn stuðla að hagkvæmara fyrirkomulagi framleiðslu og aukningu hennar. Þá þarf að huga sérstaklega að mismunandi tækifærum kynjanna við sveigjanleg starfslok og atvinnuþátttöku á efri árum.

Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut að bæta afkomu ellilífeyrisþega. Leggja þarf áherslu á að auka atvinnuþátttöku þeirra sem hafa þegar hafið töku lífeyris í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í starfi og andlegt heilbrigði. Huga þarf að breytingum á almenna frítekjumarkinu og samspili frítekjumarka við hækkanir á bótum almannatrygginga. Sérstakt frítekjumark aldraðra vegna atvinnutekna hefur hækkað umtalsvert en með hækkun frítekjumarksins geta aldraðir nú aflað sér hærri tekna en áður án þess að það komi til lækkunar lífeyrisgreiðslna þeirra frá almannatryggingum. Líta þarf sérstaklega til þeirra sem lakast standa í hópi aldraðra, t.d. þeirra sem hafa litlar eða engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga og búa í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu húsnæði.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði á árinu 2022 starfshóp sem er falið að yfirfara fyrirliggjandi tillögur er varða afkomu, atvinnuþátttöku og húsnæðismál eldra fólks og vinna nýjar tillögur eftir þörfum í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2022

Viðmið 2024

Viðmið 2028

Hækka heildartekjur ellilífeyrisþega og jafna kynjadreifingu.

1.3

Hærri heildartekjur mældar sem hlutfall ellilífeyrisþega sem fá greiðslur frá TR af íbúafjölda 67 ára og eldri.

Karlar: 70,4%

Konur: 78,8%

Karlar:

69%

Konur:

76%

Karlar:

65%

Konur:

72%

Aukin atvinnuþátttaka aldraðra.

8.5

Aukin atvinnuþátttaka mæld sem hlutfall aldraðra sem fresta töku lífeyris fram yfir 67 ára og fram yfir 70 ára.

67 ára:

47,3%

70 ára:

23,2%

67 ára:

49%

70 ára:

25%

67 ára:

52%

70 ára:

27%

 

Hlutfall lífeyrisþega með atvinnutekjur.

Karlar:

19,5%

Konur:

9,1%

Karlar:

21%

Konur:

11%

Karlar:

23%

Konur:

13%

Auka stuðning við aldraða sem lakast standa.

1.3

Fjöldi aldraðra sem fær fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi á ári.

Karlar: 10

Konur: 14

Karlar: 8

Konur: 10

Karlar: 5

Konur: 7

28.2 Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð

Til viðbótar ellilífeyri er heimilt að greiða ýmiss konar styrki og uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Má þar nefna heimilisuppbót, uppbót á lífeyri vegna tiltekins kostnaðar lífeyrisþega og uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða. Tryggingastofnun ríkisins ber ábyrgð á framkvæmd greiðslna sem falla undir málaflokkinn. Eðli málaflokksins er að öðru leyti með þeim hætti að ekki verður fjallað um markmið og mælikvarða varðandi starfsemi hans en vísað er til umfjöllunar um málaflokk 28.1, einkum hvað varðar aukinn stuðning við þá aldraða sem lakast standa.

28.3 Þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur, ótaldar

Undir þjónustu við aldraða og aðrar greiðslur, ótaldar, falla greiðslur samkvæmt lögum um eftirlaun til aldraðra, nr. 113/1994, og greiðslur samkvæmt lögum um félagslegan viðbótar­stuðning við aldraða, nr. 74/2020. Með síðarnefndu lögunum hefur verið komið til móts við þann hóp aldraðra sem ekki hefur áunnið sér full réttindi í almannatryggingum. Líkt og gildir um málaflokk 28.20 ber Tryggingastofnun ríkisins ábyrgð á framkvæmd greiðslna sem falla undir málaflokkinn sem er þess eðlis að ekki verður fjallað um markmið og mælikvarða varðandi starfsemi hans hér.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta