Hoppa yfir valmynd
13. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 13. október



Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðrún Björk Bjarnadóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Héðinn Unnsteinsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Stefán Stefánsson, tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir tiln. af Reykjavíkurborg, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Ingibjörg Broddadóttir og Margrét Erlendsdóttir.

Í upphafi bauð formaður Rafn Sigurðsson nýjan fulltrúa fjármálaráðuneytis í velferðarvaktinni velkominn í hópinn en hann tekur við af Birni Ragnari Björnssyni sem tekið hefur til starfa á Hagstofunni.

1. Kynning á endurskipulagningu á greiðslubyrði og skuldum heimilanna

Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur og ráðgjafi í félags- og tryggingamálaráðuneyti, kynnti tillögurnar sem gert er ráð fyrir að komi til framkvæmda sem fyrst, hugsanlega þann 1. nóvember nk. Frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra er á lokastigi og verður lagt fyrir Alþingi innan skamms.

Farið var yfir úrræðin sem sjá má nánar um á heimasíðu ráðuneytisins /malaflokkar/husnaedismal/frettir/nr/4519

Í framhaldi var meðal annars rætt um mikilvægi þess að fólk sé upplýst um aðgerðirnar og að hverjum og einum verði sent bréf frá hlutaðeigandi lánastofnun með útreikningi á stöðu sinni. Lagt var til að velferðarvaktin beini því til lánastofnana.

2. Fundargerð

Fundargerð 16. fundar lögð fram og samþykkt. Ítarlegir minnispunktar frá sama fundi voru einnig lagðir fram.

3. Starfið framundan

Samþykkt að fylgja eftir niðurstöðum vinnudagsins hvað varðar bæði innra starf vaktarinnar og verklagið út á við. Formaður greindi frá að félags- og tryggingamálaráðherra hafi samþykkt tillögu velferðarvaktarinnar um að forstjóri Vinnumálastofnunar taki sæti í stýrihópnum. Ráðherra samþykkti einnig tillögu stýrihópsins um að hann sendi hópnum nýtt skipunarbréf í samræmi við umræðuna á vinnufundinum. Einnig rætt um samþykkt vinnufundarins um að efna til samráðsfundar hið fyrsta með lykilfólki í tengslum við ungt fólk í atvinnuleit í samstarfi við rýnihóp félags- og tryggingamálaráðherra um sama efni, en í þeim hópi sitja tveir fulltrúar velferðarvaktarinnar, þeir Héðinn og Stefán.

4. Önnur mál

  1. Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun 2010
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur umsjón með verkefninu og umsóknaferlinu. Hámarksfjárhæð sem hægt er að sækja um til ýmissa verkefna er samtals 120.000 evrur eða um 22 m.kr. Umsjón með verkefninu hefur Linda Rós Alfreðsdóttir. Félags- og tryggingaráðuneytið óskar eftir því að vinnuhópur velferðarvaktarinnar um þá sem standa höllum fæti taki þátt í samráðshópi um þetta verkefni. Stýrihópurinn fagnar því að óskað sé eftir liðsauka frá velferðarvaktinni og samþykkir fyrir sitt leyti að vinnuhópurinn taki þetta verkefni að sér. Vilborg Oddsdóttir, formaður vinnuhópsins, brást vel við þessu erindi.
  2. Ráðgjöf, sjálfsstyrking og menntunarúrræði fyrir langtímaatvinnulaust fólk yngra en 30 ára í Reykjavík
    Stefán Stefánsson greindi frá því að hann hefði gert könnun meðal símenntunarstöðvanna, 15 aðila, og var niðurstaðan að fólki fannst það geta lagt meira af mörkum, en þarna starfa menntaðir starfs- og námsráðgjafar. Verið sé vinna mjög gott starf víða sem nýta mætti betur. Stefán kynnti í framhaldi hugmynd að verkefni sem felst í því að sem allra fyrst verði hrint úr vör tilraunaverkefnií Reykjavík þar sem reynt verði að nýta betur krafta hinna ýmsu aðila sem vinna úti á akrinum gegn neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis. Reynt verði að ná fyrst til aðila sem starfa að beinu fræðslu- og ráðgjafastarfi og byggja starfsemi sína fyrst og fremst á opinberum framlögum frá ríki og sveitarfélögum. Jafnframt beini Vinnumálastofnun eins miklum upplýsingum og lög/reglur heimila til hæfra aðila sem lagt geta faglega vinnu af mörkum. Ráðinn verði verkefnastjóri í hlutastarf og yfirumsjón með verkefninu yrði í höndum velferðarvaktarinnar. Húsnæði og starfskraftar samstarfsaðila verði samnýtt svo sem kostur er og verkefnið kynnt rækilega.

    Samþykkt að skoða tillöguna betur og taka hana aftur upp í stýrihópnum.
  3. Félagsvísahópurinn
    Ráðning starfsmanns er á lokastigi. Alls bárust 38 umsóknir og voru tekin viðtöl við 13 afar efnilega umsækjendur.
  4. Morgunverðarfundur um efnahag heimilanna
    Í ljósi þess að aðgerðir stjórnvalda eru að komast til framkvæmda er samþykkt að vinnuhópurinn um fjármál heimilanna taki þráðinn upp á ný og hugi að morgunverðafundi um aðgerðir stjórnvalda vegna greiðslubyrði heimilanna.
  5. Aðgerðir í menntamálaráðuneyti
    Stefán greindi frá því, með vísan til samþykktar ríkisstjórnarinnar frá því í mars síðastliðnum, að í menntamálaráðuneyti hafi verið ýtt úr vör fyrirspurnum hjá sveitarfélögunum varðandi leik- og grunnskólana og varðandi íþrótta- og æskulýðsmál, en ráðuneytið hefur einnig átt samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað þetta varðar. Gert er ráð fyrir stöðuyfirliti nóvember næstkomandi. Óformlegar upplýsingar benda til þess að ástandið sé betra í haust en í fyrrahaust í grunnskólunum. Einnig hefur verið kallað eftir upplýsingum frá framhaldsskólunum.
  6. Hlutverk velferðarvaktarinnar og umboð
    Héðinn lagði áherslu á í ljósi væntanlegs nýs skipunarbréfs ráðherra til vaktarinnar að þar kæmi fram skýrt hlutverk, markmið og umboð vaktarinnar.Hann lagði einnig til að kannað yrði hvort nefndin fengi umboð sitt frá ríkisstjórninni þar sem hún ætti betur heima undir miðlægri stjórn á einum stað hjá forsætisráðuneyti.

Í lok fundar minntist Héðinn Unnsteinsson óvænts og hörmulegs fráfalls Guðjóns Magnússonar sem var mikils virtur fyrir störf sín bæði innan lands og utan.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta