Hoppa yfir valmynd
9. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 9. mars 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Gissur Pétursson, án tiln., Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Héðinn Unnsteinsson frá heilbrigðisráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Matthías Halldórsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Guðrún Ögmundsdóttir frá menntamálaráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tiln., Ingibjörg Broddadóttir og Margrét Erlendsdóttir.

Fundinn sat einnig Hanna Björnsdóttir, nemi í félagsráðgjöf, hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Fundinn sátu undir 1. lið Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður ráðherra.

Fundinn sátu undir 3. lið Sigríður Jónsdóttir, félagsfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneyti, og Magnús Hákonarson, starfsmaður félagsvísahóps velferðarvaktarinnar.

1. Heimsókn Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra

 Formaður velferðarvaktarinnar bauð ráðherra og aðstoðarmann hans velkomin og sagði að vel færi á því að fá ráðherrann í heimsókn nú þegar vaktin hefði starfað í eitt ár. Starf velferðarvaktarinnar hefði einkennst af samheldni og miklum áhuga þessa fjölmenna hóps með breitt bakland. Í upphafi hefði vaktin aðeins átt að starfa í nokkra mánuði á fyrri hluta árs 2009 en síðan hafi verði ákveðið að hún héldi áfram störfum og á haustdögum 2009 hefðu þrír nýir fulltrúar bæst við. Hún upplýsti að grunnþjónustuhópurinn héldi áfram störfum og að hópurinn hefði sent Jafnréttisstofu greinargerð sína til skoðunar og svar stofunnar hefði þegar borist með góðum ábendingum. Enn fremur hefði hópurinn sent nýrri félagsþjónustunefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga greinargerðina með óskum um að nefndin fari sérstaklega yfir hana og veiti hópnum góð ráð varðandi útfærslu á gátlista í tengslum við forgangsröðum við hagræðingu. Þá sagði Lára að ljóst væri að vaktinni væri ætlað fylgjast með afleiðingum efnahagskreppunnar á einstaklinga og fjölskyldur, en nú væri tímabært að hugleiða nánar hvers væri vænst af henni.

Félags- og tryggingamálaráðherra þakkaði boðið og hóf mál sitt á því að leggja áherslu á að vaktin fylgdist með þróun mála og stuðli að afmörkuðum rannsóknum. Vaktinni sé ekki ætlað framkvæmdahlutverk heldur að fylgjast með og upplýsa stjórnvöld um aðstæður í samfélaginu. Hann undirstrikaði sjálfstæði vaktarinnar og að fólk geti rætt málin óheft á fundum. Enn fremur geti vaktin samþykkt ályktanir um hvaðeina sem hún telur máli skipta án þess að þær séu fyrst bornar undir hann. Síðan vék ráðherra að ástandinu í samfélaginu og að atvinnuleysi fari enn vaxandi. Framan af hafi það bitnað mun meira á körlum en konum, en nú fari að þrengja að í umönnunarstörfum þar sem konur eru fjölmennar. Framundan sé harkaleg forgangsröðun og leitist menn við að hlífa viðkvæmustu hópunum. Einnig sé framundan 10% niðurskurður á fjárlögum sem þýði 12,8 milljarða í félags- og tryggingamálaráðuneyti. Engir einfaldir kostir séu í augsýn. Samhliða séu stjórnvöld með ýmsar aðgerðir í gangi eða á prjónunum og nefndi ráðherra sérstaklega átak gegn atvinnuleysi ungs fólks og starfsendurhæfingasjóð sem ætlað er að styðja sérstaklega við bakið á langtímaatvinnulausum. Hann greindi einnig frá tveimur átaksverkefnum, annað sem felur í sér aðgerðir varðandi ungt atvinnulaust fólk sem unnið er í samstarfi við Rauða kross Íslands og íþróttahreyfinguna (ÍSÍ) og hitt er námskeið í foreldrafærni fyrir seinfæra foreldra sem vel mætti þróa svo það nýtist öðrum, svo sem foreldrum af erlendum uppruna. Þá greindi ráðherra frá undirbúningi samstarfs innflytjendaráðs og Eflingar um átak í atvinnumálum innflytjenda sem eru á atvinnuleysisskrá. Fátækt í landinu sé vaxandi og bæði ríki og sveitarfélög séu að vinna að aðgerðum til að draga úr henni. Ráðherra spurði hvort neyðarstoð þriðja geirans nýttist þeim sem skyldi; hvort hún væri nægjanlega vel skipulögð og samstillt? Þeir sem voru veikir fyrir kreppu standi enn verr, meðal annars innflytjendur. Nauðsynlegt væri að setja saman litlar aðgerðaáætlanir fyrir hvern og einn hóp, þar með talda innflytjendur. Ríkisstjórnin vinnur nú að því að tryggja betur en gert er efnahagslegt öryggi fólks. Húsnæðisverð hafi verið blásið upp og fólk geti ekki lengur staðið í skilum og mikilvægt sé að leita leiða til að fólk geti áfram búið í húsum sínum og afborgunum sé frestað þar til húsnæðisverð lækki. Engin fjölskylda á lágum launum ráði við 18–20 m.kr. verðtryggð lán.

Í framhaldi voru umræður og fyrirspurnir frá stýrihópnum. Ráðherra lagði áherslu á að velferðarvaktin færi ekki að leita að lausnum á hinum margþættu vandamálum sem yrðu á vegi hennar, heldur ætti vaktin að koma upplýsingum um vandann á framfæri við stjórnvöld. Ráðherra lagði til að hann myndi mæta á tvo fundi vaktarinnar fram á vor og yrði annar um aðstæður og líðan barna og hinn um fátækt, meðal annars um stöðu lífeyrisþega.

2. Fundargerð 24. fundar
Fundargerðin var samþykkt.

3. Kynning á vinnu við félagsvísana

Margrét Sæmundsdóttir, formaður vinnuhóps um félagsvísa, kynnti stöðu vinnunnar við félagsvísana.

Félagsvísar eiga að greina velferð, félagslegar aðstæður og heilsufar íbúa í landinu í ljósi þjóðfélagsaðstæðna og fyrirkomulags þjónustu og gera samanburð mögulegan milli ólíkra tímabila og sveitarfélaga. Þeir eiga að styðja við stefnumótun stjórnvalda og þróun þjónustu til framtíðar með hliðsjón af upplýsingum sem þeir veita og draga upp heildarmynd af ástandi þegar best lætur þar sem velferð, heilbrigði, vellíðan og þarfir íbúanna eru í brennidepli. Markmiðið með félagsvísum er að gera stjórnvöldum kleift að:

  • Að fylgjast með afleiðingum efnahagskreppu á íbúa í landinu, m.t.t. kyns, aldurs, fjölskyldugerðar og uppruna.
  • Að grípa til ráðstafana þegar ástæða er til til að tryggja aðgengi að upplýsingum um velferðarmál.
  • Að efla gæðaeftirlit í velferðarmálum.
  • Að efla rannsóknir og samstarf við háskólasamfélagi.
  • Að efla samstarf milli aðila sem vinna að velferðarmálum.

Félagsvísarnir mynda fimm skilgreinda flokka. Grunnhugmyndin að þeim er sótt í skýrslu OECD sem ber yfirskriftina Society at a Glance – OECD Social Indicators. Vinnuhópurinn hefur mótað vísa OECD með tilliti til íslenskra aðstæðna, breytt og bætt inn nýjum vísum. Búið er að setja upp drög að félagsvísum sem lýsa best félags- og efnahagslegum aðstæðum fólks í íslensku samfélagi. Næstu skref eru að ljúka við söfnun talnaefnis og talnavinnslu, túlka gögn og setja fram vísa á myndrænan hátt.

Margrét óskaði fyrir hönd vinnuhópsins um félagsvísa eftir athugasemdum og tillögum frá Velferðarvaktinni um þróun vísanna.

4. Vinnulag stýrihópsins

Meginstefnan í starfi velferðarvaktarinnar er að umræðan sé opin. Það er talið sjálfsagt og jákvætt að einstakir meðlimir greini almennt frá starfi velferðarvaktarinnar og hópastarfinu. Í því sambandi eru meðal annars tilbúnar glærur til notkunar um starf stýrihópsins. Sama á við um öll gögn sem lögð eru fram á fundum nema þau séu sérstaklega merkt sem trúnaðarmál. Fundargerðir stýrihópsins eru öllum aðgengilegar á vefnum sem og allar skýrslur. Á hinn bóginn á umræða um einstök mál á fundum ekki endilega erindi út fyrir þá. Ef meðlimir stýrihópsins eða vinnuhópanna telja nauðsynlegt að greina frá því sem fram hefur komið á fundum eða í öðru starfi hópanna þar sem vitnað er í tiltekna umræðu og í tiltekna fundarmenn er nauðsynlegt að það sé gert í samráði við viðkomandi og formann hópsins. Sé þetta ekki virt er hætta á að grafið sé undan trúnaði sem þörf er á að ríki innan hóps. Það er mikilvægt að meðlimir hópanna séu allir á einu máli um að gæta trúnaðar og brýnt að traust ríki innan þeirra.

5. Önnur mál

  • Samantekt frá umræðu á fundi velferðarvaktarinnar um barnaverndarmál 23. febrúar 2010 lögð fram.
  • Innheimtuaðgerðir vegna skólamáltíða, leikskólagjalda og frístundaúrræðum hjá Reykjavíkurborg: Samþykkt að stýrihópurinn sendi Reykjavíkurborg ályktun varðandi innheimtuaðgerðir.
  • Kristján Sturluson vakti mál á aðstæðum innflytjenda og var samþykkt að málefni þeirra verði sett á dagskrá velferðarvaktarinnar, einkum aðgengi þeirra að þjónustu.

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 23. mars 2010 hjá Eflingu kl. 14.00–16.00.

Fundargerð skráði Ingibjörg Broddadóttir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta