Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölgun barnaverndartilkynninga svipuð og undanfarin ár

Tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum samkvæmt nýrri athugun Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd. Engar vísbendingar eru um að tilkynningum hafi fjölgað í kjölfar kreppunnar.

Þetta er niðurstaða nýrrar úttektar sem unnin var af rannsóknasetrinu fyrir velferðarvaktina. Velferðarvaktin sem starfar á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins óskaði eftir úttektinni í kjölfar umræðu í fjölmiðlum um verulega aukningu tilkynninga til barnaverndanefnda og ályktana í þá veru að aukningin tengdist áföllum í efnahagslífinu og vaxandi atvinnuleysi. Fjölgun tilkynninga fyrri hluta ársins 2009 var talin gefa til kynna að vaxandi hópur barna byggi við alvarlegan vanda. Velferðarvaktin taldi ekki unnt að draga óyggjandi ályktanir um ástæður fjölgunarinnar og óskaði því eftir úttektinni.

Heildarfjöldi tilkynninga til barnaverndarnefnda á árunum 1996-2008, samkvæmt ársskýrslum Barnaverndarstofu.

Helstu niðurstöður Rannsóknasetursins í barna- og fjölskylduvernd eru þessar:

  • Á landinu öllu hefur tilkynningum til barnaverndar á árunum 2005-2009 fjölgað um 20-32% á fyrstu sex mánuðunum hvers árs nema árið 2008 þegar þeim fækkaði.
  • Sú fjölgun sem varð á tilkynningum til barnaverndar fyrri hluta árs 2009 er því sambærileg við fjölgun á undanförnum árum, að frátöldu árinu 2008.
  • Ekkert í gögnum bendir til þess að fjölgun tilkynninga fyrri hluta árs 2009 sé afleiðing efnahagsþrenginga eða aukins atvinnuleysis í kjölfar efnahagskreppunnar. Svo virðist sem ástæður hennar séu þær sömu og fyrir aukningu undanfarin ár.
  • Samkvæmt sískráningu er ekki að sjá meginbreytingar milli ára á eðli þess vanda sem tilkynntur er eða hverjir það eru sem tilkynna til barnaverndar á fyrstu mánuðum áranna 2005-2009.

Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd segir í skýrslu sinni að fullt tilefni sé til að ætla að tilkynningum um börn sem þurfi á aðstoð barnaverndar að halda muni halda áfram að fjölga og álag á starfsfólk í þessum málaflokki aukast enn frekar. Sú spurning hljóti að vakna hvort fjölgunin verði viðvarandi og einnig hvort ætla megi að áhrifa efnahagsþrenginga muni gæta í enn frekari fjölgun tilkynninga.

Fram kemur í skýrslunni að atvinnuleysi, fátækt og viðkvæm félagsleg staða einkenni stærstan hluta þeirra fjölskyldna sem barnavernd aðstoðar. Þá sé vitað að um 40% fjölskyldna sem barnavernd aðstoðar búi við efnahagslega erfiða stöðu þar sem foreldrar eru heimavinnandi, öryrkjar eða atvinnulausir. Að mati skýrsluhöfundar veldur stöðug fjölgun barnaverndartilkynninga því að ekki sé unnt að skera niður fé til barnaverndarstarfs. Miklu fremur sé tilefni til að auka fjárveitingar, efla fagfólk og leggja áherslu á að aðstoðar fjölskyldur enn frekar, á meðan ástand í atvinnu- og efnahagsmálum ógnar velferð barna.

Í lok skýrslunnar eru settar fram tillögur til velferðarvaktarinnar um aðgerðir. Þar er meðal annars lagt til að reglubundin skráning upplýsinga hjá barnaverndarnefndum verði aukin og bætt við upplýsingum um atvinnustöðu/fjölskyldustöðu beggja foreldra barna sem tilkynnt er um og könnun.

Velferðarvaktin samþykkti á fundi sínum 24. nóvember síðastliðinn að fylgjast áfram vel með aðstæðum barna á næstu misserum, meðal annars með því að halda til haga þróun í tilkynnningum til barnaverndarnefnda.

Nánari upplýsingar veitir Lára Björnsdóttir, formaður stýrihóps velferðarvaktarinnar, í síma 899-4019.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta