Áhrif og afleiðingar kreppunnar á líðan og velferð barna
Umræðu- og upplýsingafundur á vegum velferðarvaktarinnar um
áhrif og afleiðingar kreppunnar á líðan og velferð barna
Haldinn í húsakynnum Barnaverndarstofu Borgartúni 21 í Reykjavík,
23. febrúar 2010 kl. 10.00–12.00.
Lykilfólki um velferð barna var boðið til fundarins og mættu allir sem fengu boð: Ólafur Guðmundsson, yfirlæknir Barna- og unglingageðdeildar, Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Hrefna Haraldsdóttir, foreldraráðgjafi hjá Sjónarhóli, Jórunn Magnúsdóttir, frá Vímulausri æsku/Foreldrahúsum, Ragnheiður Sigurjónsdóttir, hjá Fjölskyldumiðstöðinni, Halldóra D. Gunnarsdóttir, Barnavernd Reykjavíkur, Stefán Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar, Geir Gunnlaugsson landlæknir, Margrét María Sigurðardóttir, Umboðsmaður barna, Guðrún Helga Sederholm, formaður fagdeildar fræðslu- og skólafélagsráðgjafa, Fríður Reynisdóttir, frá Félagi náms- og starfsráðgjafa, Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri í Reykjanesbæ, Ragnheiður Thorlacius, félagsmálastjóri í Árborg, og María Kristjánsdóttir, félagsmálastjóri í Hveragerði. Auk þess mættu Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Kristján Sturluson, formaður hóps velferðarvaktarinnar um ungt fólk og framkvæmdastjóri RKÍ, Valgerður Halldórsdóttir, formaður barnahóps velferðarvaktarinnar og fulltrúi BHM, Ingibjörg Broddadóttir og Þorbjörn Guðmundsson, starfsmenn vaktarinnar, og Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi félags- og tryggingamálaráðuneytis.
Geir Gunnlaugsson landlæknir sagði að „allt sýnist með ró og spekt“. Hann hefur þó áhyggjur af framtíðinni þar sem hvert ár sé mikilvægt í lífi barna og fátækt í æsku geti haft varanlegar afleiðingar. Hann benti á að margar rannsóknir styðji þetta. Lagði hann áherslu á að styðja þurfi við fjölskyldur og brýna þurfi stjórnvöld.
Stefán Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar, greindi frá því að starfsfólk stöðvarinnar hafi ekki orðið vart við alvarlegar afleiðingar efnahagsþrenginganna á fjárhag fjölskyldna. Ljóst væri þrátt fyrir það að þeir sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu standi enn verr í dag og unga fólkið sem er að verða foreldrar í fyrsta sinn á þessum tímum nær ekki að fóta sig. Það að eignast fatlað barn skerði meðal annars tekjumöguleika þeirra. Sveitarfélögin séu ekki eins vel mönnuð og áður var, meðal annars til að sinna sérkennslu. Framtíðarhorfur séu ekki bjartar. Einnig nefndi Stefán að Greiningarstöðin hafi misst þrjá öfluga starfsmenn undanfarið þar sem makar hafi orðið atvinnulausir og fjölskyldurnar flust af landi brott.
Guðrún Helga Sederholm, félags- og námsráðgjafi, sagði frá póstlistakönnun meðal 15 félagsráðgjafa í skólum. Tæplega helmingur þeirra sem svöruðu greindi frá samdrætti í þjónustu. Þá finnst skólafélagsráðgjöfunum skólastjórar tilkynna of seint vanrækslu barna. Álag hefur aukist á starfsmenn og samskipti milli foreldra og skóla eru mun tíðari en áður. Handleiðsla starfsmanna þyrfti að vera meiri.
Ragnheiður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður á Fjölskyldumiðstöðinni, greindi frá fjölgun nýrra mála:
- 2007 voru þau 189
- 2008 voru þau 249
- 2009 voru þau 309
Á árinu 2010 hafi 66 ný mál borist en á sama tíma í fyrra hafi þau verið 36. Bak við hvert mál geti verið margir einstaklingar sem þurfa sérstaka þjónustu. Fjölskyldumiðstöðin sé samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Reykjavíkurborgar og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Fjölskyldumiðstöðin sé í anda forvarna og markmið hennar sé að leggja fjölskyldum og einstaklingum lið sem fyrst þegar vandi steðji að á meðan þær/þeir búi yfir styrk og von um að vinna á honum af eigin rammleik. Þeir sem vísi til Fjölskyldumiðstöðvarinnar séu meðal annars þjónustumiðstöðvar Velferðarsviðs, skólar, Barnavernd Reykjavíkur og heilsugæslustöðvar. Einnig geti einstaklingar og fjölskyldur leitað sjálfir eftir aðstoð með einu símtali. Miðstöðin sinni börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra. Fleiri atvinnulausir foreldrar séu meðal skjólstæðinga en áður og einnig hafi skilnaðarmálum fjölgað. Meiri spenna sé á heimilum, meira vonleysi og meiri depurð hjá ungu fólki og meira álag á börnin. Meira sé um að ungt fólk og einstæðir foreldrar sæki þjónustu en þeir hafi þó alltaf verið fjölmennur hópur. Ungir foreldrar leiti fyrr eftir aðstoð með uppeldi og einnig eftir stuðningi við flókin stjúptengsl. Aukning hafi orðið á að fólk af erlendum uppruna leiti til Miðstöðvarinnar. Atvinnumissir og óvissa í samfélaginu valdi því kvíða og hræðslu um að geta ekki séð börnum sínum farborða. Þessi hópur samfélagsins hafi minna stuðningsnet en þeir sem hafi stórfjölskylduna nálægt sér. Þetta sé viðkvæmur hópur og þegar þrengir að sé vert er að huga að honum.Fleiri tilvísanir hafi komið frá skólum er áður og má greinilega rekja það til færri stuðningsúrræða í skólunum. Ragnheiður lagði áherslu á aukna samvinnu og samstarf stofnana sem vinna að forvörnum með fjölskyldum og börnum þeirra, þar sé reynsla og þekking sem nýta þurfi betur.
Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri í Reykjanesbæ, sagðist finna mjög vel fyrir auknu álagi. Hún hafi miklar áhyggjur af álagi á starfsfólk. Foreldrar, oft af erlendum uppruna, taki börnin heim, það noti síður leikskólana og dagmæðrum fækkar, enda atvinnuleysi hátt á svæðinu. Nægt pláss sé í leikskólum. Atvinnuleysi er 15,5% og 20% meðal 16–24 ára. Fleiri nemendur fái skólamáltíðir en áður. Frístundaskóli sveitarfélagsins sé „ekki svipur hjá sjón“, þar hafi niðurskurði verið beitt enda ekki um lögbundna þjónustu að ræða. Rætt væri um að verið væri að skapa nýja kynslóð lyklabarna. Barnaverndarmálum hafi fjölgað um 4,6% þrátt fyrir að tilkynningum frá lögreglu hafi fækkað vegna barna, öðrum tilkynningum hafi fjölgað, sérstaklega vegna vanrækslu og ofbeldis, þó ekki kynferðislegs ofbeldis. Hún sagði frá samtaka-hópnum sem taki á aukningu ofbeldis, aukinni tóbaksnotkun og landasölu, ofbeldis í vefmiðlum og aukningu í sölu fíkniefna. Fjárhagsaðstoð hafi vaxið umtalsvert og ekki síst meðal þeirra sem fá aðstoð lengur en sex mánuði, sem var mjög sjaldgæft áður. Kominn sé nýr hópur notenda sem hafi verið atvinnulausir lengur en þrjú ár. Sálfræðiaðstoðin sem veitt hafi verið á vegum sveitarfélagsins sé sprungin og vaxandi fordómar séu í garð fólks af erlendum uppruna. Mikil ásókn sé í úrræði fyrir geðfatlaða, sem staðfesti að úrræðið nýttist vel í kreppunni. Að lokum lagði Hjördís áherslu á að hin opinberu kerfi vinni betur saman, ráðgjafarþjónusta þurfi að vera nær fólkinu, tryggja þurfi tannheilbrigði, taka þurfi á skuldavanda og skapa atvinnutækifæri.
Ragnheiður Thorlacius, félagsmálastjóri í Árborg, hóf mál sitt á því að fjalla um aukið atvinnuleysi, ekki síst meðal ungs fólks. Þjónustusvæði félagsþjónustunnar væri lágtekjusvæði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefði aukist umtalsvert undanfarið. Þrátt fyrir þetta ástand væri staða barna almennt góð á svæðinu, meðal annars séð frá sjónarhóli barnaverndar og skólastarfi, þar með talin skólahjúkrun, en einstök mál væru þyngri en áður, einkum hjá þeim fjölskyldum sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu. Aukinn kvíða megi merkja hjá börnum sem standi illa og hafi lélegt stuðningsnet. Frístundaúrræðum fyrir börn hafi ekki fækkað en leikskólapláss séu ekki öll fullnýtt þar sem fjármagn vanti til að ráða fólk. Almennt sé staðan góð, tómstundir og íþróttastarf í blóma en erfiðara sé er með innheimtu. Stefna bæjarfélagsins sé að setja börn og barnafjölskyldur í öndvegi. Þörf sé á endurskipulagningu en hún þurfi ekki að leiða til versnandi stöðu barna og barnafólks heldur þvert á móti. Þörf sé á að endurskipuleggja þjónustu en það þurfi ekki að leiða til versnandi stöðu barna, heldur þvert á móti „getum við bætt þjónustu með því að horfa gagnrýnum augum á núverandi skipulag“. Það hafi orðið skerðing á stöðuhlutföllum skólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólanum en ekki hafi borist tilkynningar um að það hafi bitnað á nemendum. Nemendum hafi ekki fækkað sem fá skólamáltíðir. Minnkandi vinnuálag á foreldra geti haft góð áhrif á börnin. Starfsmenn hafi sýnt almennan skilning á launalækkunum í kjölfar hrunsins en áhyggjur séu af skólamálum þar sem 40–60% útgjalda sveitarfélaga fara til skólamála.
Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, kynnti í upphafi máls síns að 17 aðilar standi að rekstri stofunnar. Við efnahagshrunið hafi styrkur samtakamáttarins komið vel í ljós og í kjölfarið hafi starfsmönnum verið fjölgað úr sex/sjö í 30. Mikil vinna hafi verið lögð í að þjálfa starfsfólk. Ráðgjafarstofan fékk stærra rými við Hverfisgötu í Reykjavík og nú geti fólk fengið viðtal án þess að hafa fyrst pantað tíma, en það sé mikið notað. Fjölmennasti einstaki hópur notenda Ráðgjafarstofunnar séu einstæðar mæður, en undanfarið hafi hjónum með börn sem leita ráðgjafar fjölgað umtalsvert. Ráðgjafarstofan njóti trausts fólksins sem finnist það brennt af samskiptum við fjármálastofnanir. Mikil reiði komi fram í viðtölum og finnist fólki ósanngjarnt hvernig komið sé fyrir því fjárhagslega. Ein algengasta orsök hjónaskilnaða að mati Ástu séu greiðsluerfiðleikar, en oft komi fram í viðtölum að annar aðilinn hafi ekki vitað af fjárfestingu makans, sem hafi átt þátt í því að fjármál fjölskyldunnar séu komin í óefni. Notendur tali um að taka börnin úr ýmsum „prógrömmum“, sem þau hafa tekið þátt í, vegna fátæktar. Greiðsluerfiðleikar hafi áhrif á fjölskyldulíf barnafólks og afleiðingar komi oft fram eftir á. Stofan fái nú til sín raunveruleg fórnarlömb hrunsins og úrræðin sem boðið er upp á séu mjög flókin. Það sé hlutverk Ráðgjafarstofunnar að leiðbeina fólki gegnum þetta og þjónustan sé veitt á endurgjalds. Starfsfólkið finni fyrir miklu þakklæti fólks fyrir ráðgjöfina sérstaklega sem unnt sé að fá „hér og nú“.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, greindi frá því að stofan hafi á síðastliðnu ári leitast við að kortleggja afleiðingar hrunsins eins og þær birtast í barnaverndarmálum. Starfsmenn heimsóttu allar barnaverndarnefndir landsins á tímabilinu mars–júní 2009 og kom í ljós veruleg fjölgun barnaverndartilkynninga. Sú fjölgun hélt áfram þótt dregið hafi úr henni þegar líða tók á árið. Álag hafi aukist verulega á starfsfólk, einkum á suðvesturhorninu. Hann sagði að áhrif kreppu á börn kæmu ekki fram á einni nóttu, heldur síðar. Bragi lagði fram tvær tillögur til félags- og tryggingamálaráðuneytis:
- Farið verði í sérstakt átak gagnvart viðkvæmustu/veikustu fjölskyldunum, svo sem fjölskyldum þar sem foreldrar hafi sjálfir í æsku verið undir eftirliti barnaverndar. Áhugi sé á að fara af stað með tilraunaverkefni til að halda utan um þessar fjölskyldur sérstaklega, en börn í þeim skipti tugum.
- Efla foreldrafærni með vísan til aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar frá 2007 í málefnum barna. Átak verði gert í uppeldismálum með námskeiðum og annarri fræðslu sem foreldar eigi greiðan aðgang að. Markhópar yrðu foreldrar fyrsta barns, foreldrar unglinga og barna með sérstakan vanda. Fræðslan hafi mikilvægt almennt forvarnagildi þar sem hún sé löguð að ólíkum fjölskyldum. Hún þurfi bæði að vera sértæk og almenn.
Meiri umræða um uppeldismál verði að fara fram í samfélaginu.
Ólafur Guðmundsson, yfirlæknir Barna- og unglingageðdeildar Landspítala, vitnaði til niðurstaðna kannana sem gerðar hafa verið allt frá 1992 (á seinni árum á vegum Rannsókna og greiningar). Tíminn skipti miklu máli í lífi barnanna og foreldrahæfni minnki undir streitu og álagi. Einnig verði að gæta að verndandi þáttum í umhverfi barna, svo sem uppbyggilegum tómstundum. Ólafur hafi því verulegar áhyggjur af niðurskurði sveitarfélaga/skóla. Fjölgun tilvísana og bráðamála til BUGL hafi farið stigvaxandi undanfarið og var 16% aukning á innlögnum milli 2008 og 2009 og samtímis varð 21% stytting á meðallegutíma. Ný bráðamál voru 227 allt árið 2009 en voru komin í 64 í janúar og febrúar á þessu ári. Flest börn fái eingöngu göngudeildarþjónustu en þar hafi biðlisti lengst í vetur. Barna- og unglingageðdeildin hafi ekki þurft að fara í beinan niðurskurð meðan gert sé ráð fyrir 9% niðurskurði á Landspítala. Þó hafi starfsfólki fækkað lítillega þar sem ekki hafi verið ráðið fyrir þá sem hafi hætt og ekki að fullu bætt fyrir þá sem fari í fæðingarorlof. Þá sé í fyrsta sinn framundan sumarlokun á göngudeild og lokun barnadeildar verði lengri en áður.
Hrefna Haraldsdóttir, foreldraráðgjafi á Sjónarhóli, sinnir einkum börnum með sérþarfir og fjölskyldum þeirra. Hún sagði foreldra óörugga gagnvart framtíðinni, ekki síst vegna framtíðar fatlaðra barna sinna. Þessi hópur missti af góðærinu. Það sé minna þol á vinnumarkaði gagnvart fjölskylduábyrgð starfsmanna og álag á fjölskyldur aukist þá verulega. Hún nefndi einnig dæmi um að faðir sé ráðinn til starfa erlendis og móðir sé ein með barn eða börn heima. Mörg fötluð börn þoli mjög illa flutning eða aðrar breytingar á högum. Álag sé vaxandi á starfsfólk og þráðurinn styttri í að upp úr sjóði. Minna utanumhald sé nú vegna barna með hegðunarvandamál, minna þol gagnvart þeim og foreldrar eyði meiri tíma með barni sem sé kostur en fjölskyldur hafi minni peninga. Stofnanir þurfi að vinna betur saman en málin séu þyngri og margþættari en áður.
Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla, greindi frá símavakt samtakanna en mikið álag sé á henni. Í ljós hafi komið vaxandi erfiðleikar í samskiptum heimila og skóla og í skóla. Í febrúar kom mikið af eineltismálum til þeirra en ekki sé vitað hvort það sé sérstaklega vegna kreppunnar eða átaks sem samtökin stóðu fyrir. Eineltismál komi upp alls staðar á landinu og foreldrar hafi miklar áhyggjur af sparnaði í skólum sem muni óhjákvæmilega bitna á þjónustu við börnin. Aukið samstarf sé nauðsynlegt bæði við foreldra og einnig milli stofnana þar sem foreldrar séu einnig hafðir með í ráðum. Hrefna fagnaði nýjum grunnskólalögum og ákvæðum um skólaráð. Hún greindi frá SAFT-Samfélag, fjölskylda og tækni, sem sé vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi og sagði að börnin væru orðin ábyrgari netnotendur. Mikil eftirspurn sé eftir ýmsum námskeiðum og fyrirlestrum. Stjórnir foreldrafélaga leiti í auknum mæli til samtakanna varðandi námskeið og fyrirlestra.
Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, forstöðumaður Barnaverndar Reykjavíkur, upplýsti um ýmsar aðgerðir á vegum borgarinnar í kjölfar kreppunnar, meðal annars hafi aðgerðateymi Velferðarsviðs verið stofnað og börnin í borginni sem sé á forræði skólasviðs. Þá hafi verið ráðnir fimm sérstakir virkni- ráðgjafar á þjónustumiðstöðvunum til að sinna ungu atvinnulausu fólki 18–25 ára, en við þessum hópi blasi langtímaatvinnuleysi. Nýr hópur notenda sé kominn í ljós sem fái fjárhagsaðstoð, þetta séu fjölskyldur sem náðu endum saman fyrir kreppu. Hjá barnavernd varð 5% aukning virkra mála milli 2008 og 2009, en 13% aukning tilkynninga. Enn fremur hafi tilkynningum á hvert barn fjölgað. Vanræksla sé algengasta ástæða tilkynningar. Starfsmenn bæði félagsþjónustu og barnaverndar greini frá þyngri málum og frá skólum berist alvarlegri tilkynningar og bráðamál og miklar áhyggjur séu af börnum af erlendum uppruna. Vistheimili borgarinnar hafi verið fullnýtt (120%). Áhyggjur séu af úthaldi stofnana samfélagsins sem sinni fjölskyldum í erfiðleikum. Hún nefndi að lokum að nauðsynlegt sé að vinna skynsamlega úr málum á fyrri stigum, við „getum ekki látið öll mál barna verða barnaverndarmál“.
Jórunn Magnúsdóttir, frá Vímulausri æsku/Foreldrahúsum, sagði samtökin sinna börnum í vanda og á seinni árum meira börnum með „hegðunarvandamál“ sem og börnum sem séu að hefja neyslu vímuefna og ungmennum sem séu lengra leidd í neyslu. Í fyrra komu til samtakanna um 250 börn sem ekki voru í neyslu á sjálfsstyrkingarnámskeið og í hverjum mánuði komu á milli 30 og 40 foreldrar í foreldrahópa sem eiga börn í neyslu eða sem hafa verið í neyslu. Þeir fái tilvísanir frá skólum, barnaverndarnefndum og fleirum auk þess sem foreldrar leiti oft sjálfir til samtakanna. Sími sé opinn allan sólarhringinn. Biðlistar séu í öll úrræði sem Foreldrahús geti vísað á, málin hafi þyngst og nauðsynlegt sé að forgangsraða málum. Skortur sé á úrræðum fyrir þennan hóp. Þau hafi þurft að skera niður eins og aðrir. Foreldrar séu oft reiðir og hafi miklar áhyggjur bæði af afgreiðslu mála sinna og fjárhagsáhyggjur séu miklu meiri en áður. Jórunn lagði í lokin áherslu á aukna samvinnu allra sem að þessum málum koma.
Fríður Reynisdóttir, náms- og starfsráðgjafi, upplýsti um 20 manna samstarfsfund náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum. Þar kom fram að aukning hafi orðið á málafjölda hjá náms- og starfsráðgjöfum, hún sé þó ekki veruleg, en málin séu að þyngjast. Þar kom einnig fram að verið sé að skera niður stoðþjónustu innan skóla og hafi starfshlutfall náms- og starfsráðgjafa verið minnkað í nokkrum skólum. Bekkir stækki og skiptitímar séu færri. Þá greindi hún frá könnun á líðan nemenda sem kallast Skólapúlsinn. Könnunin sé lögð fyrir alla nemendur í skólanum frá 6.–10. bekk. Á u.þ.b. tveggja mánaða fresti svari ákveðinn hópur (hver nemandi svarar einu sinni á hverju skólaári) og þá sjáist hvernig staðan sé í skólanum hverju sinni. Þetta sé gott tæki fyrir skólastjórnendur til að fylgjast með stöðu mála í skólanum.
Margrét María Sigurðardóttir, Umboðsmaður barna, hóf mál sitt á að taka undir mjög margt af því sem þegar var sagt á fundinum. Hún nefndi sérstaklega elsta barnahópinn 16–18 ára sem sé hvorki í námi né með atvinnu. Þessi hópur þurfi á verulegri aðstoð að halda. Umboðsmaður greindi frá því að þau séu að endurtaka könnun frá 2003 um líðan barna í skóla. Áhyggjur komu fram gagnvart börnum sem skorti stuðningsnet. Kveikiþráður virðist vera styttri. Umboðsmaður sé að taka saman upplýsingar um hvaða sjóðir það séu sem styrkja börn við margs konar verkefni.
María Kristjánsdóttir, félagsmálastjóri í Hveragerði, upplýsti um aukningu barnaverndartilkynninga, þeim hafi fjölgað milli áranna 2008 og 2009; tilkynningarnar væru fleiri en vegna færri barna. Fjárhagsaðstoð hafi vaxið milli ára undanfarið og einnig væri fjölgun beiðna vegna aðstoðar við að greiða skólamáltíðir. Gjaldskrár hafi víða hækkað í upphafi ársins 2010. Um það bil 10–15 börn fái hafragraut í skóla. Börn séu nú í færri frístundagreinum, en dæmi hafi verið um að börn hafi verið í mjög mörgum greinum sem foreldrar hafi greitt fyrir. Nýju verkefni var ýtt úr vör til að taka á reiðistjórnun og félagsfærni, ART, sem snúi að kennurum, börnum og foreldrum sem tileinka sér nýjar leiðir til að takast á við hegðunarvanda. Námskeiðið standi yfir í 10 vikur. Bráðamálum í skólanum hafi fækkað og sérúrræði síður nauðsynleg og taldi María að það sé að hluta til vegna innleiðingar ART.
Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, kvaðst hafa áhyggjur af 16–18 ára börnum og lagði reyndar áherslu á hópinn 15–25 ára og að mikilvægt sé að huga að vinnu og virkni þeirra næsta sumar og haust.