Ættleiðingar milli landa og ættleiðingarfélög
Fjallað er um ættleiðingar milli landa í ættleiðingalögum og reglugerð um ættleiðingar. Sá sem býr hér á landi og vill ættleiða barn frá öðru ríki verður að fá sérstakt forsamþykki til þess frá stjórnvöldum. Við ættleiðingar milli landa er ekki aðeins litið til íslenskra laga því Ísland er aðili að tveimur mikilvægum alþjóðasamningum sem snerta ættleiðingar. Annars vegar samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989 (Barnasáttmálanum) og hins vegar samningi um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa sem gerður var í Haag 1993 (Haagsamningnum). Með aðild sinni hefur Ísland skuldbundið sig til þess að gæta þeirra meginreglna sem samningarnir hafa að geyma við meðferð og úrlausn ættleiðingarmála.
Haagsamningurinn og Barnasáttmálinn
Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um ættleiðingar sem undirritaður var 1993 í Haag í Hollandi (Haagsamningurinn). Megintilgangur hans er að tryggja að við ættleiðingar á börnum milli landa séu hagsmunir þeirra hafðir að leiðarljósi auk þess sem honum er ætlað að koma í veg fyrir brottnám og sölu barna.
Samningurinn er gerður með sérstakri skírskotun til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálans). Í honum kemur fram að aðildarríki skuli stuðla að því að gerðir séu samningar varðandi ættleiðingar milli landa, m.a. til að tryggja að það séu þar til bær stjórnvöld og stofnanir sem sjái um að koma barni fyrir í öðru landi.
Þau ríki sem eru aðilar að Haagsamningnum geta bæði verið upprunaríki og móttökuríki, þ.e. ríki sem láta frá sér börn til ættleiðingar og ríki sem taka að sér börn til ættleiðingar.
Haagsamningurinn mælir meðal annars fyrir um skilyrði fyrir ættleiðingum milli landa, hlutverk stjórnvalda og löggiltra ættleiðingarfélaga og málsmeðferð ættleiðingarmála.
Meðferð máls
Ekki verður gerð grein fyrir efni Haagsamningsins með tæmandi hætti hér en meðal þess sem má nefna er að samningurinn leggur þá skyldu á móttökuríki að kanna hagi og aðstæður væntanlegra kjörforeldra og taka saman skýrslu um þá til að senda upprunaríkinu. Móttökuríkið verður jafnframt að staðfesta að það telji kjörforeldrana hæfa og vel til þess fallna til að taka að sér erlent barn til ættleiðingar auk þess sem því ber að veita þeim nauðsynlega ráðgjöf. Þessar upplýsingar auk annarra eru sendar upprunaríkinu sem yfirfer umsókn hinna væntanlegu kjörforeldra og öll gögn um þá.
Á Íslandi eru fjórir aðilar sem gegna lykilhlutverki í ættleiðingarmálum á Íslandi. Í fyrsta lagi dómsmálaráðuneytið sem miðstjórnvald. Í öðru lagi sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem stjórnsýslustofnun og heyrir undir ráðuneytið. Í þriðja lagi barnaverndarþjónusta í viðkomandi sveitarfélagi og í fjórða lagi löggilt ættleiðingarfélag, sem lútir eftirliti ráðuneytisins. Félagið Íslensk ættleiðing er eina ættleiðingarfélagið sem hefur löggildingu dómsmálaráðherra. Auk þess er ættleiðingarnefnd sem hægt er að vísa málum til.
Nánar tiltekið þá senda umsækjendur umsókn um ættleiðingu ásamt tilteknum fylgigögnum til Íslenskrar ættleiðingar. Félagið sér til þess að öll tilskilin gögn séu til staðar og sendir umsóknina til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Sýslumaður fer yfir umsóknina og sendir hana til umsagnar viðkomandi barnaverndarþjónustu í umdæmi þar sem barn býr og í umdæmi sem umsækjendur búa. Barnaverndarþjónusta sendir umsögn sína síðan til sýslumanns. Þá getur sýslumaður eftir atvikum leitað umsagnar ættleiðingarnefndar, t.d. ef það er vafi um hæfi væntanlegra kjörforeldra til þess að ættleiða barn. Ef forsamþykki er gefið út er það sent til Íslenskrar ættleiðingar. Íslensk ættleiðing sendir síðan umsókn um ættleiðingu til upprunaríkis í samræmi við kröfur upprunaríkis.
Upprunaríkið ákveður eftir viðtöku upplýsinganna hvaða barn komi til greina fyrir væntanlega kjörforeldra að ættleiða. Ríkið hefur þá þegar gengið úr skugga um að það megi ættleiða barnið sem í hlut á og að það sé því fyrir bestu að verða ættleitt úr landi þar sem viðunandi úrræði hafi ekki fundist fyrir barnið í upprunaríkinu. Upprunaríkið hefur þá einnig gengið úr skugga um að allra nauðsynlegra samþykkja hafi verið aflað og að samþykkin hafi verið gefin af fúsum og frjálsum vilja, án þvingana og fjárgreiðslna. Upprunaríkið sendir svo upplýsingar um hið tiltekna barn, m.a. heilsufar þess, til móttökuríkisins og stendur væntanlegum kjörforeldrum þá til boða að ættleiða það. Íslensk ættleiðing sér síðan um að afla samþykkis væntanlegra kjörforeldra. Ef væntanlegir kjörforeldrar treysta sér til að taka umrætt barn að sér er staðfesting á því send upprunaríkinu ásamt staðfestingu móttökuríkisins, nánar tiltekið staðfesting sýslumanns, á því að ættleiðingarmálið megi halda áfram og ljúka á grundvelli 17 gr. c Haag-samningsins. Íslensk ættleiðing sér einnig um að aðstoða foreldra við að skipuleggja ferðina til upprunaríkis. Sýslumaður sér svo til þess að eftirfylgniskýrslur séu sendar upprunaríki. Eftir að barn kemur til Íslands staðfestir sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu réttaráhrif ættleiðingarinnar.
Haagsamningurinn byggir samkvæmt framansögðu á því að ættleiðingar á börnum milli landa fari fram í samvinnu stjórnvalda upprunaríkis og móttökuríks. Það er á hinn bóginn alltaf stjórnvalda í upprunaríkinu að ákveða hvaða börn teljast ættleiðanleg. Bæði Barnasáttmálinn og Haagsamningurinn ganga út frá þeim meginsjónarmiðum að ættleiðing á barni milli landa, þ.e. ættleiðing út úr heimalandi barns, geti aðeins verið kostur að fullnægðum ákveðnum skilyrðum og ef ekki finnst viðunandi úrræði fyrir barn í upprunaríkinu að mati yfirvalda þess ríkis. Fjöldi þeirra barna sem teljast ættleiðanleg til útlanda í tilteknu upprunaríki er alltaf ákvarðaður í því ríki en móttökuríkin hafa ekkert með þá ákvörðun að gera.
Um löggilt ættleiðingarfélög
Löggilt ættleiðingarfélög starfa víða um lönd. Verkefni þeirra eru ekki allsstaðar nákvæmlega hin sömu en megintilgangur þeirra er að hafa milligöngu um ættleiðingar milli landa og aðstoða væntanlega kjörforeldra í ættleiðingarferlinu sem er býsna langt. Í mörgum ríkjum er gert ráð fyrir að allar ættleiðingar á börnum milli landa fari í gegnum löggilt ættleiðingarfélög (e.t.v. að svonefndum alþjóðlegum fjölskylduættleiðingum undanskyldum) og eru þau sjónarmið vaxandi.
Haagsamningurinn byggir á því grundvallarsjónarmiði að stjórnvöld og stofnanir innan ríkjanna auk löggiltra ættleiðingarfélaga sjái um undirbúning ættleiðingarmáls. Ekkert samband eigi að vera á milli væntanlegra kjörforeldra og barns sem ættleiða á fyrr en gengið hafi verið úr skugga um af þar til bærum yfirvöldum að ættleiðingin sé barninu fyrir bestu. Þetta er auðvelt að skilja þegar litið er til tilgangs samningsins sem er ekki síst að verja hagsmuni barnanna sem í hlut eiga og að koma í veg fyrir brottnám barna og verslun með þau eins og áður segir.
Það eru fyrst og fremst svonefnd miðstjórnvöld og löggilt ættleiðingarfélög sem bera hitann og þungann af samstarfi uppruna- og móttökuríkis. Hér á landi er dómsmálaráðuneytið miðstjórnvald og hefur yfirumsjón með þessum málum og löggildir ættleiðingarfélög.
Verkefni ættleiðingarfélags felst m.a. í því að sjá til þess að safnað sé saman þeim upplýsingum og gögnum sem þarf að taka saman hér á landi um umsækjendur og aðstæður þeirra og að senda þau gögn til viðeigandi stjórnvalds í upprunaríki - í því formi sem þau áskilja. Hið löggilta félag hefur líka það hlutverk að fylgjast með og tryggja að í upprunaríki barns séu gerðar viðeigandi ráðstafanir, þ. á m. varðandi samþykki til ættleiðingar og um brottför barns úr landi, sem eru nauðsynlegar samkvæmt lögum upprunaríkisins og íslenskum reglum um ættleiðingar. Félagið aðstoðar væntanlega kjörforeldra þegar þeir sækja barn við ferðir til og frá upprunaríki barns og dvöl þar og aðstoðar þá vegna aðgerða dómstóla eða stjórnvalda í upprunaríkinu í tilefni af ættleiðingu barns. Ættleiðingarfélag verður því að þekkja vel til þeirra reglna sem upprunaríki starfa eftir, bæði að því er varðar skilyrði sem umsækjendur verða að uppfylla og verkaskiptingu og hlutverk hinna ýmsu stjórnvalda og stofnana sem að ættleiðingarmálinu koma en þessi atriði geta verið mjög mismunandi milli ríkja. Þá ber félagi að sinna ráðgjafarþjónustu um ættleiðingar og veita félagsmönnum sínum þjónustu eftir að ættleiðing hefur verið veitt.
Eins og fram hefur komið er félagið Íslensk ættleiðing eina ættleiðingarfélagið sem hefur löggildingu dómsmálaráðherra. Lögum samkvæmt skal í löggildingarskjali taka fram til hvaða ríkis eða ríkja löggilding taki. Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins og þau ríki sem félagið er í samstarfi við má sjá á vef félagsins, www.isadopt.is.
Skilyrði og eftirlit
Haagsamningurinn hefur að geyma ákveðin skilyrði fyrir því að félag geti hlotið viðurkenningu eða löggildingu til að annast milligöngu um ættleiðingar. Þannig segir í samningnum að aðeins félög sem sýna fram á getu til að leysa vel af hendi verkefni sem þeim kunna að verða falin skuli fá og halda löggildingu. Slíkt félag skuli einungis vinna að ófjárhagslegum markmiðum samkvæmt þeim skilmálum og innan þeirra marka sem kveðið er á um af þar til bærum stjórnvöldum. Þau skuli hafa stjórnendur og starfsmenn sem eru hæfir hvað siðferðiskröfur og menntun eða reynslu varðar til starfa á sviði ættleiðinga milli landa og lúta eftirliti stjórnvalda hvað varðar skipulag, rekstur og fjárhag. Jafnframt segir að félag sem hlotið hefur viðurkenningu í einu samningsríki megi aðeins starfa í öðru samningsríki ef stjórnvöld beggja ríkjanna hafa heimilað því það.
Íslensk lög og reglur um löggilt ættleiðingarfélög eiga rætur að rekja til ákvæða Haagsamningsins og þeirra grundvallarsjónarmiða sem honum búa að baki. Þess vegna er það svo að allar ættleiðingar á börnum frá útlöndum eiga að fara fram fyrir milligöngu löggiltra ættleiðingarfélaga sem lúta eftirliti ráðuneytisins. Aðeins í algerum undantekningartilvikum má heimila ættleiðingu án milligöngu slíks félags og þá einkum ef um er að ræða sérstök tengsl við barn (alþjóðleg fjölskylduættleiðing).
Með því að áskilja að löggilt félag hafi milligöngu um ættleiðingar á börnum milli landa er tryggt eins og kostur er að ættleiðingar fari fram í samræmi við grundvallarreglur Haagsamningsins, að alls sé gætt sem gæta ber og að allur ferill máls sé í samræmi við lög og reglur beggja ríkjanna.
Ráðuneytið hefur sett reglugerð um ættleiðingarfélög. Meðal þess sem reglurnar hafa að geyma eru ákvæði um hlutverk og starfshætti löggiltra ættleiðingarfélaga, auk ákvæða um að félag beri að senda ráðuneytinu árlega upplýsingar um fjárhag félagsins o.fl. Reglurnar er að finna hér.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu
Erindum vegna ættleiðinga skal beina til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Sjá ítarlegar upplýsingar á vef sýslumanna.
Tenglar
Ættleiðingar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.