34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir
Umfang
Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í þrjá málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Framtíðarsýn málefnasviðsins er að hægt sé að bregðast við meiri háttar ófyrirséðum útgjöldum án þess að raska útgjaldaramma fjárlaga.
Meginmarkmið málefnasviðsins er að koma í veg fyrir að afla þurfi útgjaldaheimilda í fjáraukalögum, að frávik frá fjárlögum verði sem minnst.
Fjármögnun
Útgjaldabreytingar málefnasviðsins skýrast fyrst og fremst af því að annars vegar er verið að bæta fjárheimildum við almenna varasjóðinn og hins vegar er verið að bæta við fjárheimildum til samræmis við áætlun um afskrifaðar skattkröfur. Útgjöld vegna afskrifta skattkrafna fela ekki í sér greiðslu úr ríkissjóði þar sem um er að ræða fjárheimild á móti niðurfellingu viðskiptakrafna og hafa þær ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs á þjóðhagsgrunni.
Varðandi almenna varasjóðinn er miðað við að fjárheimildir sjóðsins verði a.m.k. 1% af heildarfjárheimildum fjárlaga ár hvert. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.
34.1 Almennur varasjóður
Verkefni
Ráðstöfun úr almennum varasjóði og sértækum fjárráðstöfunum felur í sér að fjárveiting er millifærð til þess verkefnis þar sem kostnaður sem mæta á er gjaldfærður í ríkisreikningi.
Almennum varasjóði er ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti skv. 24. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Skal varasjóðurinn nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga samkvæmt sömu lagagrein.
Helstu áskoranir
Megintilgangur málefnasviðsins er að tryggja að í fjárlögum sé gert ráð fyrir svigrúmi til að bregðast við frávikum frá forsendum fjárlaga í launa- og verðlagsmálum sem upp kunna að koma á árinu og að mæta öðrum ófyrirséðum útgjöldum sem til falla og ekki verður komist hjá. Þannig er almennum varasjóði ætlað að styðja við það að rekstur málefnasviða og málaflokka verði í samræmi við fjárheimildir ársins, jafnvel þótt til útgjalda geti komið sem ekki voru fyrirséð við ákvörðun fjárlaga.
Markmið og mælikvarðar
Markmið málaflokksins er að tryggja að til staðar séu fjárheimildir til að hægt sé að mæta útgjöldum vegna ófyrirséðra atvika og launa-, verðlags- og gengisþróunar umfram forsendur fjárlaga. Þetta á að styðja við að útgjöld málaflokka séu innan þeirra fjárheimilda sem þeim eru sett á fjárlögum og draga úr þörf fyrir að leita þurfi heimildar Alþingis fyrir ófyrirséðum útgjöldum á fjáraukalögum.
Markmið málaflokksins styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 10.4 um að tekin verði upp stefnumál, einkum í opinberum fjármálum.
Fyrirhugað er að sett verði reglugerð um ráðstöfun fjár úr varasjóði á grundvelli skilyrða í 1. mgr. 24. gr. laga um opinber fjármál, sbr. 6. tölul. 1 mgr. 67. gr. sömu laga.
Ekki er talin þörf á að setja sérstakan mælikvarða á málaflokkinn heldur er honum, eins og áður er vísað til, ætlað að mæta ófyrirséðum útgjöldum annarra málaflokka og þar með styðja við að mælikvarðar um afkomu þeirra og árangur náist.
34.2 Sértækar fjárráðstafanir
Verkefni
Sértækar fjárráðstafanir hafa tvíþætt hlutverk. Annars vegar að fjármagna útgjöld sem fjármála- og efnahagsráðherra ákveður að efna til á grundvelli heimildargreinar fjárlaga, s.s. vegna kaupa á landareignum og fasteignum. Hins vegar að fjármagna eða styðja fjárhagslega við einstaka atburði og verkefni sem upp koma á fjárlagaárinu samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar hverju sinni.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur umsjón með fjárheimildum málaflokksins en útgjaldatilefnin, sem ákveðið er að fjármagna úr honum, geta heyrt undir ábyrgðarsvið hvaða ráðuneytis sem er.
Helstu áskoranir
Fjárheimildir sem falla til sértækra fjárráðstafana eru ætlaðar til að færa ríkisstjórn möguleika á að takast á við sérstök verkefni sem ríkisstjórn ákveður að vinna að eða veita styrki til innan ársins.
Markmið og mælikvarðar
Markmið málaflokksins er að skapa svigrúm til að framfylgja aðgerðum sem fram koma í heimildargrein fjárlaga, s.s. til að kaupa fasteignir, skip og flugvélar eða aðrar eignir. Sömuleiðis að ríkisstjórn geti mætt tímabundnum útgjaldatilefnum sem upp geta komið á fjárlagaári og talið er nauðsynlegt að sinna. Jafnframt að hægt sé að mæta ýmsum ófyrirséðum útgjöldum af fyrrgreindum toga sem ekki teljast vera á ábyrgð einstakra ráðherra heldur ríkisstjórnarinnar allrar og verða ekki fjármögnuð úr varasjóðum annarra málaflokka.
34.3 Afskriftir skattkrafna
Verkefni
Um er að ræða fjárheimild á móti gjaldfærslu á beinum afskriftum krafna sem taldar eru sannanlega tapaðar, t.d. vegna gjaldþrota, og óbeinum afskriftum þar sem kröfur eru færðar niður um tiltekinn hluta sem reynslan hefur leitt í ljós að muni að líkindum ekki innheimtast.
Helstu áskoranir
Afskriftir skattkrafna eru færðar til gjalda í ríkisreikningi samkvæmt IPSAS-reikningsskilastaðlinum en á þjóðhagsgrunni samkvæmt GFS-framsetningu eru þær teknar út úr gjaldahliðinni og koma til lækkunar á viðeigandi sköttum á tekjuhliðinni. Rétt er að benda á að gjaldfærðar afskriftir við ársuppgjör hafa verið talsvert óreglulegar milli ára en í áætluninni er einkum byggt á reynslu fyrri ára og stöðu efnahagsmála þar sem líkur á afskrift aukast í erfiðu efnahagslegu árferði. Enn fremur skal bent á að þótt afskrifaðar kröfur séu færðar til gjalda á þennan málaflokk í uppgjöri á rekstrargrunni hefur það ekki í för með sér greiðslur úr ríkissjóði. Fjárheimildir vegna afskrifaðra skattkrafna hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs á þjóðhagsgrunni.
Markmið og mælikvarðar
Eðli málaflokksins er með þeim hætti að ekki verður fjallað sérstaklega um markmið og aðgerðir varðandi starfsemi hans. Í því sambandi er þó vísað í markmið um bætt skattskil í greinargerð um málaflokk 5.1 Skattar og innheimta.
Stefnumótun málefnasviða
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.