Hoppa yfir valmynd

Skattaívilnanir vegna orkuskipta

Skattaívilnanir hafa leikið lykilhlutverk í að koma Íslandi í fremstu röð í orkuskiptum fólksbílaflotans. Um árabil hefur ríkið veitt stuðning við kaup á rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbílum í formi niðurfellingar virðisaukaskatts (VSK). Stuðningurinn hefur nýst heimilum og öðrum aðilum sem annars þyrftu að greiða 24% VSK til viðbótar söluverði bílsins. Á árinu 2022 náði fjöldi veittra ívilnana fyrir tengiltvinnbíla 15.000 og lauk þeim þar með. Um sama leyti var hámarksfjöldi ívilnana fyrir rafmagns- og vetnisbíla aukinn í 20.000 og fyrir áramót var gengið enn lengra og fjöldatakmörkunin felld niður. Kaupendur allra hreinorkubíla eiga því rétt á ívilnun út árið 2023. Á næsta ári er fyrirhugað að ríkið muni áfram hvetja til kaupa á hreinorkubílum en með öðrum leiðum en hingað til.

Núgildandi ívilnanir í VSK-kerfinu sem hófust 1. júlí 2012 höfðu það að markmiði að ýta úr vör orkuskiptum fólksbílaflotans og koma þeim á sjálfbæran hraða. Ári fyrr hafði vörugjaldi á nýja bíla verið breytt í losunarskatt sem tryggði að hreinorkubílar bæru ekki vörugjald. Fjölgun rafmagns- og tengiltvinnbíla og uppbygging hleðsluinnviða hélst í hendur og þurfti því að fjölga hreinorkubifreiðum til að rekstur innviða yrði arðbær. Ýmsar hindranir voru í vegi þess fyrir áratug síðan að orkuskipti í vegasamgöngum kæmust á skrið af sjálfsdáðum. Hátt verð nýrra vistvænna bíla miðað við hefðbundna bensín- og dísilbíla var ein stærsta hindrunin sem yfirvinna þurfti en neytendur urðu einnig að læra að umgangast nýja tækni, fá aðgang að hleðslu og sjá tilgang í því að breyta frá því sem þeir voru vanir. Fyrir rúmum áratug var ekki vitað hve hröð þessi þróun yrði. Nú hafa rafmagns- og tengiltvinnbílar verið rúmur helmingur allra nýskráðra fólksbíla tvö ár í röð og tæp 75% séu bílaleigubílar ekki meðtaldir. Úrval bíla hefur stóraukist, verð þeirra lækkað og framboð á hleðslustöðvum og tengdri þjónustu aukist.

Þrátt fyrir þennan góða árangur og það að upphaflegt markmið núverandi ívilnunarkerfis hafi náðst skiptir áframhald orkuskiptanna miklu máli fyrir markmið stjórnvalda um samdrátt í losun. Líftími bíla er langur og enn eru hreinorkubílar aðeins rúm 7% fólksbílaflotans. Ríkið getur beitt sér með margvíslegum hætti gagnvart þeim áskorunum sem nú eru fram undan. Þegar ríkið beitir aðgerðum í formi skattastyrkja eru minni möguleikar á að sníða þær að aðstæðum hverju sinni, s.s. tilteknum markhópi eða skilyrðum, heldur en ef ráðist er með beinum hætti í skilgreint viðfangsefni með fjárframlögum. Frá upphafi VSK-ívilnanakerfisins var þannig ljóst að sú aðgerð væri almenn og ósveigjanleg. Með því að beita stuðningi á útgjaldahlið er hægt að sníða fyrirkomulagið með þeim hætti að hann nýtist meira tekjulægri hópum. Það myndi koma til móts við sjónarmið um réttlát umskipti og stuðla að því að gömlum bílum með mikla losun yrði skipt hraðar út. Ekki síst gefur sérhæft stuðningskerfi færi á að tryggja að stuðningur ríkisins verði ekki meiri en þörf krefur, sem er mikilvægur eiginleiki þegar margar aðrar aðgerðir með sama markmið keppa um takmarkað fjármagn úr ríkissjóði vegna loftslagsmála.

Við núverandi aðstæður þarf að greina hvaða ljón eru í vegi áframhaldandi hraðra orkuskipta og beina markvissum og samstilltum aðgerðum að helstu hindrunum. Í ársbyrjun 2023 var Orkusjóði falin umsjón með beinum stuðningi við hreinorkubílavæðingu hjá bílaleigum og nú er horft til þess að koma á nýju stuðningskerfi fyrir heimili og fyrirtæki með áþekkum hætti. Hið nýja form stuðnings verður fjármagnað af ríkissjóði og tekið verður tillit til sjónarmiða um gegnsæi og fyrirsjáanleika. Um leið þarf stuðningskerfið að vera opið fyrir útfærslu sem tryggja muni að það verði markviss og kostnaðarskilvirk loftslagsaðgerð.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta