Húsfyllir áfundi um Norrænu velferðarvaktina
Fjölmennt var á opnun Í Norræna húsinu í gær þar sem kynnt voru verkefni sem unnið er að á vegum Norrænu velferðarvaktarinnar. Verkefnin snúast öll um stöðu og mikilvægi velferðarkerfa þegar vá steðjar að, hvort sem hún er vegna náttúruhamfara eða af mannavöldum, líkt og efnahagskreppur.
Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra, setti fundinn og sagði stuttlega frá Norrænu velferðarvaktinni sem er norrænt samstarfsverkefni sem ráðist var í að frumkvæði Íslands í fyrra á formennskuári þess í Norrænu ráðherranefndinni. Markmið verkefnisins er að meta hvernig norræn velferðarkerfi eru búin undir að mæta hvers konar vá og jafnframt að finna betri leiðir en við nú höfum til að mæla og fylgjast með velferð borgaranna, ekki síst til að geta brugðist við tímanlega og á sem skynsamlegastan hátt þegar á reynir.
Norræna velferðarvaktin á sér að nokkru leyti fyrirmynd í íslensku velferðarvaktinni sem sett var á fót í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 en eitt af verkefnum hennar var gerð svokallaðra Félagsvísa sem veita upplýsingar um fjölmörg atriði sem tengjast lífskjörum og ólíkum aðstæðum fólks í samfélaginu.
Á fundinum í Norræna húsinu í gær fjallaði Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, frá undirbúningi að þróun norrænna velferðarvísa sem koma til með að lýsa þróun velferðar á Norðurlöndunum. Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, sagði frá verkefni þar sem sérstök áhersla er lögð á hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaga á tímum hamfara, hvernig megi samhæfa viðbrögð velferðarkerfa í kjölfar vár og efla viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Stefán Ólafsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, fjallaði um afleiðingar fjármálakreppa á Norðurlöndunum, viðbrögð stjórnvalda og árangur af þeim og ræddi um helsta lærdóm sem draga má af þeim til að bæta ákvarðanir þegar á reynir. Loks greindi Agnar Freyr Helgason, doktor í stjórnmálafræði, frá áhrifum kreppunnar 2008 á velferð almennings í Evrópu og fjallaði meðal annars um hvernig stjórnvöld á Íslandi og Írlandi brugðust við kreppu á ólíkan máta og hvernig löndunum tveim reiddi af í kjölfarið.
- Guðný Björk Eydal, prófessor: Velferð og vá
- Dr. Agnar Freyr Helgason, stjórnmálafræðingur: Efnahagskreppan 2008 og velferð almennings - Ísland í evrópskum samanburði
- Stefán Ólafsson, prófessor: Fjölþjóðleg rannsókn á viðbrögðum við kreppu
- Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur velferðarráðuneyti: Norrænir velferðarvísar