Úrvinnslugjald
Til að stuðla að úrvinnslu úrgangs skal leggja úrvinnslugjald á vörur hvort sem þær eru fluttar inn til landsins eða framleiddar hér á landi. Úrvinnslugjald skal m.a. standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar, enda hafi verið greitt úrvinnslugjald af vörunum. Þá skal gjaldið standa undir endurnýtingu úrgangsins og förgun hans eftir því sem við á. Jafnframt skal gjaldið standa undir kostnaði við förgun þess úrgangs sem blandast hefur vöru sem greitt hefur verið úrvinnslugjald af, enda sé blöndunin hluti af eðlilegri notkun vörunnar.
Gjaldskyldir aðilar eru eftirfarandi:
- Allir sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur til endursölu.
- Allir sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur til eigin nota.
- Allir sem framleiða gjaldskyldar vörur innanlands.
- Allir sem skyldu bera til að greiða úrvinnslugjald af ökutæki.
Sem dæmi um gjaldskyldar vörur má nefna: olíuvörur, lífræn leysiefni, málningu og litarefni, kvikasilfursvörur og hjólbarða.
Hvert uppgjörstímabil vegna innlendrar framleiðslu og eins innflutnings af gjaldskyldri vöru eru tveir mánuðir; janúar og febrúar, mars og apríl, o.s.frv. Gjalddagi er 28. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
Álagning og innheimta úrvinnslugjalds af gjaldskyldum innfluttum vörum heyrir undir tollstjóra, en ríkisskattstjóri annast álagningu gjaldsins vegna innlendrar framleiðslu.
Sjá einnig:
Skattar og gjöld vegna atvinnureksturs
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.