Forsjá barns
Barn á lögum samkvæmt rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja.
Forsjá barns felur bæði í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barnsins og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns t.d. í dómsmáli.
Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og þeim ber að vernda barnið gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
Foreldrar eiga ávallt að gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum eins og best hentar hag og þörfum barns síns og þeim ber að hafa samráð við barnið áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Afstaða barns á að hafa aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.
Almennt um inntak sameiginlegrar forsjár
Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns eiga þeir að taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barnið.
Foreldrar, sem fara saman með forsjá barns en búa ekki saman, eiga alltaf að leitast við að hafa samráð áður en teknar eru afgerandi ákvarðanir um málefni barns er varða daglegt líf þess, til dæmis um hvar það skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, um venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf.
Það er á hinn bóginn foreldrið, sem barnið á lögheimili hjá (lögheimilisforeldrið), sem hefur heimild til ákvarðanatöku um framangreind málefni. Á þá heimild getur reynt ef ágreiningur rís.
Ef annað forsjárforeldra barns getur ekki sinnt forsjárskyldum sínum einhverra hluta vegna, til dæmis vegna tímabundinna veikinda, eru ákvarðanir hins um persónulega hagi barns gildar, enda teljist þær nauðsynlegar.
Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns síns er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Það á við hvort sem um lengri eða skemmri dvöl er að ræða. Ef annað foreldra fer með barn úr landi án samþykkis hins getur það talist ólögmætt brottnám barns. Þá getur foreldrið sem ekki gaf samþykki sitt leitað til dómsmálaráðuneytisins og fengið leiðbeiningar um hvernig eigi að snúa sér í því að fá barninu skilað til Íslands. Um brottnámsmál er fjallað hér á vefnum.
Ef foreldrar fara saman með forsjá barns og annað þeirra vill fara með barnið í ferðalag til útlanda, til dæmis í sumarfrí, en hitt samþykkir það ekki, er hægt að leita til sýslumanns í umdæmi þar sem barn býr og hann úrskurðar í málinu.
Nánari upplýsingar um forsjá o.fl. má finna á vef sýslumanna:
Forsjá barns | Ísland.is (island.is)
Lögheimili barns
Ef foreldrar búa ekki saman, og eru með sameiginlega forsjá, þarf að ákveða hjá hvoru foreldrinu barnið er með skráð lögheimili.
Börn geta ekki haft tvö lögheimili.
Þegar foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns, hefur barnið lögheimili hjá öðru foreldrinu og búsetuheimili hjá hinu.
Ákvörðun um lögheimilið þarf til dæmis að taka þegar foreldrar ákveða að hafa sameiginlega forsjá eftir skilnað eða eftir sambúðarslit, eða þegar foreldrar ákveða að gera samning um að hafa sameiginlega forsjá. Meginreglan er að forsjá sé áfram sameiginleg eftir skilnað eða sambúðarslit.
Nánari upplýsingar um lögheimili barns o.fl. má finna á vef sýslumanna:
Lögheimili barns | Ísland.is (island.is)
Skipt búseta barns
Skipt búseta barns er samningur foreldra með sameiginlega forsjá um að barn hafi fasta búsetu hjá þeim báðum. Í þjóðskrá verður barnið skráð með lögheimili hjá öðru foreldrinu og skráð búsetuheimili hjá hinu. Samningur um skipta búsetu er gerður hjá sýslumanni, einnig er hægt að gera dómsátt um skipta búsetu.
Nánari upplýsingar um skipta búsetu barns o.fl. má finna á vef sýslumanna:
Skipt búseta barns | Ísland.is (island.is)
Sjá einnig:
Lög
Reglur og reglugerðir
Þjónusta sýslumanna
Sjá upplýsingar og ýmis eyðublöð sem varða forsjá á vef sýslumanna
Barnaréttur
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.