Upplýsingaskiptasamningar
Á árunum 2008-2015 voru gerðir samtals 44 tvíhliða upplýsingaskiptasamningar (e. Tax Information Exchange Agreements eða TIEA) við ríki sem skilgreind voru á þeim tíma sem lágskatta- eða bankaleyndarríki. Við samningsgerðina var stuðst við samningsfyrirmynd OECD en samningagerðin var í höndum norræns stýrihóps. Í samningunum er kveðið á um skipti á upplýsingum sem skipt geta máli fyrir framkvæmd og fullnustu að því er varðar tekjuskatt. Upplýsingaskiptin fara fram samkvæmt beiðni samningsríkis þannig að ekki er um sjálfvirka upplýsingagjöf að ræða.
Upplýsingar um TIEA á vef OECD
Upplýsingaskiptasamningar um fjárhagsmálefni
FATCA
Undirritaður var í maí 2015 samningur við bandarísk stjórnvöld um skipti á upplýsingum um tekjur og eignir skattskyldra aðila samningsríkjanna. Samningurinn er í samræmi við FATCA lög (Foreign Account Tax Compliance Act) sem samþykkt voru í Bandaríkjunum á árinu 2010. Samningurinn kveður á um að skattyfirvöld safni saman upplýsingum um tekjur og eignir allra skattskyldra aðila frá nánar skilgreindum fjármálafyrirtækjum og sendi þær upplýsingar árlega til samningsaðila. Fyrstu upplýsingaskiptin á grundvelli FATCA fóru fram í september 2015.
FATCA samningurinn við Bandaríkin, birtur í C deild stjórnartíðinda nr. 4/2015
Upplýsingar um FATCA á vef RSK
Upplýsingar um FATCA á vef bandarískra skattyfirvalda IRS
CRS; nýr samræmdur staðall um upplýsingaskipti
Af hálfu OECD var unnið að gerð nýs samræmds staðals um upplýsingaskipti um fjárhagsmálefni en staðallinn byggir á aðstoðarsamningi OECD og Evrópuráðsins í skattamálum. Íslandi undirritaði samkomulag um að innleiða ákvæði staðalsins haustið 2015 og í dag hafa yfir 100 ríki skuldbundið sig til að skiptast á upplýsingum um fjárhagsmálefni. Í þessum staðli er að finna reglur um áreiðanleikakönnun viðskiptavina (e. due diligence), skýrsluform og öruggar aðferðir til þess að skiptast á upplýsingum auk ítarlegra reglna um hvaða fjármálaafurðir og fjármálafyrirtæki falli hér undir. Um er að ræða innlánsstofnanir, vörsluaðila og fjárfestingarfyrirtæki auk sérgreindra tryggingarfélaga. Fyrstu upplýsingaskipti á grundvelli staðalsins voru í september 2017 vegna ársins 2016.
Með lögum nr. 124/2015 var 92. gr. laga nr. 90/2003 breytt á þann veg að upplýsingaöflun ríkisskattstjóra nær einnig til þess að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingaskipti á sviði skattamála. Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra sett reglugerðir nr. 1240/2015, 1231/2016 og 940/2017, um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála.
Upplýsingar um samræmda staðalinn á vef OECD
CbC; Ríki fyrir ríki skýrslur
Einn hluti af BEPS aðgerðaáætlun OECD felst í því að ríki geri með sér samkomulag um skipti á upplýsingum um tekjur og skatta félaga innan heildarsamtæðu sem starfa í fleiri ríkjum og tekjur heildarsamstæðunnar eru yfir ákveðnu lágmarki. Ísland undirritaði í maí 2016 yfirlýsingu bærra stjórnvalda um að taka upp slíka skyldu í samræmi við marghliða samning um skil á ríki fyrir ríki skýrslu sem síðan var lögfest í 4. gr. laga nr. 112/2016, um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. Ísland hefur jafnframt undirritað sambærilegt samkomulag við bandarísk stjórnvöld um skil á ríki fyrir ríki skýrslum.
Reglugerð um skil á ríki fyrir ríki skýrslu er nr. 1166/2016 og breytingareglugerð nr. 245/2017
Upplýsingar um ríki fyrir ríki skýrslur á vef OECD:.
http://www.oecd.org/tax/automatic-exchange/about-automatic-exchange/country-by-country-reporting.htm
http://www.oecd.org/tax/beps/country-by-country-exchange-relationships.htm
Listi yfir gildandi upplýsingaskiptasamninga
Alþjóðlegir skattasamningar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.