Hoppa yfir valmynd
12. júní 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 12. júní 2009


Mætt
: Lára Björnsdóttir (LB) formaður, Björn Ragnar Björnsson (BRB), tiln. af fjármálaráðuneyti, Garðar Hilmarsson (GH), tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðríður Ólafsdóttir (GÓ), tiln. af Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálp, Guðrún Björk Bjarnadóttir (GBB), tiln. af SA, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson (GRS), tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Héðinn Unnsteinsson (HU) varamaður Guðrúnar Sigurjónsdóttur, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Kristján Sturluson (KS), tiln. af Rauða krossi Íslands, Páll Ólafsson (PÓ), tiln. af Bandalagi háskólamanna, Sigurrós Kristinsdóttir (SK) tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Stefán Stefánsson (StSt), tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, starfsmennirnir Þorbjörn Guðmundsson (ÞG) og Ingibjörg Broddadóttir (IB) auk Ránar Ingvadóttur.

1. Fundargerðir 9. og 10. fundar

Fundargerðir 9. og 10. fundar stýrihópsins voru lagðar fram og samþykktar.

2. Ályktun um barnavernd

Samþykkt var eftirfarandi ályktun sem sett verður á vefsvæði vaktarinnar og send bæði Sambandi íslenskra sveitarfélaga og samgönguráðuneyti:

„Tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað verulega á undanförnum mánuðum, mest í Reykjavík og á Reykjanesi, eða um 40% miðað við sama tíma í fyrra, en algengt er að tilkynningum hafi fjölgað á bilinu 10–20% hjá öðrum barnaverndarnefndum. Langmest atvinnuleysi er á sömu svæðum. Á Suðurnesjum var 14,3% atvinnuleysi í apríl síðastliðnum og 9,8% á höfuðborgarsvæðinu. Velferðarvaktin hefur af þessu tilefni haldið sameiginlegan fund með forstjóra Barnaverndarstofu og félagsmálastjórum sem starfa bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda er vísbending um alvarlegan vanda og margt bendir til að hegðunarerfiðleikar og ofbeldi meðal ungmenna hafi aukist á síðastliðnum vetri. Velferðarvaktin telur að til þess að unnt sé að draga óyggjandi ályktanir af þessari fjölgun barnaverndartilkynninga þurfi að kanna aðstæður betur. Líklegt er að samfélagið í heild, ekki síst fólk sem vinnur með börnum, vaki betur yfir velferð þeirra einmitt vegna efnahagsástandsins og kann það eitt og sér að hafa leitt til einhverrar fjölgunar tilkynninga.

Af þessu tilefni mun velferðarvaktin óska eftir samstarfi við Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Sveitarfélagið Árborg um könnun á nýjum málum sem bárust barnaverndarnefndum sveitarfélaganna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Kannaðar verði ástæður tilkynninganna og félagslegar og fjárhagslegar aðstæður fjölskyldna barnanna. Enn fremur leggur velferðarvaktin áherslu á að vinnuhópur um félagsvísa haldi sérstaklega til haga mælistikum sem gefa haldgóðar upplýsingar um aðstæður barna.

Velferðarvaktin beinir þeim tilmælum til félags- og tryggingamálaráðuneytis að skráning mála hjá barnaverndarnefndum verði betur samræmd svo raunhæfur samanburður sé mögulegur og skýr mynd fáist af fjölda barnaverndarmála sem eru í vinnslu hjá hverri nefnd á hverjum tíma.

Úttekt velferðarvaktarinnar á stöðu félagsþjónustunnar í sveitarfélögunum frá mars 2009 hefur leitt í ljós að sveitarfélögin hafa ýtt úr vör margþættum aðgerðum til að draga úr alvarlegum afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin. Mikilvægt er að þau haldi þessu góða starfi áfram og gæti þess að fyrirsjáanlegur niðurskurður komi ekki niður á barnaverndarstarfinu og það verði frekar styrkt. Enn fremur leggur velferðarvaktin áherslu á að almenn þjónusta við börn verði ekki skert á krepputímum, hvorki af hálfu ríkis né sveitarfélaga.“

3. Umræða um sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar í kjölfar efnahagshrunsins

Á fundinn mætti Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, ásamt Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, aðstoðarmanni ráðherra, og Bolla Þór Bollasyni ráðuneytisstjóra. Ráðherra þakkaði fyrir tækifærið til að koma til fundar við stýrihóp velferðarvaktarinnar og lagði fram yfirlit yfir hugsanlegar sparnaðaraðgerðir á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis þar sem fram komu annars vegar almenn viðmið og á hinn bóginn beinar tillögur að niðurskurði. Hann greindi frá því að stefnt væri að því að heildarumgjörð sparnaðartillagna ríkisstjórnarinnar verði tilbúin í næstu viku. Ráðherra ræddi meðal annars um mikilvægi þess að niðurskurður í einu kerfi leiði ekki til aukins kostnaðar í öðru kerfi, hvort sem það lendi á ríki eða sveitarfélögum. Ráðherra sagðist þiggja öll góð ráð frá stýrihópnum, hann teldi velferðarvaktina mikilvæga á þessum umbrotatímum, samræður við stýrihópinn séu af hinu góða og fulltrúar hans væru mikilvægir tengililiðir.

Stýrihópurinn telur ekki mögulegt að leggja mat niðurskurðartillögur án þess að heildarmynd tillagna ríkisstjórnarinnar liggi fyrir. Enn fremur sé nauðsynlegt að skoða hverja tillögu út frá því hvernig þær birtast einstaklingum og fjölskyldum þar sem heildarmyndin sé tekin með og samspil allra þátta. Lagt var til að nálgast þessa umræðu út frá því hvað megi alls ekki skera niður.

GÓ, fulltrúi Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar, tók að sér að afla upplýsinga, í formi útreiknaðra dæma, um það með hvaða hætti framlagðar tillögur hafi áhrif á bótagreiðslur og ráðstöfunartekjur.

Samþykkt að fela fulltrúum menntamála-, dómsmála- og heilbrigðisráðuneytanna í stýrihópnum að kanna hvort ráðuneyti þeirra geti lagt fram sambærilegt yfirlit og félags- og tryggingamálaráðherra lagði fram á fundi þessum.

Samþykkt að stýrihópurinn fjalli sérstaklega um þá sem standa verst í samfélaginu og hefji vinnu að ályktun um stöðu þeirra.

4. Önnur mál

a) Samþykkt að IB sendi stýrihópnum upplýsingar frá fagteymi Barnaverndarstofu, Stuðla, SÁÁ og Barna- og unglingageðdeild um hæfni foreldra í kreppunni.
b) Samþykkt að IB sendi stýrihópnum póst frá Gerði Árnadóttur, heilsugæslulækni og formanni Þroskahjálpar, um sparnað í heilsugæslunni.
c) Upplýst að formenn vinnuhópanna munu funda í næstu viku og fjalla meðal annars um verkefni hópanna í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, fundurinn verður 22. júní kl. 15–17 hjá BHM.

Næsti fundur stýrihópsins verður föstudaginn 19. júní 2009 kl. 13.15–15.15 fundarsal hjá Öryrkjabandalagi Íslands Hátúni 10, Rvík.

Síðasti fundur hópsins fyrir sumarleyfi verður föstudaginn 26. júní 2009 kl. 13.15–15.15 hjá BSRB, Grettisgötu 89, Rvík.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta