Hoppa yfir valmynd
1. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ályktun Velferðarvaktar til félags- og tryggingamálaráðherra

Til félags- og tryggingamálaráðherra

Á fundi stýrihóps Velferðarvaktarinnar 24. nóvember sl. voru lagðar fram niðurstöður málstofu sem vaktin efndi til í Virkjun í Reykjanesbæ 12. nóvember og var samþykkt á fundinum að senda félags- og tryggingamálaráðherra ályktun um úrræði og aðgerðir fyrir ungt fólk í atvinnuleit.

Velferðarvaktin beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, að láta ekki ungt fólk í atvinnuleit afskiptalaust og komið  verði í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að það einangrist í aðgerðaleysi. Samfélaginu ber skylda til að tryggja þeim ungmennum sem eru í dag utan vinnumarkaðar og skóla tækifæri og aðhald til að þau megi öðlast þá færni sem nauðsynleg er til að vera virkur þátttakandi  á vinnumarkaðnum.   

Mörg ungmenni hafa ekki afmarkað áhugasvið, því verða úrræðin að vera fjölbreytt og skapa sem flestum áhugaverð tækifæri og mikilvægt er að nálgast þau  út frá þeirra eigin forsendum. Jákvæð hvatning til virkni með fjölbreyttum tækifærum og sveigjanlegri nálgun gagnvart ungmennum   er því mikilvæg .

Varast ber að fjalla um ungt fólk í atvinnuleit sem einn hóp. Það hefur ólíkan  bakgrunn,  þarfir og fjölbreytt áhugasvið. Ungt fólk á það sameiginlegt að hafa afar takmarkaða reynslu af vinnumarkaðnum. Þetta reynsluleysi greinir unga fólkið m.a frá öðrum sem eru í atvinnuleit.

Það þarf að beita einstaklingsmiðaðri nálgun greina styrkleika þeirra, félagslega stöðu og menntun. Huga verður sérstaklega að þeim sem hafa einungis grunnskólapróf, sníða sérstök úrræði þeim til handa og fjölga verður menntunartækifærum, meðal annars í verklegu námi og listsköpun.

Öllum atvinnulausum ungmennum verður að standa til boða einstaklingsmiðuð ráðgjöf, í daglegu tali kallað „maður á mann“. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að samnýta alla krafta, þar með talda ráðgjafa Vinnumálastofnunar, félagsþjónustu sveitarfélaganna og þriðja geirans.

Fjölga verður ráðgjöfum Vinnumálastofnunar og styrkja þá í starfi. Enn fremur ætti foreldrum og fjölskyldum ungmenna sem eru í atvinnuleit að standa til boða sérstök fjölskylduráðgjöf, til dæmis símaráðgjöf.

Virkja verður unga fólkið sjálft á öllum stigum til samstarfs við að byggja upp og útfæra úrræðin í anda jafningjafræðslu og við að kynna þau, en öll úrræði og tækifæri sem standa ungmennum í atvinnuleit til boða verður að kynna rækilega með öllum tiltækum ráðum.

Greina verður þau úrræði sem hafa tekist vel, svo sem Fjölsmiðjuna og Nýttu kraftinn, og nota þau sem fyrirmyndir við útfærslu á tilboðum fyrir ungmenni í atvinnuleit og fjölga náms- og starfsþjálfunarsamningum Vinnumálastofnunar.

Efla þarf og styrkja samstarf ríkis, sveitarfélaga og þriðja geirans á þessum vettvangi.

Með góðri kveðju, fyrir hönd stýrihóps Velferðarvaktarinnar,

Lára Björnsdóttir

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta