Hoppa yfir valmynd
12.06.2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Níu frumvörp félags- og vinnumarkaðsráðherra urðu að lögum í þinginu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Níu frumvörp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, urðu að lögum á liðnu þingi, auk þess sem Alþingi samþykkti tillögu ráðherra til þingsályktunar. Fjögur frumvörp urðu að lögum á haustþinginu og má þar nefna lög sem fólu í sér fyrstu hækkun á frítekjumarki örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í 14 ár. Frítekjumarkið nær tvöfaldaðist og tóku breytingarnar gildi strax 1. janúar síðastliðinn.

Á haustþinginu samþykkti Alþingi sömuleiðis lög um lengingu á greiðslutímabili endurhæfingarlífeyris. Fólk fær endurhæfingarlífeyri nú greiddan í allt að fimm ár, í stað þriggja eins og áður var. Lögunum er til að mynda ætlað að bæta réttarstöðu einstaklinga með alvarlegan heilsuvanda og má þar nefna ungt fólk með nýlegar geðgreiningar þar sem viðeigandi heilbrigðismeðferð er ekki lokið.

Í desember var einnig samþykkt frumvarp sem tengist þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Frumvarpið gerði ráð fyrir ríflega 50% fjölgun svokallaðra NPA-samninga og að allt að 50 manns myndu árið 2023 geta bæst í þann hóp sem nýtir sér NPA, notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk sem þarf aðstoð í daglegu lífi. Alls voru 44 á biðlista þegar frumvarpið var samþykkt.

 

 

Á meðal lagafrumvarpa sem samþykkt voru á vorþinginu má nefna breytingar á lögum um atvinnuréttindi hjá útlendingum. Fólk sem fengið hefur dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi á nú auðveldara en áður með að komast út á vinnumarkað. Það sama gildir um þau sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Einnig má nefna ný lög um sameiningu Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs sem samþykkt voru í mars. Markmið þeirra er að veita á einum stað heildræna og samþætta þjónustu fyrir innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Meðal þess sem horft var til var sá árangur sem móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur skilað en þar hefur öll þjónusta fyrir þau sem eru nýkomin til landsins verið sameinuð á einn stað.

Í maí var þingsályktunartillaga samþykkt um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023-2027. Áætlunin hefur fengið nafnið Gott að eldast. Til grundvallar henni liggur sú staðreynd að aldurssamsetning þjóðarinnar breytist nú hratt. Eldra fólk lifir lengur en áður og er virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr. Þjónusta við eldra fólk þarf að þróast í takt við þetta. Með verkefninu Gott að eldast taka stjórnvöld utan um málefni eldra fólks með alveg nýjum hætti.

Loks má nefna tvö frumvörp sem samþykkt voru síðastliðinn föstudag. Annað þeirra er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu. Lífeyrir almannatrygginga mun hækka um 2,5% strax frá miðju ári og kemur það til viðbótar við 7,4% hækkun í upphafi árs. Hitt frumvarpið fjallar um skráningu vinnutíma og hefur verkalýðshreyfingin meðal annars barist fyrir því. Atvinnurekendum verður nú skylt að koma upp hlutlægu, áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna. Starfsmaður skal enn fremur eiga þess kost að nálgast upplýsingarnar amk. 12 mánuði aftur í tímann.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Ég er afar ánægður með árangurinn í þinginu í vetur. Mikilvæg mál kláruðust sem hafa í för með sér breytingar sem snerta líf mjög margra. Á bak við árangurinn með mér er öflugur hópur fólks í ráðuneytinu sem frábært er að vinna með. Samstarfið við þingmenn og þingnefndirnar var mjög gott og ég hlakka til næsta þingveturs, en þá verða umfangsmikil mál frá ráðuneyti mínu sett á dagskrá þingsins.“ 

Lista yfir öll frumvörp félags- og vinnumarkaðsráðherra sem samþykkt voru á 153. löggjafarþingi má sjá á myndinni hér að ofan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta