Hoppa yfir valmynd

Nánar um Haagsamninginn

Hvað er ólögmætt brottnám barns?

Í Haagsamningnum og brottnámslögunum nr. 160/1995 er að finna nokkur skilyrði sem öll þurfa að vera fyrir hendi til þess að um ólögmætt brottnám barns sé að ræða sem falli undir samninginn og lögin:

  • Barnið hafi fyrir brottnámið verið búsett í öðru samningsríki en Íslandi
  • Það foreldri sem gerir kröfu um að barni verði skilað hafi forsjá þess samkvæmt reglum þess lands þar sem barn var búsett. Forsjáin getur verið alfarið í höndum þess foreldris eða í höndum beggja (sameiginleg forsjá).
  • Flutningur barns til Íslands sé brot á reglum um forsjá í landinu þar sem barnið var búsett áður en það var flutt til Íslands.
  • Það foreldri sem gerir kröfu um að barni verði skilað þarf að hafa notið forsjárréttar síns í raun. Það þýðir þó ekki að barnið þurfi að hafa búið hjá því foreldri sem krefst afhendingar þess.

Reglurnar um ólögmætt brottnám eiga ekki aðeins við ef barn er numið á brott með ólögmætum hætti heldur einnig í þeim tilvikum þegar barni er með ólögmætum hætti haldið í samningsríki. Það getur til dæmis átt við ef foreldrarnir voru í upphafi sammála um að barnið kæmi til Íslands, t.d. í frí eða til að njóta umgengni við foreldri en síðar neitar foreldrið að senda barnið til baka til búsetulands þess, eftir að umsömdu tímabili er lokið.

Skyldur Íslands samkvæmt Haagsamningnum

Á ríkjum sem gerst hafa aðilar að Haagsamningnum hvílir skylda til að tilnefna móttökustjórnvald. Móttökustjórnvöld ríkjanna vinna saman að þeim málum sem heyra undir samningana. Meginhlutverk móttökustjórnvalds er að móttaka erindi, frá einstaklingum og erlendum ríkjum, og senda erindi, m.a. beiðni foreldris um afhendingu brottnuminna barna, til réttra stjórnvalda, dómstóla eða einstaklinga, veita aðstoð og miðla upplýsingum um mál er heyra undir samningana. Á Íslandi er dómsmálaráðuneytið móttökustjórnvald.

Frumskyldan samkvæmt samningnum er að skipa svo fyrir að barni, sem hefur verið flutt ólögmætum hætti til Íslands, eða sem er haldið á ólögmætan hátt hér á landi, skuli skilað þegar í stað. Ákvarðanir um afhendingu barna samkvæmt framansögðu eru teknar af héraðsdómara. Haagsamningurinn leggur einnig skyldur á stjórnvöld og þannig ber t.d. dómsmálaráðuneytinu að hafa samvinnu við yfirvöld í öðrum samningsríkjum til að tryggja að börnum verði skilað sem fyrst, að veita upplýsingar almenns eðlis um íslensk lög í tengslum við beitingu samningsins, að hefja eða greiða fyrir að hafin verði málsmeðferð fyrir dómstólum í því skyni að fá barni skilað, að veita eða greiða fyrir því að veitt sé lögfræðileg aðstoð og ráðgjöf o. fl.

Með vísan til 27. gr. Haagsamningsins er móttökustjórnvaldi óskylt að taka við beiðni þegar augljóst er að skilyrðum samningsins er ekki fullnægt eða að beiðnin á ekki að öðru leyti við rök að styðjast. Í slíkum tilvikum skal móttökustjórnvaldið skýra frá ástæðum þess.

Málsmeðferð þegar barn er flutt til Íslands með ólögmætum hætti frá öðru Haagsamningsríki eða er haldið hér á landi með ólögmætum hætti

Brottnámsmál hefst oftast á því að það foreldri, sem telur að barn hafi verið flutt til Íslands með ólögmætum hætti eða sé haldið á Íslandi, snýr sér til móttökustjórnvaldsins í ríkinu þar sem það býr, með beiðni um aðstoð við endurheimt barnsins.

Hið erlenda móttökustjórnvald framsendir beiðni foreldrisins til íslenska móttökustjórnvaldsins, þ.e. dómsmálaráðuneytisins. Umsókninni eiga fylgja þau skjöl er málið varða, svo sem hjúskaparvottorð, hjónaskilnaðarleyfi, sambúðarslitavottorð, fæðingarvottorð barnsins, vottorð um forsjá barnsins, vottorð um búsetu, mynd af barninu o.s.frv.

Umsóknin skal vera á íslensku ef unnt er, en annars á ensku. Fylgiskjölum þarf einnig að fylgja þýðing á íslensku eða ensku.

Þegar dómsmálaráðuneytinu berst beiðni um afhendingu barns og ráðuneytinu virðist málið falla undir Haagsamninginn er venjulega haft samband við þann sem barn dvelur hjá og honum kynnt framkomin beiðni, leiðbeint og hann inntur eftir því hvort hann vilji skila barninu af fúsum og frjálsum vilja. Hugsanlegt er að veittur sé skammur frestur til að skila barninu. Ef óvíst er hvar barn dvelur getur ráðuneytið getur leitað aðstoðar lögreglu og barnaverndaryfirvalda til að hafa uppi á því. Ef viðkomandi neitar að skila barni, eða því er ekki skilað innan hins skamma frests sem veittur er, er íslenskum lögmanni falið að fara með málið fyrir umsækjanda. Beiðandi getur einnig óskað eftir því að beiðnin verði send beint til lögmanns fyrir hans hönd sem fer með beiðnina fyrir dómstól hér á landi. Í báðum tilvikum gerir lögmaður beiðanda kröfu um afhendingu barns við héraðsdómstól í því umdæmi þar sem barnið dvelst. Lögmaðurinn sækir um gjafsókn fyrir umsækjandann, óski hann þess. Ef ekki er sótt um gjafsókn eða synjað er um hana verður sá sem óskar eftir afhendingu barns almennt sjálfur að bera kostnað af málarekstrinum hér á landi. Ef gjafsókn er veitt greiðir ríkissjóður á hinn bóginn málskostnaðinn.

Meðan á rekstri málsins stendur hefur dómsmálaráðuneytið milligöngu um samskipti dómstólsins, lögmanns beiðanda og móttökustjórnvalds hins erlenda ríkis.

Það er héraðsdómari sem úrskurðar um hvort um ólögmætt brottnám eða hald er að ræða. Ef dómari kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé mælir Haagsamningurinn svo fyrir að ákveða skuli að barnið verði afhent til þess ríkis sem það var numið brott frá.

Héraðsdómari getur þó, þegar sérstaklega stendur á, þrátt fyrir þá niðurstöðu að um ólögmætt brottnám eða hald sé að ræða, ákveðið að barnið verði ekki afhent til heimaríkis þess.

Þetta getur átt við:

  • ef brottnámið átti sér stað meira en einu ári áður en beiðni um afhendingu barns kom fram, enda hafi barnið þá aðlagast nýjum aðstæðum
  • ef alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega, eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu,
  • ef barnið er andvígt afhendingu og hefur náð þeim aldri og þroska að rétt þyki að taka tillit til skoðana þess, eða
  • afhending er ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda.

Undantekningarreglur þessar eru almennt skýrðar þröngt.

Úrskurð héraðsdóms í brottnámsmáli má kæra til Landsréttar. Kærufrestur er tvær vikur. Þá er mögulegt á grundvelli laga um aðför nr. 90/1989 að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar. Frestur til þess að óska eftir kæruleyfi er tvær vikur.

Í brottnámsmáli er ekki tekin afstaða til þess hvort foreldra sé betur hæft til að fara með forsjá barns og hvort þeirra skuli hafa forsjá barns til frambúðar. Meginhugsunin að baki Haagsamningnum er að koma að nýju á því ástandi sem var áður en brottnámið átti sér stað, en það felur m.a. í sér að ákvörðun, um hver skuli í framtíðinni fara með forsjá barnsins, er tekin í því ríki þar sem barnið var heimilisfast fyrir brottnámið.

Meðan brottnámsmál er rekið hér á landi getur íslenskur dómstóll ekki tekið ákvörðun um forsjá barnsins sem í hlut á. Það er á hinn bóginn ekkert í vegi fyrir því að dómstóll í ríkinu þar sem barnið bjó áður taki ákvörðun um forsjá barnsins, enda þótt brottnámsmálinu sé ekki lokið hér á landi.

Samkvæmt brottnámslögunum skal hraða meðferð mála samkvæmt Haagsamningnum svo sem unnt er.

Það foreldri sem krafist hefur afhendingar barns síns fær, sem fyrr segir, tilnefndan lögmann til að reka málið fyrir dómi, sem sækir um gjafsókn fyrir foreldrið, óski það þess. Almennar reglur gilda um gjafsóknarbeiðnina. Það foreldri sem flutti barnið til Íslands getur einnig sótt um gjafsókn, samkvæmt almennum reglum til dómsmálaráðuneytisins. Sé gjafsókn veitt hefur það almennt þá þýðingu að gjafsóknarhafi þarf ekki að bera kostnað af rekstri málsins fyrir dómi.

Sjá einnig:

Brottnám barna

Síðast uppfært: 7.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta