Hoppa yfir valmynd

Markmið sem stuðla að jafnrétti

Á undanförnum árum hefur töluverð vinna verið lögð í að greina og miðla upplýsingum um stöðu kynjanna eftir málefnasviðum og málaflokkum. Afrakstur þeirrar vinnu birtist m.a. í árlegri stöðuskýrslu og varpa niðurstöðurnar ljósi á þær áskoranir sem til staðar eru í jafnréttismálum og hvernig bregðast má við þeim. Þessar áskoranir eru dregnar fram í greinargerðum um málefnasviðin í fjármálaáætlun og gerð er grein fyrir tækifærum til úrbóta. Á grundvelli þessa eru sett fram markmið sem ætlað er að stuðla að jafnrétti, auk þess sem skilgreindir eru mælikvarðar sem fylgjast sérstaklega með þróun á stöðu kynjanna. Jafnframt er miðað við að aðrir mælikvarðar séu sundurgreindir eftir kyni þar sem það er mögulegt.

Hér á eftir er samantekt á helstu markmiðum í þessari fjármálaáætlun ásamt tilvísun í númer málaflokks í sviga en hægt að lesa nánar um sett markmið í greinargerðum um viðeigandi málefnasvið og málaflokka. Markmiðunum verður fylgt eftir með skilgreindum aðgerðum í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024.

Kynskiptur vinnumarkaður

Íslenskur vinnumarkaður er kynskiptur, bæði lóðrétt og lárétt, sem þýðir að ákveðin starfssvið eru talin tilheyra sérstaklega einu kyni umfram annað og tilteknum störfum er að miklu leyti sinnt af einu kyni, auk þess sem efstu ábyrgðarstöður innan fyrirtækja og stofnana tilheyra yfirleitt körlum á meðan konur raðast neðar í lagskiptingu. Sett eru fram ýmis markmið til að vinna gegn þessari stöðu. Í menntamálum eru sett fram markmið um að jafna kynjahlutföll í starfs- og tækninámi (20.1) og í háskólanámi (21.1). Þá eru einnig sett fram markmið um jafnrétti í stuðningi við nýsköpun og frumkvöðlastarf með auknu hlutfalli fjármagns frá vísisjóðum til kvenkyns stofnendateyma (07.2) og um jafnt kynjahlutfall styrkgreiðslna úr Matvælasjóði (12.2). Einnig er skilgreint markmið um sem jafnast hlutfall ríkisstarfa um landið og að kynjahlutfall starfsfólks sé sem jafnast (08.1). Loks eru sett fram markmið um aukinn hlut kvenna í ábyrgðar- og valdastöðum, annars vegar um hærra hlutfall kvenna meðal prófessora (21.1) og hins vegar bætt kynjahlutfall stjórnarformanna í ríkisfyrirtækjum sem miðar að því að við lok gildistíma áætlunarinnar verði konur helmingur stjórnarformanna (05.2).

Kynbundinn launamunur

Kynskiptur vinnumarkaður er meginskýring þess kynbundna launamunar sem enn er til staðar en árið 2020 var óleiðréttur launamunur 12,6% og leiðréttur launamunur 4,1%. Sett er fram markmið um að ná launajafnrétti með því að útrýma kynbundnum launamun. Jafnlaunavottun er mikilvægt tæki til þess og er stefnt að því að margfalda fjölda þeirra fyrirtækja sem hlotið hafa slíka vottun. Þá er miðað við að mældur leiðréttur launamunur lækki í 2% undir lok áætlunarinnar (32.2). Einnig er sett markmið um að hækka heildartekjur ellilífeyrisþega og jafna kynjadreifingu tekna (28.1). Loks er skilgreint markmið um að jafna tækifæri til atvinnu um allt land sem miðar að því að atvinnuþátttaka og meðalatvinnutekjur lækki ekki og að kynjaskipting sé sem jöfnust (08.1).

Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni

Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni er bæði orsök og afleiðing kynjamisréttis og stjórnvöld leita allra leiða til að sporna við slíku ofbeldi. Sett er markmið um að sporna við kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni áreitni þannig að hlutfall þeirra sem orðið hafa fyrir ofbeldi í nánu sambandi og fyrir kynferðisbroti lækki (32.2). Þá eru markmið um að hlutfall brotaþola sem tilkynna slík brot til lögreglu hækki (09.1 og 32.2).

Kynbundinn munur á heilsu

Kynbundinn munur er á heilsu og lífslíkum fólks. Þannig lifa konur lengur en karlar en eiga að meðaltali færri ár við góða heilsu og eru líklegri til að lifa við heilsubrest í daglegu lífi. Konur nýta heilbrigðisþjónustu því meira en karlar. Þá eru konur einnig í meiri hluta meðal örorkulífeyrisþega. Skilgreint er markmið um að auka áherslu á starfsendurhæfingu og jafna kynjadreifingu þeirra sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri sem felur í sér að hlutfall kvenna lækki meira en karla (27.1). Sett er markmið um aukin gæði og eflingu rafrænnar heilbrigðisþjónustu og sérstaklega að hækka hlutfall karla sem nota Heilsuveru í samskiptum við heilbrigðisþjónustu (32.1). Þá er skilgreint markmið um jafnrétti í bólusetningum kynja sem miðar að því að 12 ára drengir séu bólusettir gegn HPV-veiru og kynfæravörtum líkt og stúlkur (32.3).

Jafnrétti í þróunarsamvinnu

Mannréttindi, jafnrétti kynjanna, umhverfis- og loftslagsmál eru þverlæg áherslumál Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og er m.a. unnið að uppbyggingu félagslegra innviða og starfað í þágu friðar; jafnréttis-, mennta-, vatns- og salernismála á samstarfssvæðum í Malaví, Síerra Leóne og Úganda. Sett er fram markmið um bætta stöðu kvenna sem tekur til fjölgunar kvenna sem njóta góðs af efnahagslegri valdeflingu í Malaví og fjölgunar fólks sem fær aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu, þ.m.t. kyn- og frjósemiheilbrigðisþjónustuverkefnum í Malaví og Síerra Leóne. Auk þess er miðað við að viðhalda háu hlutfalli af heildarframlagi Íslands sem fer til jafnréttisverkefna (35.1).

Kyngreind tölfræðigögn

Greitt aðgengi að tölfræðiupplýsingum sem eru sundurgreindar eftir kyni er ein af lykilforsendum þess að hægt sé að greina stöðu kynjanna og samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við ákvarðanatöku. Til að styðja við þetta er sett markmið um að auka hlutfall mælikvarða í fjármálaáætlun sem eru kynnæmir (05.4). Þá er einnig skilgreint markmið sem miðar að því að tryggja tölfræði og kyngreind gögn um menningarsjóði (18.3).

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta