Hoppa yfir valmynd

Neysluviðmið

Uppfært í desember 2023

Í febrúar 2011 lagði þáverandi velferðarráðherra fram skýrslu sérfræðingahóps um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Skýrslan var lögð fram til almennrar kynningar og umræðu og birt á vef ráðuneytisins ásamt reiknivél þar sem einstaklingar gátu mátað sig að neysluviðmiðunum í samræmi við eigin aðstæður.

Dæmigert viðmið átti að endurspegla og gefa sem heildstæðasta mynd af útgjöldum íslenskra heimila. Fyrir flesta útgjaldaflokka var dæmigert viðmið reiknað þannig að miðgildi útgjalda fyrir hvern útgjaldaflokk var reiknað. Þessu til viðbótar var kostnaður vegna reksturs bifreiða og skólatengdur kostnaður barna reiknaður sérstaklega. Hér var því hvorki um lágmarks- né lúxusviðmið að ræða.

Grunnviðmiðið hins vegar gaf vísbendingar um hvað fólk þyrfti að lágmarki til að framfleyta sér. Gert var ráð fyrir að raunkostnaður væri notaður vegna húsaleigu, viðhaldskostnaðar og rafmagns og hita. Framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara var skammtímaviðmið byggt á neysluviðmiðunum og var birt á vefsíðu Umboðsmanns skuldara og notað til að meta fjárhagsstöðu umsækjenda um þjónustu. 

Raunveruleg útgjöld fjölskyldna

Við gerð viðmiðanna var stuðst við rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna. Rannsóknin var tvíþætt. Þátttakendur héldu bókhald yfir útgjöld sín og söfnuðu kvittunum yfir tveggja vikna skeið í senn. Til að rannsóknin næði einnig til útgjalda sem eru sjaldgæf, s.s. á vörum með langan endingartíma var tekið viðtal við þátttakendur þar sem þeir svöruðu spurningum um slík útgjöld yfir þriggja mánaða tímabil. Dæmi um slíkar vörur voru heimilistæki og húsgögn. Af því að kaup á vörum af því tagi eru sjaldgæf varð meiri óvissa um mælinguna þar sem færri heimili mældust með útgjöld í þessum neysluflokkum heldur en t.d. í dagvörum. Auk þess voru þær mælingar sem fengust gjarnan háar því sjaldgæf vörukaup eru gjarnan á dýrum vörum. Undirstrikað var að þetta gæti skapað tilviljanakennd frávik sem hefðu mikil áhrif á lokaniðurstöðu rannsóknarinnar. Gerð neysluviðmiðanna tók mið af því eftir því sem efni stóðu til.

Útgjöldin voru sundurliðuð í 12 útgjaldaflokka. Í hverjum útgjaldaflokki var tekið miðgildi útgjalda sem fól í sér að helmingur heimila var með jafnhá eða lægri útgjöld í viðkomandi útgjaldaflokki. Flokkarnir voru þessir:

  1. Matur, drykkjarvörur og aðrar dagvörur til heimilishalds,
  2. föt og skór,
  3. heimilisbúnaður,
  4. raftæki og viðhald raftækja,
  5. lyf, lækningavörur og heilbrigðisþjónusta,
  6. sími og fjarskipti,
  7. menntun og dagvistun,
  8. veitingar,
  9. önnur þjónusta fyrir heimili,
  10. tómstundir og afþreying,
  11. ökutæki og almenningssamgöngur,
  12. annar ferðakostnaður.

Liðirnir húsaleiga/reiknuð húsaleiga; viðhaldskostnaður húsnæðis og rafmagn og hiti voru ekki inni í íslensku neysluviðmiði eftir uppfærslu þess í maí 2012.

Áhersla var lögð á að viðmiðin gæfu sem heildstæðasta mynd af útgjöldum fjölskyldna. Hjá nágrannaþjóðum okkar var algengt að húsnæðisútgjöld væru undanskilin við gerð neysluviðmiða með þeim rökum að sá kostnaður væri of breytilegur til þess að setja mætti raunhæf viðmið og átti hið sama við hér á landi. Greiðslur beinna skatta og opinberra gjalda komu ekki inn í útreikning neysluviðmiða.

Uppfærslur og endurskoðun opinberra neysluviðmiða

Neysluviðmið voru sem fyrr segir fyrst birt árið 2011 og hafa síðan þá verið uppfærð átta sinnum, síðast í október árið 2019. Neysluviðmið byggjast á útgjaldarannsókn heimilanna, sem framkvæmd er af Hagstofu Íslands, en megintilgangur hennar er að afla gagna í grunn fyrir vísitölu neysluverðs. Viðmiðin hafa frá upphafi verið reiknuð út frá nýjustu gögnum yfir þriggja ára tímabil og þess á milli uppfærð með breytingu undirvísitalna vísitölu neysluverðs hafi ný gögn ekki legið fyrir.

Neysluviðmið sem birt voru í október 2019 voru unnin á grunni rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á árunum 2013 til 2016, líkt og neysluviðmið sem birt voru árið 2018 þrátt fyrir að nýjasta gagnasettið væri frá árunum 2014 til 2017. Nýrri gögnin yfir útgjöld buðu hins vegar ekki upp á nauðsynlega sundurliðun útgjalda, sem útreikningar neysluviðmiða krefjast. Af þeim sökum voru viðmið ársins 2018 framlengd með undirvísitölum vísitölu neysluverðs fyrir hvern útgjaldaflokk fyrir sig. Uppfærslur neysluviðmiða árin 2018 og 2019 voru unnar af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið.

Sem fyrr segir byggjast neysluviðmið á útgjaldarannsókn heimilanna, sem framkvæmd er af Hagstofu Íslands, og uppfyllir hún það hlutverk sem henni er ætlað, þ.e. að afla gagna í grunn fyrir vísitölu neysluverðs, en ljóst er að rannsóknin er ekki framkvæmd í þeim tilgangi að nýta skuli hana við útreikning neysluviðmiða. Sérfræðingar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafa bent á að gagnasettin úr rannsókninni séu ekki lengur fullnægjandi til þess að nýta við útreikning neysluviðmiða í þeirri mynd sem þau hafa verið gefin út. Í ljósi framangreinds var talið nauðsynlegt að skoða hvort breyta þyrfti aðferðafræðilegri nálgun við útreikning neysluviðmiða.

Í kjölfarið skipaði félags- og barnamálaráðherra starfshóp um neysluviðmið í janúar 2020 en verkefni starfshópsins var að yfirfara og endurskoða þá aðferðafræði sem notuð er við útreikninga neysluviðmiða sem ráðuneytið birtir. Eins var það verkefni starfshópsins að skoða hvort rétt væri að færa útgáfu neysluviðmiða frá ráðuneytinu til þess að staðfesta enn frekar hlutleysi útreikninganna. Í starfshópnum um neysluviðmið voru fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og umboðsmanni skuldara en fulltrúi ráðuneytisins starfaði með hópnum. Hagstofa Íslands kaus að tilnefna ekki fulltrúa.

Starfshópurinn skilaði ráðherra tillögum sínum haustið 2020 en helstu niðurstöður voru að ýmsir annmarkar væru á samspili gagna sem notuð eru sem undirlag í útreikningum neysluviðmiða og þeirrar aðferðafræði sem notuð væri. Starfshópurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að það hvernig neysluviðmið eru nýtt í dag færi ekki saman við upprunaleg markmið um notkun þeirra. Starfshópurinn taldi því að endurskoða þyrfti þá aðferðafræði sem beitt hefði verið við útreikning neysluviðmiða hér á landi. Starfshópurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að það væri óraunhæft að svo ítarleg viðmið, sem lagt var upp með í fyrstu útgáfunni árið 2011, gætu byggst á núverandi útgjaldarannsókn Hagstofu Íslands. Því bæri að endurskoða íslensk neysluviðmið í heild. Taka þyrfti ákvörðun um nýja nálgun á reikniaðferð með hliðsjón af endanlegri notkun viðmiðanna og fyrirliggjandi gögnum.

Í ljósi framangreinds fer nú fram í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu heildarendurskoðun á allri umgjörð neysluviðmiða með það að markmiði að finna lausn til framtíðar.

Síðast uppfært: 21.12.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta